Þetta er viðtalið sem var týnt í sjö ár en kom svo í leitirnar

Hallgrímur Magnússon heitinn hafði sterkar skoðanir á heilsufari fólks.
Hallgrímur Magnússon heitinn hafði sterkar skoðanir á heilsufari fólks. Ljósmynd/Skjáskot Youtube.com

Þóra Karitas Árnadóttir leikkona og leikstjóri fann sjö ára gamla upptöku með viðtali við Hallgrím Magnússon heitinn á dögunum en hann féll frá 2015. Viðtalið var tekið af Siggu Helgu Jacobsen og tekið upp af Einari Árnasyni en fór aldrei í loftið því upptakan týndist.

Hallgrímur var mikils metinn á sínu sviði en hann fór óhefðbundnar leiðir. Hann lauk læknanámi frá Háskóla Íslands 1976 og sérnámi í svæfingalækningum í Gautaborg 1983. Hann var þeirra skoðunar að það væri ekki lausn að dæla endalausum lyfjum í fólk heldur þyrfti náttúruheimurinn og læknavísindin að tala saman. 

„Þetta er bara mjög hefðbundið viðtal með áherslu á umfjöllun um streitu. Þetta var bara heimilisiðnaður, reyndar með tækjabúnað að láni hjá Saga film, en við tókum viðtalið upp á heimili og að beiðni vinkonu minnar Siggu Helgu sem á eins og margir Hallgrími margt gott að þakka og hún vildi leyfa fleirum að njóta góðs af hans lífssýn en Einar Árnason bróðir minn sem er myndatökumaður á Stöð 2 annaðist upptökuna. Viðtalið var svo týnt í sjö ár, en fannst núna svo ég setti það saman og hlóð því niður á Youtube í því skyni að senda til ástvina hans því Hallgrímur lést í mjög hryggilegu bílslysi árið 2015. Hallgrímur var mikils virtur í sínu fagi og margir sem eiga honum heilsu sína að þakka því hann var óhræddur við að fara sínar eigin leiðir en á fyrsta sólarhringnum voru mun fleiri en við bjuggumst við sem horfðu á viðtalið og greinilega margir sem vilja hlýða á boðskap hans og kannski er rétta tímasetningin fyrir hann einmitt núna,“ segir Þóra Karítas. 

Hvað finnst þér áhugaverðast við þetta viðtal?

„Hann kemur þessu svo vel frá sér en ég held það leynist mikilvægur sannleikur í því að í hinum vestræna heimi er okkur er uppálagt að eta, drekka og skemmta okkur en leita svo til lækna ef eitthvað bilar, í stað þess að við séum sífellt minnt á að styrkja kerfið okkar og lífskraftinn og fyrirbyggja þar með sjúkdómana og taka þá með í reikninginn lífsviðhorf og andlega þáttinn.“

Hefur þú tileinkað þér eitthvað af því sem Hallgrímur talar um þarna?

„Líklega það að taka ábyrgð á eigin heilsu og án þess að ég vissi það þá líður mér alltaf best af því að borða stóra máltíð í hádeginu eða um tvö leytið - en hann talar um mikilvægi föstu og að eftir fjögur á daginn eigi maður ekki að fara í þungar máltíðir. Ég mundi mest eftir magnesium áherslunni en fór þó ekki sjálf að taka markvisst inn magnesium fyrr en fyrir tveimur árum og það hefur haft mikið að segja fyrir mig. Svo reyni ég að skapa rými fyrir hugleiðslu og bænin er aldrei langt undan. Ég var korter í kulnun á síðasta ári eftir ástvinamissi í kjölfarið á erfiðum veikindum þar sem ég var nánasti aðstandandi og ég vildi ná í skottið á mér áður en afleiðingarnar yrðu alvarlegar og snúa vörn í sókn. Þá þurfti ég mikla og markvissa hvíld. Hvíldin er oft lykillinn að endurnýjun og þar kemur hugleiðslan inn í eins og Hallgrímur talar um. Ég ákvað að sækja í náttúruna og gera sjósund og jóga að reglulegri ástundun og finnst líka gott að fara í fjallgöngur og á hestbak til að efla andann og lífsorkuna. Mér finnst Hallgrímur útskýra svo vel mikilvægi þess að grunnurinn að heilsunni liggur í að efla andann og líklega á lífssýn hans erindi við okkur öll núna í þessu kórónuveiru ástandi. Við vitum að hreyfingin er mikilvæg og sumum nægir að passa upp á hana til að andinn eflist en það er flott að fá fleiri hugmyndir og pælingar í pottinn frá Hallgrími heitnum og því ótrúlega gleðilegt að upptakan komst í leitirnar,“ segir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál