Var of grönn á hátindi frægðarinnar

Debra Messing.
Debra Messing. AFP

Leikkonan Debra Messing viðurkenndi á dögunum að hún hefði verið of grönn í gamanþáttunum Will & Grace. Messing fann fyrir miklum þrýstingi að léttast en hún fór úr því að vera í stærð átta þegar þættirnir byrjuðu árið 1998 niður í stærð tvö.  

„Þegar ég byrjaði í Will & Grace var ég í stærð átta og það sem gerðist var að í hvert skipti sem ég fór í mátun þá passaði ég ekki í fötin. Í áttatíu prósent tilvika passaði ég ekki í fötin og ég fór hatandi líkama minn og mig,“ sagði Messing um líðan sína við leikkonuna Jameela Jamil í hlaðvarpsþættinum I Weigh. Jamil sem er dugleg að tala um líkamsvirðingu segir að í lok tíunda áratugarins hafi leikkonur verið sérstaklega grannar og nefnir þar Jennifer Aniston og Courtney Cox í Friends og Calistu Flockhart sem dæmi. 

„Ég elskaði búningahönnuðinn minn. Hún sagði alltaf: „Ekki hafa áhyggjur.“ Hún talaði við aðstoðarmann sinn og sagði: „Allt í lagi, getur þú hringt og fengið stærri stærð?“ Og það var alltaf að endurtaka sig.“

Messing hugsaði með sjálfri sér að líf hennar og vinna annarra væri auðveldara ef hún myndi grennast. „Svo ég byrjaði að gera jóga á hverjum degi og fékk mat sendan,“ sagði Messing sem fékk hrós þegar hún fór niður í stærð sex. 

Leikarar Will & Grace á Emmy-verðlaunahátíðinni árið 2000.
Leikarar Will & Grace á Emmy-verðlaunahátíðinni árið 2000. SAM MIRCOVICH

Messing rifjaði upp þegar hún fékk tilnefningu til Emmy-verðlaunanna og Golden Globe. Hún lýsir upplifuninni hræðilegri þar sem hún passaði ekki í kjólana sem hún prófaði og þegar hún stóð við hliðina á hinum leikkonunum leið henni eins og hún væri feit og ljót. „Ég horfi til baka á þessar myndir og ég var falleg. Ég syrgi þá staðreynd að þetta var túlkun mín á raunveruleikanum og þetta var kvöl sem ég gekk í gegnum.“

Að lokum grenntist Messing svo mikið að hún fór niður í fatastærð tvö. 

„Ég var allt of grönn,“ viðurkenndi Messing. „En veistu hvað í þessum mátunum passaði ég í allt. Og allt í einu passaði ég í allt sem var hátíska. Svo allt í einu virtist allt opið vegna þess að ég var í stærð tvö,“ segir Messing en bætti því við að hún hafi ekki getað viðhaldið stærðinni. Hún var búin á því og það kom í ljós að hún gat ekki verið hraust og í fatastærð tvö á sama tíma. 

mbl.is