Byrjaði að skrifa bókina á geðdeildinni

Silja Björk byrjaði að skrifa bókina sumarið 2013.
Silja Björk byrjaði að skrifa bókina sumarið 2013. Ljósmynd/Sunna Ben

Rithöfundurinn Silja Björk Björnsdóttir gaf út sína fyrstu bók nú í sumar. Bókin, Vatnið, gríman og geltið er nokkurs konar sjálfæviskeiðssaga. Í grunninn er hún byggð á dagbókarfærslun Silju sem hún skrifaði sumarið 2013 þegar hún var þunglynd og bjó í London og svo eftir sjálfsvígstilraun og veru á geðdeild. 

„Skrifin voru einhvern veginn bara mín leið til þess að vinna mig úr þessum hlutum, sambandsslitum, þunglyndi, fyrri áföllum og lífinu. Það hjálpaði mér að ná röð og reglu á hugsunum mínum. Þetta var bara skjal í tölvunni titlað „11.03.92“ sem er afmælisdagurinn minn og ég greip í þetta endrum og eins þegar mér leið illa eða þurfti að koma einhverju frá mér. Það var svo ekki fyrr en tveimur árum síðar að ég fór að hugsa með mér, að kannski gæti þetta orðið bók.“

Silja segir það alltaf hafa verið draum sinn að skrifa bók og að hún hafi alltaf verið skrifandi. Sem barn skrifaði hún sögur og ljóð og á unglingsárunum skrifaði hún hugleiðingar og pælingar. 

„Þó svo þetta sé nokkurs konar ævisaga þá er hún ljóðræn og hugvekjandi, fremur en þurr upptalning á mínu lífi. Ég flétta í gegnum hana þrjár myndlíkingar sem endurspeglast í titli bókarinnar. Vatnið er uppspretta alls lífs og hringrás okkar. Vatnið endurspeglar sjálfið og tilfinningalíf okkar. Gríman er vísun í þær grímur sem við setjum upp sem þátttakendur í samfélaginu en líka þær grímur sem við geðsjúklingarnir setjum upp af ótta að það komist upp um okkur.

Geltið vísar svo í þekkta myndlíkingu, að þunglyndi sé eins og að búa með svörtum hundi, mér finnst eins og þunglyndið hafi stundum elt mig eins og geltandi vítishundar og suma æra þeir í gröfina. Þannig að bókin tekur nokkur skáldaleyfi og ég leik mér með myndlíkingar og tungumálið, til þess að reyna að útskýra þessar furðulegu og flóknu tilfinningar sem fylgja þunglyndinu,“ segir Silja.

Allt frá árinu 2013 hefur Silja tekið virkan þátt í að opna umræðuna um andlega heilsu en þá skrifaði hún sína fyrstu grein sem bar titilinn „Þunglyndi er líka sjúkdómur“.

„Þótt það séu ekki nema sjö ár síðan, þá var bara alls ekki mikið talað um þessi geðheilbrigiðsmál fannst mér. Þetta var svolítið afmörkuð umræða, en mig langaði að allir vissu þetta því öll erum við með geð og öll getum við orðið veik á geði rétt eins og við erum öll með líkama og getum öll orðið líkamlega veik,“ segir Silja. 

Mér fannst oft eins og það væri verið að reyna …
Mér fannst oft eins og það væri verið að reyna að breyta sögunni og breyta tilgangi bókarinnar, gera hana að sjálfshjálparbók eða einhverju sem sagan bara er ekki,“ segir Silja. Ljósmynd/Sunna Ben

Í kjölfarið fór hún að halda fyrirlestra í skólum fyrir unglingadeildirnar því hún hugsaði með sér að ef hún hefði fengið þessa fræðslu sem unglingur hefði hún ekki orðið jafn veik og hún varð eða lært að það er í lagi að líða illa.

„Síðan þá hef ég talað á TEDx-ráðstefnu í Reykjavík, ári eftir sjálfsvígstilraunina, fyrirlesturinn heitir „The Taboo of Depression” og þar ræddi ég um það hvað það er fáránlegt að mega ekki tala um þessi mál opinberlega, hvernig þetta er leyndarmál í hverri fjölskyldu. Árið 2015 efndi ég svo til samfélagsmiðlabyltingarinnar #égerekkitabú ásamt Töru Tjörvadóttur og Bryndísi S. Sæunni Gunnlaugsdóttur, en það var mjög mikilvægt skref í baráttunni hérna á Íslandi. Ég var svo þeirra forréttinda aðnjótandi að vera einn fjögurra geðsjúklinga í vönduðum heimildaþáttum Lóu Pindar, Bara geðveik, á Stöð 2. Þar var fylgst með okkur fjórum í gegnum heilt ár, í gegnum sigra okkar og ósigra og er það eiginlega skammarlegt að þættirnir hafi ekki fengið Eddutilnefningu, meira lof og athygli enda ekki á hverjum degi sem fjölskylda situr og ræðir sjálfsvígstilraun dóttur sinnar fyrir framan myndavélar. 

Ég hef svo unnið með Geðhjálp og hef setið í stjórn félagsins síðan 2019, sem hefur verið ótrúlega fallegt og lærdómsríkt ferli en þar hef ég fengið innsýn í vinkla og anga geðheilbrigðisbaráttunnar sem ég vissi ekki áður af.“

Gaf út bókina með hópfjármögnun

Fyrir um tveimur árum síðan ákvað Silja að láta slag standa og gefa út bókina. Mágur hennar er rithöfundurinn Mikael Torfason og las hann yfir handritið hennar og leiðbeindi henni sem hún kann vel að meta. 

Hún fékk fundi hjá nokkrum útgefendum og forlögum en það gekk eftir. „Mér fannst oft eins og það væri verið að reyna að breyta sögunni og breyta tilgangi bókarinnar, gera hana að sjálfshjálparbók eða einhverju sem sagan bara er ekki,“ segir Silja. 

Þá lagði hún handritið á hilluna í svolítinn tíma en þá var hún bæði sest á skólabekk í kvikmyndafræði í Háskóla Íslands og ólétt af sínu fyrsta barni. 

Kápan er hönnuð af Lilju Kristínu Svavarsdóttur.
Kápan er hönnuð af Lilju Kristínu Svavarsdóttur. Ljósmynd/Aðsend

„Í fæðingarorlofinu fékk ég svo þá hugmynd að gefa bókina bara út sjálf, í stað þess að rembast við eitthvert forlag. Það er auðvitað mikið ferli og tekur á fjárhagslega, en ég hópfjármagnaði bókina í gegnum Karolina Fund í fyrrasumar. Ég náði 100% söfnunarmarkmiði á innan við viku, en það voru einhverjar 3.000 evrur. Ég endaði með 135% söfnun, sem er alls ekki algengt. Fyrir þann stuðning er ég óendanlega þakklát því án þessa góða fólks sem trúði á mig hefði ég aldrei getað gefið bókina út. Ég stend í þessu öllu sjálf, með góðu fólki auðvitað. Ég réð Brynjar Jóhannesson sem aðstoðarritstjóra, fékk Lilju Kristínu vinkonu mína í kápuhönnunina og umbrotið, Steinunn Rut Friðriksdóttir sá um prófarkalestur og bæði Mikael og Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, lásu handritið og gáfu því umsögn á bókarkápuna.“

Grét oft við skrifin

Við skrifin gerði Silja upp veikindin og sjálfsvígstilraunina og segir það hafa tekið mikið á „Það var oft sem ég sat grátandi við skrifin en ég vissi bara að ég þyrfti að segja þessa sögu. Ég vissi að þarna úti væri fólk sem hefði gott af því að lesa þetta, sjá sjálft sig eða ástvini sína í þessari sögu og skilja betur hugarheim þeirra sem eru geðveikir. Það gengur ekki að okkar eina upplifun á geðveiki sé Páll úr Englum alheimsins, við þurfum líka að segja sögur þeirra sem lifa sjúkdómana sína af. Við þurfum að segja fjölbreyttar sögur frá sjónarhornum allra kynja, allra aldurshópa, allra kynþátta og allra króka og kima samfélagsins, vegna þess að við erum öll mannleg og raddir okkar allra eru mikilvægar,“ segir Silja. 

„Það erfiðasta í þessu ferli öllu saman hefur verið að gera upp þessi áföll og sætta sig við söguna mína eins og hún er. Þegar ég var að skrifa erfiðustu kaflana var ég oft andlaus eftir skrifin, vegna þess að ég endurupplifði þetta allt í gegnum skrifin. Ástarsorgina, bílslysið, sjálfsvígstilraunina, alla sorgina og allan sársaukann. Á sama tíma hefur það verið ómetanlegur lærdómur að vinna mig í gegnum þunglyndið mitt á þennan skapandi hátt. Ég hafði það að leiðarljósi að ég væri að skrifa þetta til þess að hjálpa sjálfri mér og öðrum. Ég hugsa alltaf þegar ég held fyrirlestra eða tala um söguna mína, að ef ég get hjálpað einni manneskju í hópnum, þá sé tilgangi mínum náð.

Það hefur verið göfgandi fyrir mig að geta notað þessa verstu lífsreynslu mína á þennan hátt. Ég vissi þegar ég kom út af geðdeildinni að mér stæðu tvær leiðir til boða. Annaðhvort að feta gamla, margtroðna veginn þar sem ég myndi bara vera sjúklingur, lifa á kerfinu, láta þunglyndið skilgreina mig og áorka engu vegna þess að ég vorkenndi sjálfri mér svo mikið. Ég gæti líka fetað þann veg sem var algjörlega ótroðinn fyrir mér, en það var að taka þessa lífsreynslu og gera eitthvað gott úr henni. Ég trúi ekki á guði en ég trúi á alheiminn og ég trúi því að allt gerist af ástæðu. Ég trúi því að þér séu aldrei gefin spil sem þú getur ekki spilað úr. Þannig að ég hélt í þá trú að þetta væri minn tilgangur, þetta væri mitt hlutverk – að hjálpa öðrum með því að deila því sem ég upplifði sem geðsjúklingur,“ segir Silja.

Óvirkur geðsjúklingur

Spurð að því hvort hún sé sama Silja og lagðist inn á geðdeild árið 2013 segir Silja að svo sé ekki. Hún sé vissulega enn geðsjúklingur, enn þá þunglynd en hún sé í bata. 

„Ég segi stundum að ég sé „óvirkur geðsjúklingur“ því ég veit að þunglyndið er hluti af mér og minni persónu en akkúrat núna hefur það lítil áhrif á mitt líf. Ég hef blessunarlega ekki orðið svona veik aftur eins og ég var þarna fyrir sjö, tíu árum en það er líka vegna þess að ég hef unnið að því með blóði, svita og nóg af tárum að komast á þennan stað. En þetta er stöðug vinna, ég þarf stöðugt að vinna í sjálfri mér og tilfinningum mínum, svo ég verði ekki aftur svona veik. 

Kosturinn við það að vera núna opinber geðsjúklingur er sá að ég „get“ ekki orðið svona veik aftur, núna myndu allir sjá það og fatta það. Það er svo fallegt frelsi fólgið í því að geta bara komið til dyranna eins og ég er klædd, þunglyndið og allt. Ég þarf ekki lengur að fela mig bak við grímurnar, ég heyri ekki lengur hávært geltið í hundunum og sigli ekki lengur ólgusjó tilfinninga heldur svamla bara um í fallegu stöðuvatni. 

Ég er mjög „heppinn“ geðsjúklingur ef svo má að orði komast. Ég hef aldrei verið beitt ofbeldi eða nauðung, eg hef aldrei verið svipt frelsi eða sjálfræði og þó svo geðheilbrigðiskerfið hafi ekkert gert til þess að koma til móts við mig þá er sagan mín mjög róleg miðað við sögur annarra. Ég hef blessunarlega getað unnið úr mínum veikindum en sumum tekst það aldrei. Ég er því óendanlega þakklát fyrir mig, mína sjálfsvinnu og stöðu mína í samfélaginu og það að geta verið barátturödd fyrir þau sem engar raddir hafa.“

Hægt er að kaupa Vatnið, gríman og geltið á Heimkaup.is.

„Ég er enn þá geðsjúklingur, ég er enn þá þunglynd …
„Ég er enn þá geðsjúklingur, ég er enn þá þunglynd en ég er í bata. Ég segi stundum að ég sé „óvirkur geðsjúklingur“ því ég veit að þunglyndið er hluti af mér og minni persónu en akkúrat núna hefur það lítil áhrif á mitt líf.“ Ljósmynd/Sunna Ben
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál