Átröskunin ekki móður hennar að kenna

Amelia Gray Hamlin segir átröskunina ekki móður hennar að kenna.
Amelia Gray Hamlin segir átröskunina ekki móður hennar að kenna. Skjáskot/Instagram

Hin 19 ára gamla Amelia Gray Hamlin segir að móðir hennar, Lisa Rinna, hafi ekki valdið því að hún var með alvarlega átröskun. Móðir hennar, sem kemur fram í raunveruleikaþáttunum Real Housewives of Beverly Hills, hefur oft verið sökuð um að hafa brenglað líkamsímynd dóttur sinnar. 

Hamlin, sem vinnur fyrir sér sem fyrirsæta, segir að hún hafi lengi verið mjög veik af átröskun. Einn daginn hafi hún vaknað, litið í spegil og hugsaði með sér: „Vá, þú ert orðin svakalega grönn og það er frekar ógnvekjandi.“

Lisu Rinna hefur verið kennt um veikindi dóttur sinnar.
Lisu Rinna hefur verið kennt um veikindi dóttur sinnar. Skjáskot/Instagram

Hamlin ræddi veikindi sín í hlaðvarpsþáttunum Skinny Confidential. Hún segir að eitt sinn hafi hún einungis borðað súpu og drukkið sítrónuvatn með cayennepipar í 25 daga í röð. 

„Ég vaknaði svo heima hjá bestu vinkonu minni einn daginn. Foreldrar mínir og systir voru öll í bíl fyrir utan húsið og sóttu mig. Og ég var bara: Hvað eruð þið að gera hér, það var laugardagsmorgunn,“ segir Hamlin. Þá var fjölskylda hennar mætt til að fara með hana til læknis vegna átröskunar. 

Hún segist hafa orðið ótrúlega pirruð og ekki viljað hlýða þeim en á endanum farið til læknis. 

„Hann horfði á mig og sagði mér að með þessu áframhaldi yrði ég orðin 20 kíló eftir fjóra mánuði og myndi deyja,“ segir Hamlin. 

Hún segir þessi ummæli læknisins hafa hreyft við sér og hún hafi áttað sig á því að hún vildi ekki verða 20 kíló og deyja. 

„Mér finnst það ótrúlega leiðinlegt þegar fólk kennir mömmu minni um, því það er ekki henni að kenna að hún skuli vera fædd með svona grannan líkama,“ sagði Hamlin. 

Hamlin er fyrirsæta.
Hamlin er fyrirsæta. Skjáskot/Instagram
mbl.is