Stýrði æfingaferðum með útrásarvíkingum

Kjartan Guðbrandsson er gestur Sölva Tryggvasonar.
Kjartan Guðbrandsson er gestur Sölva Tryggvasonar. Skjáskot/Instagram

Kjartan Guðbrandsson einkaþjálfari er líklega eini Íslendingurinn sem hefur unnið keppnir í kraftlyftingum, vaxtarrækt, aflraunum, hreysti og skotfimi.

Kjartan, sem byrjaði að æfa með Jóni Páli Sigmarssyni, margföldum sterkasta manni heims, sem unglingur er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar. Kjartan hefur þjálfað ógrynni fólks af öllum stærðum og gerðum, en fyrir hrun var hann orðinn nokkuð vinsæll hjá auðmönnum þar sem hann var pantaður í 4-6 vkna ferðir þar sem hann stýrði mönnum eins og herforingi.

„Fyrsti túrinn minn er Kanaríeyjar og svo annar til Kúbu sem var mögnuð ferð og síðan koma Taílandstúrar alveg magnaðir, þar sem var æft stíft í fjóra daga og hvílt í einn á milli. Sex til sjö vikna túrar þar sem tekin voru stundum allt upp í 20 kíló eða meira af mönnum ... Í túrnum á Kúbu var ég með einum sem léttist mjög hratt af því ég hafði valið eitthvert afdalasvæði þar sem við vorum í algjöru harki við að finna eitthvað að borða. Þetta var mestmegnis bara hvítt brauð með tómatsósu og í gymminu var bara eitthvert gamalt rússneskt dót, en alveg geggjaður andi. Það var æðislegt kaffi þarna, en maturinn aðallega hvítt brauð, einhverjir ávextir af trjánum og svo „paladres“, þar sem maður fór inn á heimili og maður vissi ekkert hvað var í matinn. Við átum allan andskotann í þessari ferð.“

Kjartan segir að ferðirnar til Taílands hafi verið frábærar fyrir margra hluta sakir.

„Þetta voru skemmtilegar ferðir. Taíland er frábært land með yndislegu fólki. Það var æft grimmt og borðað hollt. En þarna fékk ég líka mín fyrstu kynni af ákveðnu andlegu ferðalagi þegar ég hitti 106 ára gamlan munk í klaustri úti í skógi. Hann leit út eins og hann væri sextugur, teinréttur og flottur. Hann fór að segja mér sögur af Íslandi þó að hann hefði aldrei farið út úr klaustrinu. Hann lýsti Íslandi, dölunum, fjöllunum og lömbunum eins og hann væri að horfa á sjónvarpsþátt. Þarna varð ég fyrir miklum áhrifum.“

Kjartan var náinn vinur Jóns Páls Sigmarssonar og var með honum á æfingunni þegar Jón Páll dó. „Gym 80 var á frábærri leið þegar Jón Páll fór. Þetta var gríðarlegt sjokk og eiginlega svo mikið sjokk að ég náði mér bara ekkert eftir það. Þetta átti ekki að geta gerst. Jón Páll var rosaleg fyrirmynd. Ég var svo heppinn að fá að ferðast með honum og sjá hvað hann var vinsæll erlendis. Hagmæltur, fyndinn, fljótur að hugsa. Hann var með allan pakkann. Ofboðslega aðlaðandi maður, góður karakter og góður vinur. Hann nýtti sína orku í ofurmannlegan „fókus“ og setti allt í að verða bestur.“

Í viðtalinu fara Sölvi og Kjartan yfir lífshlaup Kjartans, sem hefur upplifað ýmislegt sem er lyginni líkast, eins og tímabilið þegar hann þjálfaði einn ríkasta mann Grikklands. Þeir hittu kraftaverkafólk, keyrðu um Evrópu á Lamborghini og leituðu að geimskipum með leynisamtökum.

Þáttinn má nálgast á nýjum hlaðvarpsvef mbl.is og einnig hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál