„Allar bólgur í líkamanum hurfu og mér líður einfaldlega mun betur“

Elísabet Reynisdóttir næringarfræðingur.
Elísabet Reynisdóttir næringarfræðingur.

Elísabet Reynisdóttir næringarfræðingur lærði fagið til þess að ná tökum á eigin heilsu. Hún segir að áföll á lífsleiðinni hafi áhrif á heilsuna og bendir á að það þurfi að hugsa heilsuna heildrænt og að andleg og líkamleg heilsa þurfi að fara saman. 

Hvað finnst þér vera aðalmálið þegar kemur að heilsunni?

„Aðalmálið finnst mér vera að hugsa um heilsuna heildrænt, það er bæði andlegu og líkamlegu heilsu okkar. Ég sé það svo oft þegar ég fæ fólk til mín í ráðgjöf hvað það skiptir miklu máli að vinna vel með andlega líðan og geðheilbrigði og hversu mikilvægt það er fyrir fólk að ná að vinna úr þeim áföllum sem það hefur orðið fyrir á lífsleiðinni. Andleg líðan getur haft mikil áhrif á hvaða næringu fólk velur sér, hversu mikið það borðar og hversu oft. Fólk er oft að borða til að „hygge sig“, vegna tilfinninga eins og sorgar eða reiði en ekki vegna þess að það finnur til svengdar.“

Hvað er fólk að borða sem þér finnst að það ætti ekki að vera að borða?

„Í dag, eins og svo oft áður, er fólk á einhverjum sérstökum matarkúrum, eða þá að það er algjörlega ómeðvitað um það hvort það er að borða of mikið eða of lítið. Mér finnst ég til dæmis núorðið sjá það í meira mæli að fólk er að borða of lítið. Það eru ekki endilega fæðutegundirnar sem skipta máli hér heldur þessi „ómeðvitund“ um hvað fólk er að láta ofan í sig. Þetta er líka spurning um samsetningu fæðunnar, á hvaða tíma dags fólks er að borða og hvað það borðar og þá hvenær.“

Hvers vegna lærðir þú næringarþerapíu?

„Hreinskilnislega þá fór ég í námið til að bjarga eigin heilsu. Í nokkur ár eftir að ég tapaði heilsunni, og eftir að hafa reynt og upplifað ansi margt og mörg áföll, komst ég að því að andleg vinna og rétt næring væri það sem helst gæti komið mér í gegnum veikindin og læknað mig. Sem það og gerði. Ég er alveg sannfærð um að það var námið í næringarþerapíunni sem hreinlega bjargaði mér. Eftir að hafa klárað það nám ákvað ég að bæta við mig námi í næringarfræði við Háskóla Íslands og er því einnig með mastersgráðu í næringarfræði.“

Hvað er mikilvægt að gera á hverjum degi til að bæta heilsuna?

„Anda inn í daginn, sýna þakklæti og brosa. Sjálf fer ég með þakkarbænir á hverjum morgni og geri teygjur. Eftir það er ég 100% tilbúin í daginn og mun líklegri til að taka ákvarðanir sem reynast mér til heilla.“

Nú ertu að setja á markað nýja línu af vítamínum. Segðu mér aðeins betur frá því.

„Vítamín er ekki það sama og vítamín! Þegar ég fór að leita að vítamínum sem myndu henta mér sem best rakst ég á þýskan aðila sem framleiðir vítamín sem mér leist svo vel á. Úr varð að ég flaug út til að hitta framleiðandann, rétt áður en kórónuveirufárið skall á, og nú er að koma á markað vítamínlína sem við hönnuðum í sameiningu út frá mínum hugmyndum. Vítamínin eru með sérstakri „fituhúð“ sem eykur líkurnar á upptöku þeirra í líkamanum og að þau skili sér í raun og veru til frumna líkamans en skolist ekki bara út þegar við pissum. Ég er mjög spennt að kynna þessi nýju vítamín, er hreinlega eins og lítil stelpa að bíða eftir jólunum! Fyrsta sendingin kemur um miðjan september og ég hlakka svo til að kynna vörurnar.“

Ef fólk er á þeim stað að vera endalaust sólgið í sætindi og skyndibita, eins og á við um svo marga, er eitthvað hægt að gera til að slökkva á þeirri löngun?

„Já, breyttu hugsun þinni! Við breytum ekki mataræði okkar með því að fylgja því sem einhver annar segir okkur að gera. Það sem skiptir máli er hvernig við hugsum um matinn, að við borðum í meðvitund og munum að matur er fyrst og fremst næring. Einnig er mikilvægt að skoða hvernig samsetning fæðunnar er og hvenær við borðum, til dæmis með því að borða kolvetni seinni part dags frekar en fyrri partinn. Það gerir það að verkum að blóðsykurinn verður stöðugri sem þýðir minni löngun í sætindi. Svo má ekki gleyma að tyggja matinn alltaf vel og borða hægt.“

Hvernig breyttist líf þitt þegar þú breyttir um lífsstíl?

„Allar bólgur í líkamanum hurfu og mér líður einfaldlega mun betur á allan hátt. Mér finnst mikilvægt hér að það komi fram að það er ekki útlitið sem skiptir mestu máli þegar við tölum um mikilvægi hollrar næringar og góðar matarvenjur. Þegar við nærumst vel, líður okkur vel. Við erum líklegri til að viðhalda góðri heilsu, andlegri og líkamlegri, ef við pössum upp á að fá öll þau næringarefni sem líkaminn þarf á að halda. Þannig aukum við lífsgæðin.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »