„Ég var ekki lengur þybbin – ég var orðin feit“

Freyja Th. Sigurðardóttir breytti um lífstíl í fyrra þegar hún …
Freyja Th. Sigurðardóttir breytti um lífstíl í fyrra þegar hún byrjaði á ketó. mbl.is/Árni Sæberg

Freyja Th. Sigurðardóttir er 30 kílóum léttari í dag en í maí í fyrra en þá byrjaði hún á ketómataræðinu. Ofþyngdin kom aftan að henni en eftir að hún byrjaði á ketó fann hún sína hillu. Freyju gekk bæði betur í námi og starfi og telur að aginn á ketó hafi smitað út í aðra þætti lífsins. 

„Ég var orðin mjög slæm, líkamlega, og mér leið ekki vel. Ég hafði enga stjórn á því hvað ég borðaði, ég lét ofan í mig mikla óhollustu og mikið af henni,“ segir Freyja um ástandið á sér áður en hún byrjaði á ketó. 

„Ég er með endómetríósu og var orðin frekar slæm. Áður en ég fór í legnám var ég á blæðingum meira og minna í rúm fjögur ár, með mjög stuttum hléum inn á milli. Þegar ég var að búa mig andlega undir aðgerðina sá ég að offita er áhættuþáttur í skurðaðgerðum. Þetta er nokkuð sem ég hafði heyrt en tengdi aldrei neitt við fyrr en þarna. Þetta var bara eitthvað sem kom fyrir aðra – eins og svo margt annað. Ég fór líka að hugsa út í aðra lífsstílstengda sjúkdóma eins og sykursýki og svoleiðis. Ég var ekki lengur þybbin – ég var orðin feit! Ég hafði heyrt um ketó, mamma hafði prófað það með góðum árangri og ég ákvað að prófa. Ég tók þrjár vikur og fannst það frábært en ákvað svo að hugsa ekki út í það aftur fyrr en ég væri búin að fara í aðgerðina og orðin betri. Þegar ég var búin að jafna mig eftir legnámið fór ég aftur af stað, í maí 2019, af fullum krafti og síðan varð ekki aftur snúið.“

Freyja hafði oft áður reynt að borða hollan mat og borða minna en það gekk illa hjá henni. Hún sprakk alltaf eftir stuttan tíma.

Gott skipulag lykillinn

Freyja væri að skrökva ef hún segði að það væri bara auðvelt að vera á ketó. Eftir á að hyggja er hún hissa á að hún skyldi komast í gegnum fyrstu mánuðina. Hún starfaði sem leiðsögumaður þegar hún byrjaði á ketó og fór í allt að tíu daga ferðir. Hún borðaði því mikið á veitingastöðum og vegasjoppum en tókst þrátt fyrir það að halda sig á ketó. 

„Í lok sumarsins kom ég heim, hætti að vinna og byrjaði í Háskólanum í Reykjavík. Það var allt annað líf að sjá um matinn sjálf. Ég komst fljótt að því hvað það skiptir miklu máli að skipuleggja sig vel. Ég þurfti að taka með mér nesti í skólann, þannig að ég vandi mig á að elda alltaf tvöfalt á kvöldin – stundum eldaði ég mun meira en það og frysti. Sunnudagarnir fóru margir í að elda og undirbúa mat sem fór í kæli og frysti fyrir vikuna. En með góðu skipulagi er þetta alls ekki mikið mál.“

Freyja er 30 kílóum léttari en hún var þegar hún …
Freyja er 30 kílóum léttari en hún var þegar hún byrjaði á ketó. mbl.is/Árni Sæberg

Freyja tekur ekki svindldaga en hefur þrisvar tekið sér pásu á þessu rúma ári síðan hún byrjaði á ketó. 

„Fyrst var það um jólin. Þá fór ég með sambýlismanninum til Þýskalands og ég bara gat ekki hugsað mér að leyfa mér ekki að borða hvað sem var á ferðalagi yfir jólin. En hjá mér er það alltaf allt eða ekkert, og þarna át ég allt. Og mikið af því. Ég sé þannig séð ekkert eftir því en þegar ég kom heim var líkaminn þvílíkt farinn að kalla á ketó,“ segir Freyja, sem missteig sig líka í byrjun kórónuveirufaraldursins eins og svo margir aðrir.

Hún leyfði sér einnig allt þegar hún fór í hringferð um landið í sumar. Hún segir alltaf jafn gott að byrja á ketó aftur. Fyrstu dagarnir geta verið erfiðir en svo fer henni fljótlega að líða betur. Freyja vigtar ekki allt sem hún borðar en tekur viku og viku annað slagið til þess að fá tilfinninguna fyrir hlutföllunum. „Ég reyni að vera undir 20 g af kolvetnum á dag, ég held að flesta daga sé ég þar í kring.“

Hætt að pæla í þyngdinni

Í dag er Freyja 30 kílóum léttari en þegar hún byrjaði á ketó en jafnframt hætt að pæla í þyngdinni en hún var á tímabili upptekin við það. Í dag er markmiðið ekki einhver tala á vigtinni heldur sterkari líkami.

„Ég hélt alltaf að ég væri með svaka vöðva þarna undir allri fitunni, en nú er komið í ljós að svo er alls ekki. Það er ekkert þarna! Ég er allt í einu með flatan rass, ég bjóst aldrei við að það myndi gerast,“ segir Freyja sem fór nýlega út fyrir þægindarammann og byrjaði í crossfit.  

Breytt líkamleg líðan helst í hendur við legnámið sem Freyja fór í vegna endómetríósunnar. Eftir mörg ár af verkjum og blæðingum líður henni betur.

„Ég held að aðgerðin og ketó hafi verið blandan sem bjargaði mér algjörlega. Í fyrra hljóp ég tíu kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar Samtökum um endómetríósu. Ég hafði alveg hlaupið tíu kílómetra áður en þetta var stórsigur í mínum augum, svona stuttu eftir aðgerðina og allt það. Ég var þá búin að vera á ketó í þrjá mánuði og var orðin talsvert léttari en þegar ég byrjaði, og ég veit að það hjálpaði,“ segir Freyja, sem hljóp aftur tíu kílómetra í ár fyrir samtökin.

Freyja bendir einnig á að tímabilið sem hún hefur verið á ketó hafi verið frábært hjá henni andlega.

„Mig hefur aldrei vantað metnaðinn, en drifkrafturinn var aldrei í samræmi við metnaðinn. Það er breytt, en síðan ég byrjaði á ketó hefur mér gengið betur í námi og starfi en áður. Ég fékk einkunnir sem mig hafði aðeins dreymt um áður, því drifkrafturinn og „nennan“ voru í samræmi við metnaðinn. Ég held að aginn sem ég þróaði í kringum ketó hafi smitast yfir á aðra þætti í lífinu. Líka það að sjá að ég get tekist á við eitthvað svona, svona krefjandi verkefni, það er hvetjandi og smitast yfir á önnur svið í lífinu. Maður þarf að hugsa í lausnum og kannski svolítið út fyrir rammann. Þetta er búið að vera alveg frábært. Auðvitað koma hindranir, ástandið í kringum Covid var og er ekkert að hjálpa, en það þýðir ekkert annað en að horfa fram á við og halda áfram að gera sitt besta.“

Aginn og góður árangur á ketó hefur smitaast út frá …
Aginn og góður árangur á ketó hefur smitaast út frá sér. Freyju byrjaði til dæmis að ganga mjög vel í skóla. mbl.is/Árni Sæberg

Hættir þú alveg að borða sykur?

Ég hætti alveg að borða sykur og það kom mér á óvart hvað það er í rauninni lítið mál! Ég er algjör nammigrís og ég hætti því sko ekki á ketó. Ég vel bara aðrar vörur og önnur hráefni. Það eru sætuefni önnur en sykur sem hafa lítil sem engin áhrif á blóðsykurinn og ég vel þau. Það er mun minna úrval af því nammi í búðum, en það er eitthvað. Það þarf samt að passa sig, það er fullt af nammi sem er sykurlaust en er með öðrum sætuefnum sem eru ekkert mikið skárri. Eftir smá tíma og smá grúsk lærir maður inn á þetta og veit hvað er í lagi. Ég á blóðmæli sem ég nota til að mæla ketóna og blóðsykur, og ég prófa það stundum þegar ég prófa nýtt nammi, til að sjá hvernig líkaminn bregst við því.

Boðar fagnaðarerindi ketó á Instagram

Mann langar alltaf að standa upp og predika fyrir öðrum hvað þetta sé frábært, en ég vil samt ekki vera leiðinlega gellan. Þegar fólk spyr, því margir eru forvitnir en finnst þetta hljóma svo flókið, finnst mér alveg frábært að geta hjálpað og svarað spurningum. Ég opnaði instagramreikning þar sem ég birti myndir af mörgu sem ég elda og baka, og set svona brot úr daglega lífinu í Story.

Margir halda að ketó sé bara egg og beikon, en þetta er svo miklu meira. Ég borða til dæmis mun meira grænmeti í dag en ég gerði áður. Eldamennska og bakstur er orðin algjör ástríða hjá mér, nokkuð sem ég hafði takmarkaðan áhuga á áður og mér finnst mjög skemmtilegt að deila því með öðrum. Örfáir hafa lýst yfir áhyggjum, að þetta sé ekki heilbrigt og svoleiðis. En hvar var það fólk þegar ég borðaði brauð og skyndibita í öll mál? Því það var sko ekki heilbrigt líferni. Langflestir hafa samt verið mjög jákvæðir og ég hef fundið fyrir miklum stuðningi frá fólkinu í kringum mig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál