Hefur lítið fyrir ofurhetjuvextinum

Jason Momoa sem Aquaman
Jason Momoa sem Aquaman

Leikarinn Jason Momoa minnir einna helst á ofurhetju í vexti. Vöðvastælta hollywoodstjarnan viðurkennir að lyfta lóðum en klifur á hug hans allan. Hann virðist ekki vera eins agaður og margir kollegar hans hvað viðkemur hreyfingu og mataræði. 

„Þetta er bara í ættinni,“ sagði Momoa í viðtali við desemberútgáfu Men's Health. „Fólk frá Havaí er stórt fólk. Ég klifra mikið í klettum. Kannski er ég api. Ég elska hvernig mér líður eftir klifur. Mér finnst gott að vera á hvolfi. Ég elskaði alltaf að klifra í trjám sem krakki og sveifla mér í golunni. En að lyfta lóðum er krefjandi.“ 

Momoa hugsar líka um það sem hann lætur ofan sig en vill gera betur í þeim efnum. Áramótaheitið hans fyrir næsta ár er að borða minna kjöt vegna umhverfisástæðna. Það verður þó erfitt þar sem hann segist elska kjöt. Hann stefnir einnig á að minnka bjórdrykkju. 

„Mig langar líka að fara frá því að vera helsti aðdáandi Guinness yfir í að vera bara mjög mikill aðdáandi Guinness.“

Auk þess að klifra og lyfta einstaka sinnum lóðum hefur Momoa prófað jóga. Hreyfinguna segir hann gríðarlega erfiða.

„Ég prófaði jóga um daginn og það var það erfiðasta sem ég hef gert á ævinni. Ég myndi frekar vilja lyfta bíl. Að klifra El Capitan væri auðveldara en að iðka jóga í tvo tíma.“

Jason Momoa prófaði jóga með eiginkonu sinni Lisu Bonet.
Jason Momoa prófaði jóga með eiginkonu sinni Lisu Bonet. AFP
mbl.is