Æfði þrettán sinnum í viku og var aldrei ánægð

Sylvía Ósk Rodriguez ásamt eiginmanni sínum og börnum.
Sylvía Ósk Rodriguez ásamt eiginmanni sínum og börnum.

Fyrir ellefu árum æfði Sylvía Ósk Rodriguez þrettán sinnum í viku. Hún var með útlit sitt á heilanum og gerði allt til að ná einhverskonar fullkomnum. Í dag hefur hún náð tökum á heilsunni.

Sylvía er gift tveggja barna móðir og vinnur á leikskólanum Uglukletti í Borgarnesi. Hún er einnig þroskaþjálfi og ÍAK-einkaþjálfari.

„Um þessar mundir er ég líka að sækja mér viðbótardiplómu á meistarastigi við Háskóla Íslands í stjórnun menntastofnana svo það er nóg að gera á heimilinu. Fyrir kórónuveiruna var ég aðeins farin að reyna fyrir mér á kraftlyftingamótum og árið 2020 átti að vera árið mitt á því sviði en svo fór sem fór. Ég mun reyna fyrir mér á því sviði á nýju ári.“

Hvað finnst þér einkenna góða heilsu?

„Fyrir mér er heilsa ekki bara það sem þú sérð í speglinum heldur snýst heilsa um svo mikið meira en það. Heilsa fyrir mér er jafnvægi, bæði andlega og líkamlega. Það er staðurinn þar sem þú lifir samkvæmt heilbrigðum lífsstíl sem hentar þér og auðvelt er að viðhalda án þess að fara út í öfgar. Heilsa snýst ekki um að vera með sýnilega kviðvöðva árið um kring heldur að líða vel í eigin skinni, stunda hreyfingu sem veitir þér gleði og ánægju og borða mat sem er góður og hæfir þínum markmiðum hverju sinni.

Hér áður fannst mér heilsan snúast mest um að líta vel út út á við en eftir að hafa náð öfgakenndum útlitsmarkmiðum þá áttaði ég mig á að mér leið samt ekki vel andlega og var ekki sátt í eigin skinni. Ég keyrði mig út á æfingum þrettán sinnum í viku og borðaði tilbreytingarlausan mat til að ná ákveðnu draumaútliti en útlitið er einskis virði ef manni líður illa. Pressan sem ég setti á sjálfa mig að ná einhverri „fullkomnun“ varð til þess að lífið snerist um æfingar og boð og bönn í mataræði. Draumaútlitið var svo brenglað að erfitt var að viðhalda því og samband mitt við mat varð vægast sagt skelfilegt. Ég var lengi að vinda ofan af skaðanum sem þetta tímabil olli í mínu lífi. Ég þurfti að byggja aftur upp sjálfstraust og í raun sjálfsímynd ótengda mat og æfingum.

Í dag nálgast ég þetta af virðingu fyrir sjálfri mér og mínum líkama. Mín markmið í hreyfingu tengjast ekki útliti eða ákveðinni þyngd heldur set ég mér markmið sem tengjast framförum eins og að bæta þyngdir í ákveðnum lyftum, hlaupa x langt, hlaupa undir ákveðnum tíma eða þess háttar. Ég hreyfi mig ekki af illri nauðsyn heldur af því að ég nýt þess að hreyfa mig. Ég elska tilfinninguna að lokinni góðri æfingu og eru lyftingar mitt aðaláhugamál. Ég segi oft við fólk að hreyfing eigi aldrei að vera kvöð því þá brennur fólk út ansi hratt. Málið er að finna sér hreyfingu sem vekur raunverulega gleði og áhuga.“

Sylvía segir mataræði skipta mikla máli líka.

„Þá er ég ekki að meina að maður megi aldrei leyfa sér neitt heldur að finna jafnvægi í mataræðinu eins og annars staðar. Maður þarf að horfa á næringu eins og orku fyrir æfingarnar sínar, ef hún er af skornum skammti þá er ólíklegt að þú náir þínum markmiðum. Ég legg áherslu á að borða lítið unnan, hollan mat en ég leyfi mér samt líka það sem mér finnst gott. Ég elska sósur með öllum mat og er forfallinn súkkulaðiaðdáandi. En ég reyni þá að stilla matnum þannig upp að ég sé meðvituð um magn og leyfi mér kannski smá hvern dag eða er mjög dugleg alla vikuna og fæ mér svo aðeins meira nammi um helgar. Allt í góðu jafnvægi og er þetta aðferð sem hentar mér mjög vel og er án öfga. En það tók mig langan tíma að finna þann stað þar sem ég var í jafnvægi á öllum sviðum og er ég mjög hamingjusöm að vera komin á þann stað.“

Íslendingar í minni öfgum núna

Sylvía er ein þeirra sem reyna að forðast drama og stress.

„Ég er frekar opin og á þessum tímapunkti í lífinu þá vil ég bara vera ég sjálf og koma þannig fram. Hér áður var ég upptekin af því hvað öðrum fannst eða hvað aðrir voru að gera en ég er búin með þann tíma, ég kýs að haga mínu lífi eins og mig langar til, óháð áliti annarra. Mér finnst töluvert frelsi liggja í því að vera laus við þær áhyggjur, ég nýt mín betur og geri það sem mig langar þegar mig langar.“

Finnst þér Íslendingar vera á góðum stað í heilsumálum?

„Mér finnst við vera á mun betri stað en við vorum. Þegar ég var á mínu öfgatímabili fyrir rúmum ellefu árum þá var þetta leiðin sem fólk fór í heilsuátakinu sínu. Þá ríkti þetta allt eða ekkert-viðhorf. Flestir þjálfarar settu upp öfgakennd æfingaprógrömm með enn harðari matarprógrömmum sem leiddi til þess að fólk gafst fljótt upp eða þróaði með sér óheilbrigt samband við mat og æfingar líkt og ég gerði. Svo hefur maður séð í gegnum árin þegar nýjustu trendin detta inn og verða vinsæl að allir hoppa á sama vagninn, eins og LKL, ketó, Atkins, IM-föstur og alls kyns þannig trend. Í dag finnst mér vera komin meiri vakning um að það sem hentar einum hentar ekki endilega öðrum og að margir svona kúrar flækja bara hlutina. Fólk spyr sig líka frekar að ástæðunni að baki þess að því finnst það þurfa að breyta sínum lífsstíl. Kannski er ástæðan nefnilega ekki endilega þörf fyrir breytingu heldur kröfur um ákveðið æskilegt útlit. Að mínu mati var rosalega mikið um glansímyndir á samfélagsmiðlum síðustu árin og enginn vogaði sér að vera nokkuð minna en fullkominn þar og hafði það áhrif á aðra. Í dag er orðið mun meira um það að fólk komi hreint fram, það er á mynd þar sem það sést í appelsínuhúð, maginn krumpast þegar það situr eða það deilir mynd af mat sem er drekkhlaðinn af kaloríum og sykri en veitti hreina ánægjustund. Þetta telst bara eðlilegt, sem það er! En þetta er búið að taka langan tíma og fer alltaf í hringi en ég er að vona að þetta heilbrigða sjónarhorn haldi velli og fólk horfi gagnrýnt á samfélagsmiðla og það sem kemur fram þar.“

Fjölskyldan og heilsan það mikilvægasta í lífinu

Sylvía segir að hún sjái framtíðina fyrir sér þannig að hún verði áfram vinnandi á leikskólanum sínum.

„Enda ótrúlega skemmtilegur og styðjandi vinnustaður. Börnin verða orðin eldri svo hugsanlega get ég verið með einhverskonar þjálfun samhliða vinnu, því mér þykir það ótrúlega skemmtilegt starf líka. Ég verð eflaust enn röflandi um mikilvægi þess að allt sé í jafnvægi og að það að vera sáttur í eigin skinni trompi hvaða „sixpack“ sem er því góð vísa er aldrei of oft kveðin. Vonandi verð ég hlaupandi um landið takandi þátt í kraftlyftingamótum hér og þar.

Mér finnst það dýrmætasta í lífinu að vera hamingjusamur og að gera það besta úr því sem maður hefur hverju sinni. Ég trúi því staðfastlega að við veljum það að vera hamingjusöm. Það er mjög auðvelt að detta út í neikvæðni og vorkunn ef illa gengur en mín trú er sú að lífið er það sem að við sköpum og það er okkar hlutverk að sjá það góða og velja það að vera hamingjusöm í þeim aðstæðum sem við höfum.“

Sylvía segir fjölskylduna það dýrmætasta sem hún á sem og heilsuna líka.

„Ég reyni að passa vel upp á hvort tveggja, enda er það dýrmæt uppspretta hamingju í mínu lífi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál