„Ég refsaði mér í ræktinni með hundleiðinlegum æfingum“

Sandra Dögg Jónsdóttir.
Sandra Dögg Jónsdóttir.

Sandra Dögg Jónsdóttir jógakennari segir að hún hafi notað líkamsrækt til að refsa sér með, þar til hún kynntist jóga. Hún er hamingjusöm, glöð og frjáls í dag, en þannig var lífið ekki áður. Hún leiðir fólk í átt að meiri sjálfsmildi með jóganámskeiðinu Jákvæð líkamsmynd. 

„Ég var ósátt við sjálfa mig að öllu leyti. Ég stundaði grimmt niðurbrot og var minn versti óvinur. Mér fannst ég frekar lélegur pappír, var ósátt við spegilmyndina og refsaði mér í ræktinni í hundleiðinlegum þolæfingum og hoppiskopptímum. Ég vissi að ég þyrfti að hreyfa mig en markmiðið var aldrei að vera við góða heilsu. Ég var þjökuð af átröskun og sjálfsmyndin í molum. Með algjöru sjálfsofbeldi náði ég að halda mér þolanlegri en ég var aldrei sátt. Ég sé það í dag að ég var bara í sjálfsköpuðu fangelsi.“

Var tilbúin að taka út refsinguna

Sandra Dögg kynntist jóga fyrir algjöra slysni þegar hún fór í sinn fyrsta jógatíma fyrir átta árum síðan.

„Ég var tilbúin að taka út refsinguna sem ég taldi mig þurfa að sitja. Ég hafði heyrt að þetta væri eitthvað allt annað en ég var vön. Ég hafði svo sem ekki mikla trú á að ég mundi finna mig í þessari hreyfingu frekar en annarri en ég var örvæntingarfull og drifkrafturinn var svo sannarlega að verða mjó svo ég mundi nú passa inn í samfélagið. Fyrsti tíminn var erfiður en ég sá samt að þetta var skárra en allt hitt. Á móti mér tók fullur salur af fullkomnu fólki að mér fannst og ég ætla klárlega ekkkert að leyna því að mér fannst það mjög erfitt og ég upplifði mig sem algjöran einhyrning þarna inni. Staðalímyndin var sönn, þarna var fullt af fólki í fullkomnum hlutföllum að mér fannst. Ég er sem betur fer með þetta viðhorf að mér er sama og lét ég það sem betur fer ekki stoppa mig í að halda áfram að mæta.

Ég hjó líka eftir því að kennarinn sagði alla vera á sínum hraða, að við værum ekki í keppni eða samanburði og að jóga væri fyrir alla.“

Ákvað að treysta jógakennaranum sínum

Sandra segir að jógakennarinn hennar hafi haft áhrif á hana; að hún hafi verið yndisleg og þess vegna hafi hún ákveðið að treysta henni.

„Þetta var svo sem síðasta hálmstráið mitt þannig að ég hafði engu að tapa. Ég hélt áfram að mæta í hverri viku og sem oftast. Ég fann mér kennara sem ég tengdi við og fyrirmyndir. Ég komst fljótt að því að ég gat svo ótalmargt og var bara frekar liðug. Það var þarna sem ég tamdi mér í fyrsta skipti á ævinni að prufa eitthvað áður en ég myndaði mér skoðun um það.

Ég ætlaði að gefa sjálfri mér séns. Vikur og mánuðir liðu og alltaf þótti mér auðveldara að mæta spegilmynd minni. Ég fór að finna fyrir áður óþekktri tilfinningu; Ég var orðin stolt af mér! Ég hataði ekki lengur stelpuna sem starði á mig í speglinum. Mér fannst hún eiginlega bara svolítið með þetta. Markmiðið hafði breyst, það fór úr því að verða mjó yfir í að verða jógahermaður (e. warrior).

Ég ætlaði að standa með mér og niðurrifsraddirnar urðu alltaf lágværari og sjálfsmildi tók við. Síðan þá hefur jóga átt hug minn og hjarta. Ég væri sennilega ekkert hér ef ekki væri fyrir jóga. Ég kynntist dásmlegri manneskju sem hafði trú á mér, hún var og er kennarinn minn, hún sá eitthvað í mér og ég man það eins og það hafi gerst í gær þegar við sátum saman eftir jógatíma sveittar og alsælar og hún spurði mig af hverju ég færi ekki í jógakennaranám.“

Sandra segir að tilhugsunin um að verða jógakennari hafi fengið hana til að svelgjast á.

„Ég fór strax að telja upp ástæðurnar fyrir því að ég ætti að láta það ógert. Ég var miklu stærri en flestir í tímunum og svo fannst mér það líka fráleitt að ég gæti verið að kenna jóga þar sem ég var ekki fullkomin. Hún náði nú samt að kveikja einhvern blossa innra með mér og ég fór að íhuga þetta. Ég var ekki lengi í íhugun um þetta áður en ég lagði af stað til Taílands í tvö hundruð klukkustunda jógakennaranám.“

Vill vera breytingin

Sandra segir að þarna hafi orðið upphaf að draumi um að vera til staðar fyrir stelpur eins og hana.

„Það er heldur betur að fara að gerast núna. Ég er meira að segja búin að húðflúra það á framhandlegginn minn núna, „Be the Change“. Jóga er fyrir alla algjörlega óháð stærð, getu, aldri eða bara hvaða ástæðu sem við seljum okkur til að haldast föst innan þægindarammans.“

Sandra segist aldrei hafa getað ímyndað sér hversu dásamlegt lífið getur verið.

„Ég er að kenna tvisvar í viku almenna hot jóga hádegistíma í Sólum ásamt því að vera að fara af stað með námskeiðið mitt „Jákvæð líkamsmynd“. Svo er ég líka í áframhaldandi jógakennaranámi og í ylrækt í Landbúnaðarháskólanum. Ég rek einnig blómabúð í Hafnarfirði, er móðir, kærasta, vinkona, systir og mannvinur. Mér finnst best þegar það er brjálað að gera hjá mér. Ég elska að læra, skapa og er mikil félagsvera í dag svo lífið hefur tekið algjöra u-beygju. Ég hef farið frá því að finnast ég ekki geta neitt í að finnast ég óstöðvandi og full af lífsgleði.

Sandra segir megintilgang námskeiðsins vera að stíga út fyrir þægindarammann, mæta sér í þeim líkama sem maður er og læra að þykja vænt um hann. Finna fyrir styrkleikum sínum og koma sér jafnvel á óvart því allir geta eitthvað einstakt. Svo vonast ég til að námskeiðið verði fallegur stökkpallur í áframhaldandi jógaiðkun. Það er svo ótalmargt fallegt í boði. Svo vona ég að við getum búið til samfélag kvenna sem styðja og skilja hver aðra. Konur eru konum bestar.“

Sandra segir námskeiðið byggt upp þannig að allir geti tekið þátt. Fólki er mætt þar sem það er hverju sinni og farið sé rólega af stað en síðan aðeins gefið í.

Tilgangurinn að vera hamingjusöm og frjáls

Sandra segir að hún sé dæmigerður tvíburi sem hefur áhuga á mörgum hlutum.

„Ég elska sem dæmi að ferðast og upplifa eitthvað nýtt og framandi. Ég fór sem dæmi til Perú í fyrra í andlegt ferðalag sem var mögnuð upplifun. Ég elska að hafa fallegt í kringum mig. Málið er að blóm og jóga fara vel saman.“

Sandra segir að það ánægjulegasta í lífinu hafi verið fæðing dóttur sinnar.

„Þegar ég fékk hana fyrst í fangið var besta augnablik sem ég hef upplifað. Dóttir mín er æðisleg og ég er ákaflega stolt af henni.

Hvað er góð heilsa að þínu mati?

„Góð heilsa er að mínu mati jafnvægi. Lífið er of gott til að vera stanslaust í fráhaldi frá því sem manni þykir gott. Megrun er til dæmis svo 1990! Eins finnst mér að við þurfum að leggja áherslu á andleg málefni, því það er í raun það mikilvægasta. Ég trúi því að ef við iðkum heilbrigði í höfðinu þá fylgi hitt eftir. Þannig upplifði ég hlutina hjá mér þegar tilgangurinn var alltaf að vera mjó en ekki hamingjusöm og frjáls eins og ég upplifi mig í dag.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »