Söfnuðu milljónum fyrir Málfríði

Ljósmóðirin Málfríður Stefanía Þórðardóttir safnaði fyrir aðgerðinni á einum sólarhring.
Ljósmóðirin Málfríður Stefanía Þórðardóttir safnaði fyrir aðgerðinni á einum sólarhring. Ljósmynd/Facebook

Ljósmóðirin Málfríður Stefanía Þórðardóttir og dóttir hennar Heiða Hansdóttir söfnuðu nokkrum milljónum á innan við sólarhring. Heiða birti færslu á samfélagsmiðlum á þriðjudaginn þar sem hún óskaði eftir hjálp við að safna fyrir aðgerð sem móðir hennar Málfríður þarf að fara í. 

„Mamma mín er ein reyndasta og öflugasta ljósmóðir landsins en eftir að hafa farið í minniháttar aðgerð í byrjun 2018 er hún öryrki og vinnur því miður ekkert í dag. Í aðgerðinni hlaut hún alvarlegan taugaskaða og skaða á hringvöðva með þeim afleiðingum að hún þurfti stóma.

Taugaverkirnir eru enn til staðar og hafa stjórnað hennar lífi síðustu þrjú og hálft ár. Mamma hefur gengist undir 3 aðgerðir í kjölfar fyrstu aðgerðar og gengið á milli lækna síðustu ár til að létta á verkjunum með lyfja- eða rafmeðferðum. Þessar verkjameðferðir hafa virkað misvel og lina verkina aðeins í örfáa daga,“ skrifaði Heiða á Facebook en hún gaf mbl.is góðfúslegt leyfi til að vitna í færslur þeirra mæðgna.

Skaðinn sem Málfríður varð fyrir er út fyrir alla þekkingu íslenskra lækna og eftir mikla leit fann Málfríður sérfræðilækni í Sviss sem getur hjálpað henni. Aðgerðin kostar hins vegar 6,3 milljónir og er aðgerðardagur eftir tæpar þrjár vikur. 

Málfríður hafði fyrir löngu sent inn umsókn til Sjúkratrygginga Íslands en að sögn Heiðu er allt stopp í kerfinu. Því brugðu þær á það ráð að óska eftir hjálp í gegnum samfélagsmiðla. Á tæpum sólarhring náðu þær markmiðinu og greindi Málfríður frá því í gær að hún hefði greitt aðgerðina. 

„Margt smátt gerir eitt stórt. Það eru orð að sönnu. Ég veit ekki hvað ég á að segja, ég er bæði klökk og hrærð eftir daginn. Seinni partinn í dag fór ég í bankann og millifærði 6,3 milljónir á lækninn. Þetta tókst með ykkar hjálp, þvílik samkennd og hlýhugur, ég fæ bara gæsahúð. Vonandi fæ ég tækifæri til að gera einhver góðverk og grípa einhver börn aftur,“ skrifar Málfríður í færslu á Facebook

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál