Léttist um 11 veirukíló á mánuði

Kevin Smith fékk athugasemd á netinu um vaxtarlag sitt og …
Kevin Smith fékk athugasemd á netinu um vaxtarlag sitt og sneri neikvæðni upp í jákvæðni. Samsett mynd

Bandaríski grínleikarinn Kevin Smith tók sig til og létti sig um rúmlega 11 kíló í sumar. Hann er að búa sig undir tökur á þriðju Clerks-myndinni og þurfti að létta sig. Það tók hann ekki langan tíma að ná markmiði sínu. 

Smith greindi frá því á Twitter í lok júní að athugasemd á netinu hefði ýtt við sér. Hann ákvað að létta sig og sagðist þurfa að ná af sér kórónuveirukílóum. Hann gerði það og aðeins á einum mánuði. „Mánuði seinna er ég rúmlega 11 kílóum léttari. Og í morgun náði ég markmiðinu mínu fyrir CLERKS III,“ skrifaði Smith meðal annars á Twitter. Hann bætti síðan við að það væri hægt að snúa ljótum athugasemdum yfir í jákvæðni. Tökur á myndinni hefjast í byrjun ágúst. 

Leikarinn, sem er fimmtugur, er þekktur fyrir að léttast og þyngjast á víxl. Hann fékk hjartaáfall árið 2018 sem gerði það að verkum að hann þurfti að taka lífsstílinn föstum tökum. Hann hætti að borða kjöt og sykur og fór út að ganga í klukkutíma á hverjum degi með hundinn sinn. „Ég borðaði það sem mig langaði til í 47 ár. Ég ætla reyna að gera það sem ég á að gera í eitt ár og sjá hvað gerist,“ sagði leikarinn í viðtali við Men's Health árið 2019. Hann léttist í kjölfar átaksins um 23 kíló á hálfu ári. 

Smith fór meðal annars í fjallgöngu til þess að koma sér í form. Hann býr í gamla heimabæ sínum Highlands í New Jersey-ríki í Bandaríkjunum. Á samfélagsmiðlum segist hann hafa hatað brekkurnar þegar hann var að alast upp en nú hafi göngurnar upp og niður brekkurnar komið sér í form. mbl.is