Ætlar ekki að gera neitt nema það hafi „vúhú-faktor“

Sólveig Eiríksdóttir, eða Solla eins og hún er alltaf kölluð, hefur verið í fararbroddi á heilsusviðinu í meira en 30 ár. Nú stendur hún á tímamótum. Búin að selja Gló og hefur sagt skilið við samferðamann sinn til 19 ára. Hún er með mörg járn í eldinum og hlakkar til að takast á við nýja og endurbætta útgáfu af sér – á nýjum stað. 

Þe gar ég kynntist Sollu fyrst rak hún veitingastaðinn Grænan kost ásamt Hjördísi Gísladóttur. Ég var 19 ára og fékk vinnu með skólanum. Vistin á Grænum kosti var forvitnileg því þarna fékk unglingurinn ég innsýn inn í heim sem var meira en framandi. Solla var svona grænmetishippi sem hafði breytt eldhúsinu heima hjá sér í hálfgert gróðurhús þar sem hún ræktaði grænmeti og bjó til safa úr baunaspírum. Á þessum tíma vissu fáir hvað orðið vegan þýddi og grænmetisætur þóttu svolitlir furðufuglar. Á Grænum kosti varð til samfélag þar sem grænmetishipparnir hittu uppa landsins enda varð staðurinn fljótt eftirsóttur af fólki úr öllum lögum samfélagsins. Þegar staðurinn var opnaður á daginn klukkan 11.30 myndaðist oftar en ekki röð út á götu þar sem fólk pantaði sér gjarnan „blöndu af báðu“ sem innihélt grænmetisbuff, hýðishrísgrjón, pottrétt og salat. Allt var sykurlaust, mjólkurlaust og gerlaust og allur matur úr jurtaríkinu. Síðan þarna um árið hefur Solla verið leiðandi í því að reyna að fá fólk til að borða lífrænan mat og hafa grænmetisfæði í forgrunni. Hún hefur eldað mat ofan í stórstjörnur, verið með erindi á risastórum heilsuráðstefnum í Los Angeles og skrifað bækur svo eitthvað sé nefnt.

Núna er Solla komin á sjötugsaldur og grínast með það að fólk á hennar aldri þurfi að hafa fyrir því að lifa góðu lífi. Þurfi að leggja ýmislegt á sig. Sjálf er hún á krossgötum en það er þó engan bilbug á henni að finna. Hún segir mér frá nýju sér.

„Nýja ég verð bara svolítið svona uppfærð útgáfa af gömlu mér. Þegar ég var að byrja með fyrsta veitingastaðinn minn breytti ég eldhúsinu í gróðurhús og var meðal annars að rækta hveitigras og sólblómagræðlinga. Þetta þótti mjög furðulegt og einu sinni kom fíknó í heimsókn því þeir héldu að ég væri að rækta kannabis,“ segir hún og hlær.

„Hugsaðu þér hvað margt hefur gerst síðan þú varst að vinna hjá mér á Grænum kosti. Í dag geturðu fengið góða grænmetisrétti á öllum veitingastöðum en þannig var það ekki þá. Það hefur mikil vitundarvakning átt sér stað. Uppfærða útgáfan af mér ætlar bara að gera það sem henni finnst skemmtilegt. Í langan tíma er búið að vera mikill hraði og stress, því það er mikið álag að reka veitingastaði eins og Grænan kost og Gló, vera mætt fyrir allar aldir til þess að vera gulrótaskerarinn. Ég fór til Gulla stjörnu um daginn og þegar hann leit á framtíðarstjörnukortið mitt sagði hann að ég yrði að einbeita mér að því að gera bara það sem mér fyndist skemmtilegt. Ef vinnan hefur ekki „vúhú-faktor“ þá er hún ekki fyrir mig,“ segir hún og hlær. Þegar hún nefnir Gulla stjörnu á hún við Gunnlaug Guðmundsson stjörnuspeking.

Ein á ferð

Á dögunum skildi leiðir Sollu og Elísar Guðmundssonar eftir 19 ára sambúð og þar af tveggja ára hjónaband. Solla segir að þetta hafi verið sameiginleg ákvörðun og þau haldi hvort í sína áttina í sátt og samlyndi.

Er hægt að skilja í góðu?

„Ég get bara talað fyrir mig, en við áttuðum okkur bæði á því að við höfðum þroskast í sundur eftir sérlega viðburðaríkan og skemmtilegan tíma saman og tókum sameiginlega ákvörðun um að halda hvort í sína áttina. Það er ekkert skemmtilegt að skilja, og því ferðalagi fylgir alls konar tilfinningakokteill. Við erum bæði mjög sátt við þessa ákvörðun okkar og ákváðum að varðveita góðar minningar og gera þetta eins fallega og hægt væri,“ segir hún.

Matarferðalagið hennar Sollu byrjaði þegar hún skipti um mataræði árið 1980 og lærði að elda samkvæmt makróbíótískri hugmyndafræði. „Ég lærði að búa til mitt eigið tófú, tempeh og sojamjólk frá grunni. Eldamennskan varð að áhugamáli, ég hætti að borða kjöt og varð grænkeri. Forvitnin og ástríðan leiddi mig síðar út í hráfæðið, þar lærði ég að búa til mjólk, jógúrt og osta úr hnetum, möndlum og fræjum, að spíra og breyta eldhúsinu í gróðurhús.“

Þegar ég spyr hana fyrir hverju hún sé spenntust í dag nefnir hún sýrt grænmeti og náttúrulega gerjaðan mat eins og jógúrt, súrdeig og kombucha.

„Ég tel að sýrt grænmeti geti aukið lífsgæði okkar mikið. Upphaflega lærði ég að sýra grænmeti hjá mömmu. Ég er óhrædd við að nota alls konar grænmeti og kryddjurtir og búa til nýjar uppskriftir af sýrðu grænmeti. Sumt verður mjög girnilegt og annað fer beint á safnhauginn,“ segir hún og hlær.

Fyrir 25 árum varstu að láta baunir og fræ spíra og rækta í eldhúsglugganum. Er þetta með sýrða grænmetið það sama?

„Þetta er af sama meiði, þetta eru hvort tveggja aðferðir við að meðhöndla hráefni sem hjálpa mér að auka sjálfbærni mína í eldhúsinu, og svo kýs ég að trúa að sýrt grænmeti hjálpi mér að eldast vel,“ segir hún.

Solla segir að mamma hennar sé 86 ára og hoppi um eins og unglingur og það sama megi segi um níræðan föður hennar. Það sem foreldrar hennar hafa alltaf gert er að borða eitthvað sýrt með hverri máltíð. Hún segir að sýrt grænmeti hjálpi til við að koma jafnvægi á þarmaflóruna.

„Við þurfum að hugsa vel um meltinguna. Þetta byrjar allt þar. Ég hef mikla trú á sýrðu grænmeti og held að það sé eitt af því sem getur hjálpað fólki að viðhalda æskuljómanum. En auðvitað er það ekki nóg eitt og sér, þetta spilar allt saman. Það er auðvitað svo margt annað en mataræði sem hefur áhrif á heilsuna.

Kombucha og kefír eru dæmi um gerjaða drykki sem mér finnst bæta meltinguna mína mikið,“ segir hún og segir mér að hún sé að ná tökum á eigin jógúrtgerð.

„Ég er að þróa jurtajógúrt og geri til dæmis jógúrt úr möndlum, kókos og sólblómafræjum, því að með aldrinum er ég orðin viðkvæmari fyrir hráum hnetum og möndlum, en jógúrtin fer vel í mig. Hún er alveg klikkaðslega góð.“

Erfitt að vera alltaf á tánum

Frá því ég kynntist Sollu fyrst hefur hún alltaf verið nokkrum skrefum á undan samferðamönnum sínum þegar kemur að heilsunni. Þegar ég spyr hana hvort það hafi aldrei verið erfitt segir hún að þetta hafi eiginlega bara þróast svona. Inn í það spili margir samverkandi þættir.

„Lífið hefur leitt mig áfram og ég hef verið heppin. Þegar ég seldi Grænan kost kynntist ég fólki í gegnum hráfæði sem leiddi mig til Bandaríkjanna. Þar var heilsugúrú sem bað mig að vera með sýnikennslu á risastórri heilsuráðstefnu í Los Angeles. Á þessum tíu árum, frá 2008 til 2018, fékk ég innsýn í allt það nýjasta í faginu. Fyrir mig var mikil vítamínsprauta að koma til Los Angeles. Það var hvetjandi að fá innsýn í öll nýjustu trendin og svo fannst mér gaman að koma þeim á framfæri hérlendis og brúa bilið á milli Los Angeles og Íslands. Í gegnum þessa vinnu í Los Angeles var ég beðin að skrifa bók fyrir Phaidon sem kom út 2016. Nú er ég að vinna að annarri bók fyrir sama forlag, eingöngu með veganuppskriftum. Í bókaskrifunum hef ég þurft að rannsaka hvaða trend eru í gangi núna og þar liggur minn styrkleiki. Það sem ég hef lært er að þegar ég er að reyna að spá um framtíðartrend þarf ég að nota innsæið og „skyggnigáfuna“. Ég þarf að taka mið af því sem er að gerast í þjóðfélaginu, sem dæmi ýtir aukin umhverfisvitund undir aukinn áhuga á plöntufæði,“ segir hún.

Ekkert fyrir djúpsteikt

Við ræðum um veganisma. Ég spyr Sollu hvers vegna veganar nútímans borði ekki sama mat og hún og hipparnir gerðu í gamla daga. Hún útskýrir fyrir mér að veganismi sé pólitísk hreyfing.

„Veganismi er pólitísk hreyfing þar sem aðaláherslan er á dýravernd og markmiðið er að borða engar dýraafurðir. Það er síðan persónubundið hversu mikla áherslu fólk leggur á hollustu.

Sumir þeirra sem eru vegan núna vilja borða mat sem bragðast svipað og það sem þeir borðuðu áður en þeir urðu vegan og það útskýrir kannski hvers vegna nútíma veganmataræði er ólíkt því sem við hipparnir borðuðum í gamla daga. Þetta er annars bara mjög fjölbreytt og erfitt að alhæfa um hvað fólk velur sér að borða.

Fyrir mig skiptir ekki síður máli að afurðirnar séu lífrænt ræktaðar. Ég trúi því að lífræn ræktun fari betur með jörðina, og þar af leiðandi sé hún einnig betri fyrir dýrin, sem deila jörðinni með okkur.“

Solla játar að djúpsteiktur veganmatur fari ekki vel í hana, ekki frekar en djúpsteiktur matur almennt.

„Ég fæ brjóstsviða af skyndibitamat og mikið unnum mat. Ég finn líka að þetta verður miklu verra með aldrinum,“ segir hún „Ég geri rosa lítið gagn ef ég borða mikla óhollustu því þá er ég eiginlega ekki fær um neitt nema liggja í sófanum og hef enga orku.“

Hvað myndi gerast í heiminum ef fólk færi að borða hreinni mat. Færi allt á meiri yfirsnúning?

„Neinei, í draumaheimi væru allir að flauta lítinn lagstúf og dytta að,“ segir hún og hlær.

Þegar sagan er skoðuð kemur í ljós að læknar í gamla daga ráðlögðu fólki sem leið ekki nógu vel að sleppa sykri. Allar götur síðan hefur fólk rifist um sykur og sykurneyslu. Hvar ert þú stödd varðandi sykurinn? Ertu alveg sykurlaus?

„Nei, ég borða alveg sykur en kýs að gera það í hófi. Ef ég borða mikið af sætindum þá finn ég alveg fyrir því. En smá sykur er allt í lagi. Ef ég elda rosa góðan indverskan mat þarf ég kannski að nota smá sykur til að gera matinn betri. Ef ég dett í sykur finn ég miklu meira fyrir því núna.“

Breytti um takt á breytingaskeiðinu

Talið berst að breytingaskeiðinu. Solla segist hafa fundið fyrir svitakófum þegar hún var um fimmtugt og í framhaldinu kom vinkona hennar henni í samband við hormónalækni í Belgíu.

„Ég pantaði tíma og í framhaldinu fékk ég póst þar sem hún sagði mér að ég yrði að svara spurningum sem voru ekki á einu blaði heldur 50. Hún vildi vita hvar ég fæddist, í hvaða umhverfi ég hefði alist upp, hvort ég hefði alist upp í borg eða í sveit, hvort ég hefði búið við umferðargötu eða úthverfi, hvort það hefði verið stress á heimilinu, hvort það hefði verið neysla og þar fram eftir götunum. Ég hugsaði með mér hvað hormónalæknirinn þyrfti eiginlega að vita um þetta en ákvað að svara spurningunum samviskusamlega. Hún sagði að hún gæti ekki hjálpað mér ef hún vissi ekki hvaðan ég kæmi. Þegar ég var búin að svara spurningunum þurfti ég að fara með saurprufu, þvagprufu og blóðprufu til hennar. Þegar ég mætti til hennar mældi hún nákvæmlega hvaða vítamín mig vantaði. Hún las úr gögnunum og niðurstaðan var að það væri of mikil streita í lífi mínu vegna vinnu, að mig vantaði ákveðin vítamín og svo væri ég að eldast og þyrfti að taka mið af því. Eftir að ég fór að taka inn vítamínin sem hún ráðlagði mér og minnka streituna vegna vinnu fór mér að líða betur. Einnig ráðlagði hún mér að hætta að borða á hlaupum, frekar að setjast niður og njóta matarins í rólegheitum.“

Hvaða vítamín ráðlagði hún þér að taka?

„D-vítamín, Omega 3 og góð fjölvítamín sérstaklega hönnuð fyrir konur.“

Þurftir þú að hætta að borða eitthvað?

„Ég þurfti ekki að hætta að borða neitt sérstakt, hún vildi að ég tæki inn fisk, en ég ákvað að gera það ekki því ég vil vera á plöntufæði. Í staðinn þurfti ég að finna vítamín, fitusýrur og olíur til að geta mætt þeirri þörf. Þessi hormónalæknir mælir með því að fólk borði kjöt ekki oftar en tvisvar í viku, fisk tvisvar í viku og grænmetisfæði allavega tvisvar í viku,“ segir hún.

Eftir allt sem Solla hefur upplifað í gegnum tíðina segist hún hafa lært það að hver og einn þarf að finna út hvað hentar honum. Hún mælir með að fólk borði þann mat sem það finnur að fer vel í það og mælir ekki með að vera alltaf á einhverjum kúr.

„Ég held að við séum komin með nóg af matarkúrum og matarskömm og ættum að leggja áherslu á að njóta matarins,“ segir hún kát og glöð. Hún er tilbúin í þennan vetur þar sem nýtt hús og ný tækifæri bíða handan við hornið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »