Fastar í 16 tíma á sólarhring

Paulina Porizkova fastar í 16 stundir á sólarhring.
Paulina Porizkova fastar í 16 stundir á sólarhring. Skjáskot/Instagram

Fyrirsætan Paulina Porizkova fylgir hinu svokallaða 16:8-mataræði þar sem hún fastar í 16 klukkustundir á sólarhring og borðar innan átta klukkustunda ramma. Innan átta tímanna leyfir hún sér að borða það sem hana langar í, en velur oft hollari kostinn. 

Porizkova fór yfir mataræði sitt í nýju myndbandi á Instagram. „Ég borða vanalega það sem mig langar í þessa átta tíma, því ég elska mat, en ég vel oft hollari kostinn. En ef ég þarf djúpsteiktan kjúkling, þá fæ ég mér djúpsteiktan kjúkling. Þannig er það bara.“ 

Porizkova brýtur oft föstuna með þeytingi frá Splendid Spoon sem býr til þeytingana sína úr plöntuprótíni. Hún tók fram að hún væri ekki í samstarfi með fyrirtækinu. „Þeir vita ekki einu sinni að ég er til,“ sagði Porizkova.

Fyrirsætan segir að þegar hún fer út að borða fái hún sér stundum vínglas, kokteil eða eftirrétt. „Þá finnst mér ég ekki vera að svelta mig. Þetta virkar fyrir mig,“ sagði Porizkova.

mbl.is