Meistaramánuður vakinn úr dvala

Meistaramánuður hefst í dag og er fólk þá hvatt til að setja sér markmið, stór eða smá. Þau geta snúist um að öðlast betri lífsgæði og láta sjálfum sér eða öðrum líða vel, til dæmis með því að styrkja gott málefni, hreyfa sig meira, borða hollari mat, minnka skjátíma, sofa betur eða njóta fleiri gæðastunda með fjölskyldunni.

Allir geta tekið þátt í Meistaramánuði en á meistaramanudur.is er hægt að skrá sig til leiks og skora á aðra. Þátttakendur fá aðgang að rafrænni fyrirlestraröð frá Magnúsi Scheving, íþrótta- og athafnamanni, Erlu Björnsdóttur, svefnráðgjafa, Begga Ólafs, þjálfunarsálfræðingi, og Aldísi Örnu Tryggvadóttur, streituráðgjafa og markþjálfa hjá Heilsuvernd. Þá geta þátttakendur nálgast markmiðadagatal, fengið margs konar heilræði frá sérfræðingum auk þess sem þeir geta unnið inneign í Samkaupa-appinu. Þau sem taka þátt í meistaramánuði eru hvött til að deila myndum og sögum á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #meistari.

Meistaramánuður hefur verið haldinn reglulega í rúman áratug en hann kom fyrst til sögunnar árið 2008. Þá fengu tveir vinir, Magnús Berg Magnússon og Þorsteinn Kári Jónsson, sem voru í háskólanámi í Kaupmannahöfn, þá hugmynd að reyna að vera besta útgáfan af sjálfum sér í heilan mánuð. Verkefnið vatt hratt upp á sig, fleira fólk fór að taka þátt í meistaramánuði þar sem það skoraði á sjálft sig og hvatti aðra áfram. Markmiðið er að mánuðurinn leggi grunn að varanlegum breytingum til hins betra í lífi fólks.

Samkaup eru nýr bakhjarl Meistaramánaðar í ár en félagið rekur 65 verslanir víðsvegar um landið undir vörumerkjunum Nettó, Krambúðin, Kjörbúðin, Iceland og Samkaup Strax. Nettó hefur verið leiðandi í heilsutengdum vörum, en flest markmiðanna sem fólk setur sér í meistaramánuði tengjast heilsu og heilbrigðum lífsstíl.

„Við erum afar stolt af því að endurvekja Meistaramánuð og vera bakhjarl hans. Þetta er eitt vinsælasta verkefni undanfarinna ára þar sem fólk er hvatt til að setja sér markmið og jafnvel deila þeim með öðrum. Meistaramánuður fellur vel að starfsemi Samkaupa en félagið hefur sett sér markmið sem snúa að heilsueflingu, bæði fyrir viðskiptavini og starfsfólk, og leggur mikla áherslu á heilsutengdar vörur,“ segir Ingibjörg Ásta Halldórsdóttir, markaðsstjóri Samkaupa. 

mbl.is