Svitnar þú mikið á nóttunni?

Nætursviti er hvimleiður kvilli.
Nætursviti er hvimleiður kvilli. Ljósmynd/Pixels/Andrea Piacquadio

Nætursviti getur verið hvimleiður vandi en yfirleitt á hann sér einhverjar læknisfræðilegar skýringar. Mikil svitamyndun á nóttunni getur stafað af ýmsu en sumar skýringarnar geta verið alvarlegri en aðrar og því er alltaf best að ráðfæra sig við lækni ef óhóflegur nætursviti fer skyndilega að gera vart við sig.

Nætursviti er ekki viðurkenndur ef þú sefur með ofnana í botni inni í svefnherbergi hjá þér, með alla glugga lokaða, á meðan þú sefur í náttfötum og með gæsadúnssæng úr hæsta gæðaflokki ofan á þér. Þá þykir skýringin nokkuð augljós. Ef þetta á hins vegar ekki við og þú vaknar í svitabaði um miðjar nætur þá gætu nokkrar ástæður legið þar að baki. The Sun birti listann.

1. Tíðahvörf kvenna

Hormónabreytingar eru ein meginástæðan fyrir nætursvita hjá konum. Ef þú ert kona á breytingaskeiðinu þá er hægt að fá lækningu við þessu. Hafðu samband við heimilislækninn þinn og leitaðu ráða hjá honum.

2. Kvíði

Kvíðaraskanir sem margir glíma við frá degi til dags geta haft margvísleg líkamleg áhrif sem geta birst í formi nætursvita. Kvíði er mjög algeng orsök fyrir óhóflegri svitamyndun. Ef þú telur þig vera að eiga við kvíða og upplifir svitakóf á nóttunni þá skaltu leita til læknis eða annarra fagaðila sem meðhöndla slíkt.

3. Lyf

Ef þú ert að taka inn lyf að staðaldri þá getur nætursviti verið aukaverkun þeirra. Ýmsar aukaverkanir geta fylgt því að taka lyf en fylgiseðill lyfjanna ætti að geyma upplýsingar um algengar aukaverkanir. Þunglyndislyf, sterar og verkjalyf eru algengustu lyfin þar sem nætursviti er aukaverkun við inntöku á þeim. Ef þú telur þig hafa upplifað aukna svitamyndun eftir að þú hófst inntöku á lyfjum þá er vert að tala við heimilislækni og fá lausn á málunum.

4. Blóðsykur

Einstaklingar sem mælast með lágan blóðsykur eða fara oft í blóðsykursfall eru líklegri til þess að finna fyrir aukinni svitamyndun að næturlagi. Þeir sem eru sykursjúkir þekkja það vel að svitna mikið á nóttunni og það er líka bundið við lyfjagjöf sykursjúkra. Insúlín á það til að auka svitamyndun. Ef þú ert með lágan blóðsykur en ekki greindur með sykursýki og finnur fyrir aukinni svitamyndun á nóttunni, þá er hollráð að snúa sér til heimilislæknis sem fyrst.

5. Veikindi

Orsakasamhengi svita á nóttunni getur verið bundið við að ónæmiskerfið þitt sé að berjast gegn einhvers konar sýkingu. Margir hafa upplifað aukinn svita á nóttunni á meðan þeir eiga við kórónuveiruna. En sama ástæða getur legið að baki hjá þeim sem eru nýbólusettir en nætursviti er algeng aukaverkun bólusetninga.

6. Krabbamein

Aukin svitamyndun að næturlagi getur verið viðvörunarmerki um sumar krabbameinstegundir, til dæmis blóðkrabbameins eða þegar um er að ræða æxli í eitlum. Nætursviti er oft fyrsta einkenni slíkra krabbameinstegunda. 

7. Ofsvitnun

Sumir svitna óhóflega mikið án þess að neinar sérstakar ástæður séu fyrir því. Líkamsstarfsemi okkar getur verið með misjöfnum hætti og getur ein skýringin verið sú að líkaminn þinn framleiði of mikinn svita án teljandi kvilla eða læknisfræðilegra ástæðna. Gott getur verið að byrja alla morgna á sturtuferð eftir nætur sem hafa einkennst af svitakófi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál