Mataráhyggjur og samviskubit þurfi ekki að fylgja jólunum

Lilja Guðmundsdóttir er íþróttanæringarfræðingur að mennt, en hún hefur mikla …
Lilja Guðmundsdóttir er íþróttanæringarfræðingur að mennt, en hún hefur mikla ástríðu fyrir því að aðstoða fólk við að byggja upp heilbrigt samband við mat.

Í desembermánuði er raunveruleiki einstaklinga sem eiga í óheilbrigðu sambandi við mat oftar en ekki þjakaður mataráhyggjum og samviskubiti þegar kræsingar og konfekt eru í hverju horni. Þetta þekkir íþróttanæringarfræðingurinn Lilja Guðmundsdóttir af eigin raun, en hún er fyrrverandi afrekskona í samkvæmisdansi og glímdi við verulega óheilbrigt samband við mat allan sinn íþróttaferil.

Lilja er með meistaragráðu í íþróttanæringarfræði og hefur verið sjálfstætt starfandi frá árinu 2019. Í starfi Lilju sameinast áhugi hennar á íþróttum og næringu, en auk þess að aðstoða íþróttafólk við að bæta frammistöðu í sinni íþrótt hefur hún mikla ástríðu fyrir því að aðstoða fólk við að byggja upp heilbrigt samband við mat. Lilja sagði okkur frá reynslu sinni og gaf nokkur góð ráð sem geta nýst öllum yfir hátíðirnar. 

Lilja er eigandi fyrirtækisins Nutreleat, en þar býður hún upp …
Lilja er eigandi fyrirtækisins Nutreleat, en þar býður hún upp á ýmiskonar næringarþjálfun.

Notaði sjálf öfgakenndar aðferðir

Aðspurð segir Lilja heilbrigt samband við mat geta litið allskonar út. „Í stórum dráttum myndi ég segja að manneskja sem á í heilbrigðu sambandi við mat sé sveigjanleg og afslöppuð þegar kemur að mat. Fæðuvenjur hennar fara eftir dagskrá og dagsformi, svengd og seddu ásamt aðgengi að mat hverju sinni,“ útskýrir Lilja. 

„Reglulegt máltíðarmynstur og næringarríkt fæðuval er í forgrunni, en þú upplifir ekki samviskubit eða skömm eftir máltíðir þrátt fyrir að borða stundum umfram þægilega seddu eða mat sem telst næringarsnauður,“ bætir hún við. 

Sjálf hefur Lilja ekki alltaf átt í heilbrigðu sambandi við mat, en hún segir þá reynslu án efa hafa kveikt á ástríðunni sem hún hefur fyrir því að hjálpa öðrum að byggja upp heilbrigt samband við mat, hvort sem það er íþróttafólk eða ekki. „Ég átti í mjög óheilbrigðu sambandi við mat allan minn dansferil, en það fól í sér mjög öfgakenndar aðferðir með það að markmiði að léttast. Þessu gat ég haldið út í ákveðinn tíma þangað til mér fannst ég missa algera stjórn og bætti á mig aftur,“ útskýrir Lilja. 

„Í dag skil ég hvað var að gerast á þessum tíma og hvaða ferlar voru að störfum í líkamanum þegar mér fannst ég „missa tökin,“ en það er eitthvað sem margir geta tengt við, þessi „yo-yo“ hegðun þar sem þú rokkar fram og til baka og virðist ekki geta fundið þitt jafnvægi,“ segir Lilja. 

Geta verið meðvitaðar eða ómeðvitaðar hugsanir

Lilja segir hátíðirnar sannarlega geta haft áhrif á matarhegðun fólks, enda sé þetta sá árstími þar sem margir byrja að taka ákvarðanir um að „taka sig á“ í janúar til þess að líða betur með að njóta kræsinganna yfir hátíðirnar. 

„Þetta er ekki alltaf einhver meðvituð ákvörðun sem fólk tekur heldur geta þetta líka verið ómeðvitaðar hugsanir. Ástæðan fyrir því að þessi hugsun getur haft neikvæð áhrif er sú að þetta býr til neikvæða stimplun (e. stigma) og spennu þar sem minna næringarrík matvæli verða meira spennandi,“ segir Lilja. 

„Með því að segja sjálfum okkur að við séum að fara taka okkur á í janúar erum við um leið að segja að þessi matvæli verði ekki í boði, eða takmarkað í boði eftir áramót. Þá verður til það sem kallast stundum „forbidden fruit effect“ og „síðasta kvöldmáltíðin“ þar sem fólk nýtir sér til fulls að neyta matvælanna á meðan þau eru „leyfileg“,“ bætir hún við. 

„Þetta verður yfirleitt til þess að við borðum mun meira af þeim matvælum en við myndum annars gera, og þessu fylgir oft mikil vanlíðan, bæði andlega og líkamlega. Þegar við nærum okkur illa yfir daginn og borðum jafnvel hratt og umfram þægilega seddu líður okkur yfirleitt illa. Ofan á það fylgir því oft mikið samviskubit og sjálfsniðurrif,“ segir Lilja. 

Óraunhæf átök í janúar ekki vænleg til árangurs

Þá segir Lilja fyrirhuguð átök í janúar einnig geta skapað mikla pressu og „allt eða ekkert“ hugarfar. Hún segir það ekki vænlegt til árangurs að ætla að breyta öllu á einu bretti í janúar þar sem það endi oftar en ekki á því að fólk springi á limminu þegar líður á mánuðinn vegna þess hve óraunhæfar kröfurnar eru. „Það að innleiða heilsusamlegar venjur er langhlaup en ekki spretthlaup, það gerist ekki á einni nóttu,“ segir Lilja.

Þó það sé misjafnt hvernig einstaklingar sem eiga í óheilbrigðu sambandi við mat upplifi desember og jólin segir Lilja tvær birtingarmyndir vera algengastar. „Það að leyfa sér annað hvort ekki neitt, þá forðast það að eiga sætindi, konfekt eða annað sem tengist jólunum uppi í skáp, eða jafnvel eiga það en leyfa sér ekki einn einasta bita af ótta við að missa sig. Þessu getur líka fylgt kvíði og erfiðar tilfinningar í kringum jólaboð eða þar sem annar góður matur er á boðstólnum í kringum hátíðirnar,“ útskýrir Lilja. 

„Hinn póllinn er þegar viðkomandi er búinn að plana janúarátakið og fer því „all in“ í öll sætindi og jólakræsingar og borðar oft langt umfram þægilega seddu. Þetta eru svona þessir tveir pólar í sitthvora áttina, á meðan jafnvægið sem við viljum að allir finni situr í miðjunni,“ bætir hún við. 

Lilja segist sjálf hafa upplifað það að mataráhyggjur og samviskubit taki yfir viðburði eða hátíðardaga. „Það var mjög yfirgnæfandi þegar ég átti í óheilbrigðu sambandi við mat. Þá einmitt fór maður annað hvort í það að leyfa sér ekki neitt, eða fara „all in“ með loforðum um að byrja átakið eftir viðburðinn eða hátíðirnar,“ segir hún. 

Lilja segir loforð um átök í janúar varhugaverð þar sem …
Lilja segir loforð um átök í janúar varhugaverð þar sem þau kyndi undir „allt eða ekkert“ hugsunarháttinn, en hún mælir frekar með því að byrja smátt og taka lítil skref í einu.

Fyrsta skrefið að skoða hugsanamynstrið

Aðspurð segir Lilja fyrsta skrefið í átt að heilbrigðara sambandi við mat vera að byrja að taka eftir hugsununum, og að desember sé kjörinn til þess að byrja að æfa sig í því að taka eftir hugsunum sínum og hvernig maður vill vinna með þær. 

„Þegar maður er farinn að ná að spotta þær er hægt að hlutleysa þær,“ segir Lilja og tekur dæmi. „Í stað þess að hugsa: „Ég borðaði allt of hratt og mikið, ég hef enga sjálfsstjórn,“ er hægt að umorða það sem: „Vá ég hef greinilega verið orðin mjög svöng, næst ætla ég að prófa að borða fyrr“,“ segir Lilja.

„Oft tengjum við matinn nefnilega við siðferðið okkar þar sem við stimplum okkur „góð“ ef við borðum næringarrík matvæli en „slæm“ þegar við borðum næringarsnauðari matvæli. Það er mjög mikilvægt skref að vinna sig út úr þessum hugsunarhætti samhliða því að innleiða jákvæðar breytingar í fæðuvali,“ bætir hún við.

Reglulegt máltíðarmynstur lykilatriði

Spurð hvernig fólk geti hugað að næringu í desember á heilbrigðan máta segir Lilja reglulegt máltíðarmynstur vera lykilatriði. „Það að borða vel samsettar máltíðir reglulega yfir daginn hjálpar okkur að viðhalda orku og borða í samræmi við svengdar- og sedduboð í stað þess að ætla að „spara sig“ fyrir jólaboðin, enda getur það leitt til þess að við mætum alltof svöng í jólaboðið, borðum hratt og umfram þægilega seddu,“ segir Lilja. 

„Það er líka frábært að komast á þann stað að tileinka sér núvitund í því sem maður er að gera og þar er næringin ekki undanskilin. Að fólk reyni virkilega að njóta konfektmolans og finna bragðið sem leysist úr læðingi í stað þess að borða hugsunarlaust. Þetta er auðvitað hægara sagt en gert,“ segir Lilja og bætir við að fullnægjandi svefn og regluleg hreyfing geti líka haft jákvæð áhrif á fæðuval okkar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál