Var á hlaupum frá sársaukanum

Sara Barðdal hefur uppgötvað nýjar hliðar á sjálfri sér.
Sara Barðdal hefur uppgötvað nýjar hliðar á sjálfri sér. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á undanförnum árum hafa miklar breytingar átt sér stað í lífi Söru Barðdal. Hún stóð frammi fyrir því verkefni að vinna í sér eftir of mikið álag, skilnað og óuppgerða sorg. Hún er nú í betri tengslum við sig en áður og hefur uppgötvað nýjar hliðar á sjálfri sér.

Sara segist hafa byrjað að vinna í sjálfri sér fyrir tíu árum en foreldrar hennar og fjölskylda hafi verið á sömu vegferð. „Ég horfi oft á þetta sem lauk, maður byrjar á ysta laginu, því sem sést á yfirborðinu, yfirstígur ákveðna hluti, og svo heldur maður áfram að kafa og uppgötva ný lög og fara dýpra. Mitt ferðalag hófst á að vinna í hugarfarinu og líkamlegri heilsu,“ segir Sara sem er menntaður heilsumarkþjálfi, einkaþjálfari og jógakennari og vann við að hjálpa konum án allra öfga.

Eftir nokkur ár af mikilli andlegri vinnu fór hún að finna fyrir líkamlegum einkennum. „Ég fór að missa orku, finna fyrir þyngslum í kringum hjartasvæðið og missa metnað og áhuga. Þetta kom mér mjög á óvart og var erfitt fyrir sjálfsmyndina. Ég taldi mig vera að gera allt rétt. Ég fór að hafa áhyggjur af því að ég væri með sjúkdóm. Eftir blóðprufur og viðtöl hjá lækni taldi hann að þetta væri ekki líkamlegt, heldur streita og álag. Það kom mér virkilega á óvart, þar sem ég upplifði sjálfa mig í góðu andlegu og líkamlegu jafnvægi og hafði unnið mikið í heilsunni,“ segir Sara.

Kynorkan vaknaði
Kynorkan vaknaði mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alltaf á hlaupum

„Ég áttaði mig á því að ég hafði verið á hlaupum í mörg ár, verið svo upptekin af því að láta gott af mér leiða, byggja upp og áorka hlutum. Þetta var allt rosa skemmtilegt en taugakerfi mitt var undir of miklu álagi,“ segir Sara sem hafði ómeðvitað ekki heldur gefið sér tíma til að syrgja móður sína sem lést sjö árum fyrr.

„Ég hafði verið á hlaupum frá sársaukanum og ekki lagt í að stoppa og finna hvað var að gerast innra með mér. Ég vildi harka hlutina af mér og halda áfram. En líkaminn geymir þetta allt innra með sér, öll áföll og bældar tilfinningar. Ég fann þetta svo skýrt með sorgina, þessi þyngsli sem ég fann fyrir hjartanu, þetta var eins og steinn inni í mér. Um leið og ég þorði að fara inn í sorgina og finna sársaukann byrjaði hann að minnka og eftir nokkra mánuði af losun og tárum hvarf hann.“

Sara segir jin-jóga hafa hjálpað sér mikið en þar náði hún að fara í djúpslökun og gefa algjörlega eftir. Í kjölfarið kom orkan hægt og rólega aftur. Hún varð svo heilluð af því hvað jin-jóga gerði fyrir hana að hún náði sér í kennararéttindi í jógafræðunum. Hún fór einnig að vinna með kúndalíní-orku sem studdi enn frekar í að losa um stíflur og hleypa lífsorkunni af stað.

„Ég var svo ótrúlega þakklát og glöð að finna hvað hvíldin er mikilvæg. Við getum ekki bara keyrt endalaust áfram eins og við séum vélmenni. Ég þurfti að sleppa kröfum á sjálfa mig. Leyfa mér að vera alls konar, fagna ófullkomleikanum og taka mig í sátt eins og ég er. Það er ótrúlega frelsandi að losna undan þessum innri kröfum sem maður setur á sjálfan sig,“ segir Sara.

Áskoranir á öllum vígstöðvum

„Á svipuðum tíma voru einnig áskoranir í þáverandi sambandi, við vorum með tvö ung börn á heimilinu og ég var með eigin rekstur. Ég hef klárlega vanmetið hversu lúmskt álagið var og streitan. Það er svo áhugavert hversu langt maður kemst á hugarorkunni og jákvæðu hugarfari. Stundum á þann hátt að maður gengur langt yfir mörk líkamans.“

Þarf hugrekki til að skilja eftir langt samband og börn?

„Það er alltaf erfitt að kveðja langt samband. Við vorum saman í rúm 11 ár, deildum heimili og eigum tvö börn saman. Sú ákvörðun var ekki léttvæg og við reyndum allt sem við gátum til að finna lausnir, en stundum eiga hlutir að enda svo að eitthvað nýtt geti tekið við. Það fer margt í gegnum höfuðið á manni þegar svona ákvörðun er tekin, hvað þá þegar börn eru í spilinu,“ segir Sara sem trúir því að það sé betra fyrir börnin að eiga hamingjusama foreldra.

„Þegar maður hefur burðast með eitthvað í maganum svona lengi fylgir því léttleiki að þora loksins að fylgja innsæinu og standa með sér. En auðvitað koma alls konar tilfinningar líka, það kemur upp sorg og missir. Maður er að kveðja ákveðið líf og einstaklinga í skilnaði og sambönd sem hafa verið náin í gamla lífinu manns breytast, það er ekki alltaf auðvelt,“ segir Sara.

Fólk verður sífellt meðvitaðra um kulnun en oftar en ekki er talað um kulnun í vinnu. Sara er þeirrar skoðunar að fólk geti upplifað kulnun í einkalífinu.

„Í mínu tilviki var mikið að gerast á mörgum vígstöðvum í lífinu. Álagið safnast upp og þetta verður of mikið fyrir taugakerfið. Hvort sem það er að gerast í vinnu, heimilislífinu eða annars staðar. Maður er að burðast með óunnin áföll, reka heimili, gera og græja, halda öllum boltum á lofti og gera sitt besta til að hafa allt á hreinu. Í samfélaginu í dag, þar sem konur eru einnig í fullri vinnu, lendir þriðja vaktin oft á þeim. Það er auðvitað mismunandi eftir heimilum, en álagið er oft mikið.“

Kynorkan vaknaði

Sara uppgötvaði að hún hafði verið of mikið í karllægu orkunni. „Kvenlæga og karllæga orkan býr innra með okkur öllum, hvaða kyni sem við tilheyrum. Það mikilvægasta er auðvitað að upplifa jafnvægi og geta verið í hvorri tveggja. Karllæg orka tengist framkvæmdaorkunni, að áorka, gera, og tengist rökum, skipulagningu og skynsemi. Kvenlæga orkan tengist meira innsæi, sköpun, að taka á móti, treysta, sleppa tökunum og hvílast,“ segir Sara.

„Ég sá að ég hafði verið nánast einungis í þeirri karllægu í öll þessi ár sem olli því að ég var ótengd sjálfri mér og ég fann ekki fyrir sjálfri mér. Kynorka mín var engin, sem gerist mjög oft við langtíma streituástand. Ég þurfti að leyfa mér að falla í kvenlægu orkuna. Kynorkan vaknaði einnig, ég upplifði meiri gleði, fór að tengjast líkamanum á nýjan hátt, finna fyrir gyðjunni innra með mér og líka villtu hliðinni. Allt varð skemmtilegra og það má segja að ífið hafi orðið miklu meira lifandi.“

Fram að þessu hélt Sara að hún væri ekki mikil kynvera, þannig væri hún bara ekki forrituð. „Sem betur fer áttaði ég mig á því að svo væri ekki en ég var ekki tengd líkama mínum eða löngunum. Ég trúi því að heimurinn gefi þér akkúrat það sem þú þarft á að halda hverju sinni. Í erfiðleikunum verður oft mesta umbreytingin ef við leyfum okkur að sjá vaxtartækifærin í því sem er að gerast,“ segir Sara.

Fljótlega eftir skilnaðinn kynntist hún fólki sem var að skoða þætti eins og nánd, tantra, mörk og langanir. „Ég kynntist manni sem ég er með í dag, hann hefur sjálfur verið á miklu ferðalagi og kominn langt í að skoða sig sem kynveru og hefur prófað margt sem mætti teljast út fyrir kassann. Við förum af stað í ákveðið ferðalag saman og ég byrja að kafa ofan í sjálfa mig á þessu sviði og skoða eigin langanir og „kink“. Það er eiginlega sorglegt hvað þetta er ennþá mikið tabú-umræðuefni. Við erum öll kynverur en það er eins og megi ekki tala um það opinskátt og það er oft mikil skömm í kringum þetta. Ég hef sjálf unnið mikið með skömmina,“ segir Sara sem er tilbúin að skila skömminni þó svo hún viðurkenni að það sé aðeins út fyrir þægindarammann að opna sig.

Hefur fólkið í kringum þig tekið eftir breytingum?

„Já, ég hef stundum fengið athugsemdir um breytingar, en það vilja ekki allir sjá þig breytast, sumum finnst það óþægilegt því þá þurfa þau að horfa á sig sjálf og sjá hvar þau eru stöðnuð. Oftast fæ ég að heyra það í jákvæðum tón, en ég skal viðurkenna að flestir sem ég er í kringum í dag og lít á sem mína nánustu eru fólk sem hefur komið inn í líf mitt á síðustu tveimur árum,“ segir hún.

Sara hefur mætt á viðburði og hátíðir og kynnst fólki á sömu vegferð og hún. Þar hefur hún fengið tækifæri til þess að spegla sig og taka ný skref. „Auðvitað er rosa mikilvægt að maður þekki eigin mörk og sé í tengslum við sig og stígi varlega til jarðar í þessu. En þetta er ótrúlega skemmtilegt og það opnast nýr heimur fyrir manni. Ég hef mætt á nokkrar hátíðir og námskeið sem hafa alltaf gefið mér eitthvað nýtt. Í sumar verður Wild Love-hátíðin haldin í fjórða skipti hér á landi. Ég fór í fyrsta skipti í fyrra og það var mjög gefandi og skemmtilegt,“ segir Sara sem segir boðið upp á allt frá jóga og öndun yfir í tantravinnustofur.

Sara er um þessar mundir að læra að leiðbeina fólki að iðka sjálfsást en eða „Self Pleasure Practitioner“. „Þegar fólk heyrir þetta orð hugsar það oft um sjálfsfróun, en það er alls ekki það sem námið snýst um. Ég horfi meira á þetta sem sjálfsumhyggju eða sjálfsástariðkun. Ég er að vinna með að tengjast mér, líkama mínum, tilfinningum, ánægju og innsæi, nokkuð sem mig langar síðan að samtvinna jin-jóganu. Við erum að tengjast lífskraftinum okkar og taka eftir því hvar hann er staðnaður. Við lærum einnig um okkur sem kynverur og fáum tól til þess að vinna með þann hluta af okkur. Þegar lífskrafturinn innra með okkur fær að flæða verður lífið svo miklu dýpra, betra og maður upplifir sig mun meira lifandi og það kemur svo mikill kraftur í kjölfarið,“ segir Sara sem vill leyfa ljósinu að skína á alla parta fólks, í stað þess að byrgja ákveðna þætti inni. „Ég er á þeirri vegferð að taka alla partana mína í sátt, skila skömm og fullkomnunaráráttu og elska mig alla,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Valgeir Magnússon
Valgeir Magnússon
Ásdís Ósk Valsdóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál