Íslensk kona íhugar að enda líf sitt - hvað er til ráða?

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur svarar spurningum lesenda.
Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur svarar spurningum lesenda. Ljósmynd/Samsett

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur hjá Sálarlíf sálfræðistofu svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem hefur orðið undir í lífinu og langar ekki að lifa lengur. 

Sæl,

èg er að verða 50 ára og hef undarfarnar vikur hugsað mikið um að enda lífið. Ég hef verið í miklum veikindum undanfarin àr og ekki komist à vinnumarkað aftur. Mèr finnst èg föst í eigin skinni, næ ekki endum saman og er mikið ein. Mèr finnst èg fyrir og jafnframt vera ómöguleg manneskja. Ég er með stöðugan hnút í maganum og finnst eins og èg standi utan við líkama minn og sàl. Ég hef reynt að komast í ràðgjöf en það eru biðlistar í allt og erfitt að fà tíma hjà heimilislækni. Ég er í svakalegri uppgjöf og full af skömm. Stundum hræðist èg að það grípi mig stundarbrjàlæði og èg làti verða að þessu. Mèr finnst samfèlagið hafa brugðist, fólk fer à örorku og svo er bara svartnætti framundan. Engin leið að eiga fyrir korti í ræktina eða fara burtu úr þessu drungaveðri hèr í höfuðborginni. Mèr finnst èg vera að drukkna àn vatns eða mýrar. Hvað get èg gert til að komast upp úr þessu svartnætti àn þess að það kosti mig matarpeninginn? Eru einhver úrræði sem gætu mögulega hjàlpað à meðan einhver örlítill dropi er eftir hjà mèr til að hafa mig af stað?

Með þakklæti, 

GH

 

Sæl

Takk fyrir þessar vangaveltur.

Mikið leitt að heyra að þér líði svona eins og þú lýsir. Ef þú ert með virkar sjálfsvígshugsanir og ert hrædd um að þú látir verða af því að enda þitt eigið líf þá mæli ég eindregið með því að þú farir á bráðamóttöku geðsviðs við Hringbraut. Þar sem þín líðan yrði metin nánar. Þú lýsir depurðareinkennum og vonleysi sem mikilvægt er að þú fáir hjálp við sem fyrst. Vissulega eru biðlistar víða en það ætti ekki að vera langur biðlisti að komast að hjá heimilislækni, myndi athuga það betur, að panta tíma hjá lækni, ræða við hann um þína líðan og fá ráðgjöf hjá honum. Þá eru starfrækt geðheilsuteymi fullorðinna á flestum heilsugæslustöðvum landsins, hvet þig til að ræða það við þinn lækni hvort slíkt úrræði sé til staðar og hvort það væri hentugt fyrir þig eins og staðan er.

Hreyfing og félagsskapur eru góð fyrir andlega heilsu. Hreyfingu er hægt að stunda án þess að kaupa sér líkamsræktarkort, þú getur til dæmis farið í göngutúr, út að hjóla, farið í sund, gert æfingar heimavið. Það eru til dæmis fullt af æfingum á Smartlandi sem þú getur skoðað til þess að koma þér af stað. 

Þú nefnir að þú sért mikið ein. Ég mæli með því að þú skoðir þinn fjölskyldu- og vinahring og reynir að rækta sambandið við þá sem þér finnst gott að umgangast. Ef hringurinn þinn er lítill sem enginn þá gæti verið hugmynd fyrir þig að leita í skipulagt félagsstarf þar sem þú öðlast tækifæri til þess að hitta annað fólk. Til dæmis að skrá þig í kvenfélagið, Lionsklúbb, einhver námskeið, gönguhópa svo fátt eitt sé nefnt. Einnig mæli ég með því að þú hugir að rútínu þinni. Ertu að fá nægan svefn? Ertu með ákveðna rútínu yfir daginn eins og til dæmis að vakna á svipuðum tíma og sinna ákveðnum verkum. Áhrifaríkt gæti verið að setja upp virknidagbók, þar sem þú skráir inn rútínuna þína og fylgir ákveðinni dagskrá. Að sinna ánægjulegum athöfnum eykur vellíðan, mæli með að þú hugleiðir hvað það er sem þú hefur áhuga á og veitir þér ánægju, til dæmis að hlusta á tónlist, elda góðan mat, kveikja á kertum, lesa góða bók, horfa á bíómynd, læra eitthvað nýtt, svo fátt eitt sé nefnt. Reyna að auka virkni og sinna ánægjulegum athöfnum. Einnig eru til ýmsar sjálfshjálparbækur sem gætu nýst þér á biðtímanum eins og bókin Náðu tökum á þunglyndi eftir Sóleyju Dröfn Davíðsdóttur. Þá er einnig hægt að leita til félagsráðgjafa hjá þínu sveitarfélagi með það að markmiði að fá ráðgjöf til þess að auka virkni og bæta líðan.

Alltaf er hægt að hringja í hjálparsíma Rauða krossins, 1717, sem er alltaf opinn, þar sem trúnaði og nafnleynd er heitið og er sú þjónusta ókeypis. Einnig er hægt að fara á netspjallið þeirra, 1717.is. Þar getur þú rætt um þína líðan. Þá er hægt að leita til Píetasamtakanna en Píetasíminn er opinn allan sólarhringinn (552-2218) og samtökin bjóða upp á viðtöl og stuðningshópa fyrir 18 ára og eldri.

Þú nefnir að þú sért búin að vera að glíma við mikil veikindi undanfarin ár og hefur ekki verið á vinnumarkaðinum vegna þessa. Mig langar í ljósi þess að benda þér á VIRK starfsendurhæfingarsjóð, sem heimilislæknir þarf þó að vísa þér í, en þar er að finna góða þjónustu fyrir einstaklinga sem vilja reyna að komast aftur á vinnumarkaðinn eftir að hafa verið að glíma við ýmsa heilsubresti, af andlega og/eða líkamlegum toga.

Gangi þér sem allra best!

Kveðja, Tinna Rut sálfræðingur

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Tinnu Rut spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál