„Það var mjög lítið til og við vorum fátæk“

Ari Jónsson segir fólk neyðast til að kafa dýpra í …
Ari Jónsson segir fólk neyðast til að kafa dýpra í tengslum við áföll, sama hversu stór þau eru.

Ari Jónsson er ungur maður sem aðstoðar nú annað fólk við þjálfun á hugarfari eftir að hafa sjálfur gengið í gegnum margt á stuttri ævi. Ari, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, talar í þættinum um hvernig áföll móta fólk annað hvort á jákvæðan eða neikvæðan hátt og tilvistarspurningar sem allir hafi á bakvið eyrað. 

„Við erum öll að díla við sömu hlutina þegar við komumst að kjarnanum. Þetta er náttúrulega ævilöng vegferð og það vakna ótal spurningar á leiðinni. Við erum að díla við það frá fyrsta degi að velta því fyrir okkur af hverju við erum yfir höfuð hér. Ég man eftir sjálfum mér sjö ára gömlum að spyrja mömmu mína hver væri tilgangur lífsins. Hún átti erfitt með að svara mér, enda risastór spurning frá svona ungum dreng. En á endanum sagði hún tilganginn vera þann að deila öllu því sem þú hefðir fengið í gegnum tíðina til barnanna þinna. Þó að ég eigi ekki ennþá börn er ég í raun á þessarri vegferð. Að deila með öðrum því sem hefur reynst mér vel og reyna að gera sem mest gagn,“ segir Ari og heldur áfram:

„Ég hef kannski verið óvenjulegt barn að fara svona fljótt í þessar tilvistarpælingar, en ég held að við séum öll með þær á bakvið eyrað alla tíð. Það er bara svo auðvelt að gleyma sér og sleppa því að hugsa um stóru myndina ef fólk er alltaf upptekið. En á endanum nær enginn að flýja þessar stærstu spurningar lífsins.”

Ólst upp við erfiðar aðstæður

Ari ólst upp við erfiðar aðstæður, en hann segist í dag horfa á erfiðleikana úr æsku sem gjöf, enda þurfi allir að glíma við erfiða hluti til að styrkja skapgerðina. 

„Mamma og pabbi skilja þegar ég er bara þriggja ára gamall, þannig að ég ólst upp með einstæðri móður og það var á köflum mjög erfitt. Það var mjög lítið til og við vorum fátæk. Þegar við bjuggum hérna í Reykjavík bjuggum við til dæmis um tíma undir körfuboltavelli, þannig að ég vaknaði aftur og aftur um miðnætti sem kornungur drengur þegar ég átti að vera í leikskóla daginn eftir og fékk ekki svefninn sem ég þurfti. Það er bara lítið dæmi, en í grunninn var margt mjög erfitt hjá okkur, en í dag sé ég þessa erfiðleika sem jákvæðan hlut, af því að þeir hafa styrkt skapgerðina mína og gert mig að öflugri og sterkari einstakling. Þessir hlutir hafa líka styrkt samband mitt við foreldra mína og gert það betra. Við þurfum öll að velja hvernig við tökumst á við erfiðleika og hvort við tökum ábyrgð eða festumst í fórnarlambinu.“

Allir eiga sín áföll

Ari vinnur í dag við að aðstoða fólk við að byggja upp góða vana, rétt hugarfar og taka ábyrgð á lífi sínu. Hann segir að í grunninn verðum við að velja hvernig við tökumst á við erfiðar aðstæður, sama hve ósanngjarnar þær virðist í fyrstu. 

„Það eru öll þessi áföll sem fólk gengur í gegnum og allir eiga sín áföll, sama hversu stór þau eru. Sumir lenda í slysi, aðrir ofbeldi og svo framvegis. En það er yfirleitt í kringum áföllin sem fólk fer að spyrja sig spurninga og neyðist til að kafa dýpra. Þá hættir fólk að taka því sem sjálfsögðum hlut að hafa góða heilsu eða geta gert hluti sem áður virtust einfaldir. Ég fékk til að mynda í tvígang brjósklos í baki sem var mjög erfitt fyrir ungan mann. Að geta ekki hreyft mig eins og ég vildi og sjá fyrir mér að ég væri orðinn einhvers konar sjúklingur það sem eftir væri. En ég hef náð að vinna mig til baka og ég í dag tek ég heilsunni aldrei sem sjálfsögðum hlut. Það væri frábært ef við þyrftum ekki áföll til þess að finna þakklætið og tilganginn og ég er að reyna að vekja fólk til umhugsunar, vera vakandi og taka ábyrgð.”

Hægt er að hlusta á brot úr þátt­um Sölva Tryggva­son­ar á hlaðvarpsvef mbl.is.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál