„Ímyndunaraflið fer á flug“

Hafrún Hrönn Káradóttir hefur undanfarin ár lagt mikinn metnað í jólaþorp sem hún og vinkona hennar setja upp fyrir hátíðirnar. Fyrstu árin var jólaþorpið fremur smátt í sniðum en á undanförnum árum hefur verkefnið undið verulega upp á sig. 

„Þetta byrjaði árið 2002 en þá bjó ég til piparkökuhús sem ég stillti upp ásamt leikfangalest og kirkju. Þannig var þetta í tvö ár. Svo fór ég og keypti mér eitt hús í viðbót, og svo ári seinna keypti ég aðeins meira, en í dag er ég komin með 14 til 15 hús,“ segir Hafrún.

„Ég og Gulla vinkona mín erum í svona þrjá til fjóra daga að setja þetta upp, en við byrjum venjulega um miðjan nóvember. Fyrst eru plöturnar með bakgrunninum settar upp, svo spáum við og spekúlerum í því hvernig við viljum haga þessu vegna þess að þorpið er aldrei eins.“

Hafrún segist komast í mikið jólastuð um leið og vinnan við jólaþorpið hefst, enda skammast hún sín ekki vitund fyrir að vera jólabarn.

„Stemningin er alltaf voðalega skemmtileg þegar maður byrjar á þessu. Þá fer maður að spila jólalög, fá sér kaffi og smákökur á milli þess sem maður situr og pælir. Maður setur sig í stellingar, ímyndunaraflið fer á flug og maður fer svolítið að upplifa gamla daga. Maður þarf aðeins að pæla í því hvernig maður vill byggja þetta upp, enda getur maður alltaf sagt nýja sögu á hverju ári.“

Þótt Hafrún leggi mikinn metnað í jólaþorpið segist hún ekki vera með dellu á háu stigi. Í stað þess að kaupa kynstrin öll af húsum og varningi kýs hún að nota hyggjuvitið og föndrar því gjarnan það sem upp á vantar.

„Ég er ekki alltaf að fara út í búð til að versla í þorpið og finnst ég alls ekki þurfa að eignast allt. Ég er mikil föndurkerling og bý kannski til girðingar, staura og þvíumlíkt. Maður fær alltaf nýjar hugmyndir um hver jól. Svo kemur vinkona mín og við hugleiðum hverju við eigum að taka upp á næst,“ segir Hafrún.

Eins og gefur að skilja vekur jólaþorpið mikla kátínu hjá börnum í fjölskyldunni, enda koma vinir og ættingjar gjarnan í heimsókn á aðventunni til að skoða herlegheitin.

„Þá er lestin sett í gang, kveikt á ljósum, teknar myndir og spáð og spekúlerað,“ segir Hafrún, hress í bragði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál