Stolt að eignast þak yfir höfuðið

Vala Pálsdóttir.
Vala Pálsdóttir.

Vala Pálsdóttir, ráðgjafi og formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, keypti sína fyrstu íbúð 25 ára gömul. Hún segir að þessi íbúðarkaup hafi gert hana sjálfstæða og lagt grunn að framtíðinni.

Hvenær keyptir þú þína fyrstu íbúð?

„Ég keypti fyrstu íbúðina mína sumarið 2000 þegar ég var 25 ára. Ég hafði gert hlé á námi, var komin í fasta vinnu og vildi eignast mitt eigið heimili,“ segir Vala.

Manstu á hvað þú keyptir hana?

„Hún kostaði 9 milljónir króna, falleg 3 herbergja íbúð á Ránargötunni við Garðastræti. Fyrri eigandi hafði sett parket á hana en að öðru leyti var allt upprunalegt. Einhverjir myndu segja frekar lúið en ég var rosalega ánægð með hana. Sérstaklega eldhúsið sem var oggulítið og með dökkgræna skápa en stóð undir góðu eldhúspartíi,“ segir hún.

Hvað áttir þú í útborgun?

„Ég held að ég hafi átt rétt tæpa milljón króna, ég fékk lán með veði í íbúðinni sjálfri fyrir um 6,5-7 milljónum króna og svo fékk ég að auki lán upp á 1,2 m.kr. með veði innan fjölskyldunnar. Það var úr litlu að moða þegar búið var að ganga frá íbúðarkaupunum, ég hafði fengið húsgögnin hennar ömmu en ég átti engan sófa. Ég freistaðist til að kaupa mér einn slíkan á raðgreiðslum og þegar ég lauk loksins við þá greiðsluröð hét ég sjálfri mér að gera aldrei slíkt aftur og hef staðið við það. Sófann á ég þó enn.“

Hvernig náðir þú að safna þér fyrir útborgun?

„Ég vann alls konar störf með skóla en þegar ég var 18 ára hóf ég að vinna fast á RÚV með skóla og á sumrin þar til ég var 25 ára, reyndar vann ég eiginlega fullt starf og gott betur síðasta árið áður en ég keypti íbúðina. Svo vann ég öll aukastörf sem ég gat, næturvörður á hóteli, trjáklippingar að vori, afgreiðsla á listasafni og margt fleira. Þetta púslaðist einhvern veginn og til varð smásjóður. Amma mín hafði einnig gefið okkur systrum nokkrum árum áður styrk sem kom sér vel. En með starfi mínu hjá RÚV öðlaðist ég mikilvæg réttindi til að taka lán hjá LSR. Ætli það hafi ekki hjálpað mér mest því lánshlutfallið var líka aðeins hærra en var til dæmis hjá Íbúðalánasjóði. Þetta var auðvitað áður en bankarnir komu inn á fasteignamarkaðinn með hærra lánshlutfall.“

Hvernig leið þér þegar þú varst orðin íbúðareigandi?

„Ég var eðlilega mjög stolt og glöð að eignast þak yfir höfuðið en mér fannst þetta mikil ábyrgð. Á meðan ég beið eftir afhendingu fór ég að velta því fyrir mér hvort þetta hefði verið of stórt skref. Ég man að ég bar sérstaklega saman þá vexti sem voru á láninu við önnur lán eitt kvöldið til að fullvissa mig um að ég hefði ekki gert mistök. Ég heimsótti þá útreikninga nokkrum sinnum. Ég var líka svolítið stressuð því ég var ein um afborganir og fannst sem ekkert mæti út af bregða.“

Hvað gerðu þessi íbúðarkaup fyrir þig?

„Þau bjuggu til þann grunn fyrir mig að eiga heimili og vera sjálfstæð. Ég ákvað samt að klára námið mitt og til að þetta gæti nú allt tekist þá leigði ég íbúðina mína út í eitt ár, einu ári eftir að ég hafði flutt inn. Það var skynsamlegt, bæði til að einbeita mér að skólanum án þess að hafa áhyggjur af fjármálum en sem meira er að bæði voru námið og íbúðarkaupin besta fjárfestingin fyrir framtíðina. Ég man nú líka hvað ég var glöð þegar ég flutti aftur inn eftir að hafa fengið inni fyrst hjá mömmu og svo vinkonu minni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál