Flutti aftur til Bretlands í kreppunni

Rebekka Andrínudóttir innanhússhönnuður.
Rebekka Andrínudóttir innanhússhönnuður.

Rebekka Andrínudóttir innanhússhönnuður hefur búið í Brighton í um áratug. Hún starfar á stofu Busbywebb í Clerkenwell í hönnunarhverfinu í miðri London þar sem allt iðar af lífi, hugmyndum, nýjum straumum og allskonar stefnum.

Rebekka fór á sínum tíma beint úr Fjölbrautaskólanum í Breiðholti í rýmishönnunarnám í Cornwall í Bretlandi. Staðurinn sem er á suðvesturhorni landsins er um margt ólíkur stórborginni London en viðfangsefni Rebekku á þessum tíma hafa nýst henni í starfi í dag.

Fór aftur út í kreppu

„Ég vann á veitingastöðum á þessum tíma, rak krá og veitingastað og fleira í þeim dúr. Síðan eftir námið mitt úti kom ég aftur heim til Íslands, en það var rétt fyrir miklar sviptingar í efnahagslífinu víðsvegar um heiminn. Síðan skall kreppan á á Íslandi um haustið 2008 sem hafði gífurleg áhrif á fólk með mína menntun. Af þeim sökum ákváðum við hjónin að flytja aftur út til Bretlands og varð Brighton þá fyrir valinu.“

Rebekka og eiginmaður hennar, Kristófer Humphris, starfa bæði í hönnunargeiranum. Hann vinnur fyrir auglýsingastofuna HN sem er með útibú í London. Rebekka fór í meistaranám úti í Brighton-háskóla í innanhússhönnun og hóf svo að starfa við fagið sitt ytra.

Í dag leiðir hún hönnunarteymi fyrir fyrirtækið Busbywebb.

„Við sérhæfum okkur í að hanna veitingastaði, bari, kaffihús og hótel. Þegar við erum að hanna inn í nýjar byggingar störfum við náið með arkitektum húsana, en hefðbundnari verkefni eru sem dæmi þegar breyta á eldra húsnæði í veitingahús, eða þegar stækka á rými með viðbyggingum.“

Á Bretlandi er eins og gefur að skilja sérfræðingur í hverri stöðu. Rebekka segir að hún sé vön að vinna með ljósahönnuðum, húsgagnahönnuðum, vöruhönnuðum, grafískum hönnuðum og svo mætti lengi áfram telja.

Vill ekki gera klisjur

Verkefnin sem hún hefur innt af hendi úti eru stór ef miðað er við íslenskan markað. Sem dæmi hannaði hún Sourced Market í Marylebone. Fyrir þá hönnun fékk hún sín fyrstu hönnunarverðlaun. „Þar er skemmtilegt samtal verslunar og veitingarýmis, þar sem gæðavörur til að taka með heim sitja með hádegismatarframboði. Svo er rými á neðri hæðinni þar sem haldin eru „take-over“, framleiðendur eru með vín- og ostakvöld, minni áfengisframleiðendur hafa smakkmatseðla og svo framvegis.“

Hvert er uppáhaldsverkefni þitt hingað til?

„Ég verð að nefna Oysterbox sem er sjávarréttastaður sem stendur við ströndina á Jersey-eyjunni. Þar er barsvæði, tvö útisvæði til að borða og býður hvert einasta borð upp á sjávarútsýni með matnum. Jersey er mjög sólríkur ferðamannastaður á sumrin og var skemmtilegt að vinna á þeirri línu milli ferðamanna og bæjarins. Að skapa ferskt og bjart umhverfi án þess að fara út í „seaside“ klisjur. Efniviðurinn er einfaldur, bjartur með skjáskot í sjávarsíðuna og strendur með gleri og gegnsæjum litum.“

Hún nefnir einnig Prime Steak & Grill í Beaconsfield. „Við breyttum húsgagnaverslun í tveggja hæða veitingastað þar sem það þurfti að taka allt í gegn. Þar er 8 metra kokkteilbar í skeifu á annarri hæðinni, stærri borð fyrir hópa og sérstök tilefni ásamt einkaborðstofu.“

Þegar kemur að heimili Rebekku þá eiga þau hjónin íbúð í Brighton. Hún segist blanda saman ólíkum hlutum á sínu eigin heimili. Jafnframt segir hún mikilvægt að upplifa þá staði sem maður býr á um tíma áður en maður leggur af stað í breytingar. „Það er svo náttúrlegt flæðið þegar maður leyfir hlutunum að þróast með tímanum. Heimilið þarf að vera persónuleg framlenging af þeim sem búa á staðnum. Ég velti alltaf fyrir mér hvernig fólk býr á staðnum? Hvernig eyðir fólkið frítíma sínum? Hvað er mikilvægt í lífi þess? Þannig setur maður persónulegar þarfir fyrst og lætur síðan hönnunina brúa bilið á milli manneskjunnar og arkitektúrsins. Hönnun er að mínu mati þetta millistig, hvernig við notum rýmið okkar og hvernig rýmið lætur okkur líða.“

Hetjuvörur heilla

Að sama skapi nálgast hún öll verkefnin sín í vinnunni. „Mér finnst ótrúlega spennandi að vinna í kringum veitingastaði. Sér í lagi ef staðurinn er með einskonar hetjuvörur, sem fólk vill koma á markaðinn einnig. Þá vinnum við með fallegar pakkningar utan um t.d. matvörurnar, látum hönnun staðarins passa við hugmyndafræði matarins. Það er alltaf einhver grunnhugmynd sem allir í teyminu vinna saman að móta. Við erum alltaf að segja sögur, og þessi saga þarf að vera sú sama alls staðar.“

Rebekka á sér þann draum heitastan að geta komið heim reglulega og fundið leiðir til að vinna að spennandi hönnunarverkefnum á Íslandi.

„Ég kem reglulega til Íslands og sé ótal spennandi hluti sem ég myndi vilja taka þátt í að byggja upp. Sem dæmi finnst mér íslenskur matvælaiðnaður mjög áhugaverður og ætti að vera vaxandi markaður. Reykjavíkurborg hefur alltaf heillað mig mikið. Hins vegar finnst mér sorglegt að sjá þá þróun sem hefur orðið í borginni okkar að undanförnu. Hún er mikið til tóm, enda eru margir staðir í borginni ætlaðir ferðamönnum. Ef hins vegar leitast er við að láta staðina virka fyrir fólkið í borginni, þá eru staðirnir fullir allan daginn því ferðamennirnir okkar eru vanalega upp um fjöll og firnindi á daginn. Þeir vilja koma í borgir þar sem kjarninn er sterkur. Þar sem menningin blómstrar og fólkið er hluti af staðnum. Ég tel að Ísland geti gert svo mikið af þessum hlutum betur. Þessi þróun hefur verið sterk að undanförnu í London og öðrum stórborgum. Þar sem opin rými, til dæmis á hótelum, eru nýtt í litlar kaffistofur eða bakarí og fólkið í hverfinu er reglulegir gestir.“

Alltaf eitthvað sem dregur fólk heim

Hvað væri draumverkefnið sem þú færir í á Íslandi?

„Það væri tvíþætt. Annars vegar væri ég til í að hanna „boutique“-hótel í sveitinni þar sem væri góður veitingastaður, spa og matvæli sem væru fallega innpökkuð og hægt að taka með heim. Þetta væri á línu við „Premium Wellness“-markaðinn sem er að fara af stað víða. Að byggja upp vörumerki með raunhæf markmið og kröfur að baki er heillandi að mínu mati.

Síðan þætti mér áhugavert að hanna veitingastað í miðborginni. Stað sem yrði vinsæll í sínu hverfi en væri einnig fyrir gesti og gangandi, ferðamenn og allskonar fólk sem vill sterka upplifun og góðan mat.“

Rebekka segir að Ísland eigi alltaf sérstakan stað í hjarta sínu. Heima hafi hún gaman af því að labba á fjöll, borða góðan mat og síðan fer hún reglulega í sund. Í Bretlandi býr hún við sjóinn og er dugleg að synda í honum, dunda sér í garðinum og hlusta á tónlist. „En það er eitthvað sem dregur fólk alltaf heim aftur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál