Íslenska Kúlan í erlendu pressunni

Bryndís Bolladóttir.
Bryndís Bolladóttir.

Bryndís Bolladóttir hönnuður hannaði Kúluna á árunum 2010-2012 en nú er hún farin að vekja heimsathygli. Á dögunum var fjallað um hana í tímaritinu An Interior. Bryndís segir að Kúlan sé ekki bara falleg heldur bæti hún hljóðvist á heimilum og á vinnustöðum. 

„Kúla varð til á árunum 2010-2012 þegar mér varð ljóst samspil rétts textíls sem og efnis vinnur að  góðri hljóðvist. Mikið af textíl eins og þykkum teppum og þykkar gardínur hafa horfið af markaði og meira um hreina fleti, hörð efni og stóra glugga. Það var því klárlega þörf á einhverju mótvægi til að bæta hljóðvistina á smekklegan hátt,“ segir Bryndís. 

Aðspurð hvers vegna Kúlan njóti svona mikilla vinsælda segir Bryndís að það sé eitthvað innra með okkur sem laðist að þessu formi. 

„Ég held að það sé eitthvað innra með okkur sem laðast að formunum. Þá finnur fólk fljótt að Kúla er list með virkni þar sem sveigjanleiki í framsetningu er endalaus. Það tvennt gefur Kúlu tækifæri að vinna með arkitektúr og efnisval rýma og þannig undirbyggja það sem maður vill ná fram í umhverfi sínu. Að auki hefur forvitnin sem Ísland vekur, framleiðsla náttúrulegra efna og skírskotanir Kúlu til náttúrunnar, auk sjálfbærnivitundar okkar unnið með Kúlunni í að fanga athygli,“ segir hún. 

-Hvað gerir Kúlan annað en að vera falleg?

„Kúla er ISO-vottuð af hæsta gæðaflokki fyrir hljóðísog enda mikið í Kúlu spunnið annað en ysta lagið sem þó er sérhannað til að hleypa hljóði í gegnum sig. Það leiðir til þess að það er alltaf gaman að fara yfir tölfræðina með hljóðverkfræðingum.“

-Hvernig finnst þér fallegast að nota Kúluna?

„Skemmtilegast fyrir mig er þegar verkefnin eru stór og hafa afgerandi áhrif á rými og rýmistilfinninguna eins og í tilviki Perlunnar. En ég hef fylgst með Kúlunni prýða ótal staði, stóra sem smáa og gert þá fallega. En ætli það sé ekki með þetta eins og svo margt annað að fallegast er það þegar hún er í fallegu umhverfi, umkringd fallegum arkitektúr og húsgögnum þá gleðst maður.“

-Hverju breytir það fyrir þig að fá svona umfjöllun eins og í An Interior?

„Það er gott fyrir egóið mitt að finna að aðrir heillist svona af Kúlu. Dreifiaðila okkar í Bandaríkjunum njóta auðvitað góðs af slíkri umfjöllunum og það hjálpar okkur að ná þar fótfestu.“

Bryndís segir að það séu spennandi tímar fram undan. 

„Manni líður svolítið eins og Kúlan sé barnið manns. Og rétt eins og 7 ára barn sem er forvitið um heiminn og langar að gera allt sjálf og gera allt strax þá verður maður að gæta þess að hafa vit fyrir því og leiða það áfram í gegnum hlutina á yfirvegaðan hátt. Það fylgja Kúlu því töluverð ferðalög á sýningar og til dreifiaðila þessi misserin.“ 

Hér má sjá Kúluna í nokkrum stærðum og litum.
Hér má sjá Kúluna í nokkrum stærðum og litum.
Bryndís hannaði Kúluna á árunum 2010-2012.
Bryndís hannaði Kúluna á árunum 2010-2012.
mbl.is