Náttúrulegur efniviður, plöntur og góð hljóðvist

Alfa Freysdóttir á fallegt heimili.
Alfa Freysdóttir á fallegt heimili. mbl.is/Kristinn Magnússon

Haustið er rétti tíminn til þess að fegra heimilið og gera það kósí fyrir veturinn. Innanhússarkitektinn Alfa Freysdóttir gefur hér góð ráð varðandi það hvernig gera má heimilið að huggulegri samverustað fyrir alla fjölskylduna. 

„Haustið er uppáhaldsárstíð mín. Með rökkri og rútínu færist ró yfir allt og nú þegar farið er að skyggja á ný er kærkomið að kveikja á kertum og lömpum til að mynda huggulega stemmingu á heimilinu,“ segir Alfa, sem á og rekur hönnunarfyrirtækið Grafít ásamt systur sinni Rán. Að mati Ölfu eru aldrei of margir lampar eða dimmerar á heimilinu því mikilvægt er að hafa næga möguleika á lýsingu sem hentar verkefnunum hverju sinni.

„Kerti og þá ekki síst ilmkerti koma alltaf sterk inn á haustin. Sjálf kveiki ég aldrei á kertum á sumrin heldur læt ilminn af nýslegnu grasi og ferskum gróðri duga. Ég er hins vegar mjög hrifin af lavender og er alltaf með lavenderblöndu í spreybrúsa sem ég úða reglulega um heimilið. Það gefur ákveðinn ferskleika, sérstaklega á veturna.“

Hér má sjá hvað það er fallegt að hafa margar …
Hér má sjá hvað það er fallegt að hafa margar myndir saman á blámálaðan vegg. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viðarhúsgögn, gardínur og púðar

„Það er tilvalið að fegra heimilið með náttúrulegum efnivið á borð við viðarhúsgögnum. Þau eru afar hlýleg. Eins gefa teppi, púðar og mottur ákveðinn hlýleika og meiri mýkt, auk þess sem þessir hlutir bæta hljóðvistina. Persónulega hef ég fleiri púða í sófanum á veturna en á sumrin einfaldlega af því að á veturna hef ég meiri þörf fyrir að henda mér í sófann og hnoðast þar. Það góða við púða er líka að það er hægt að skipta um áklæði á þeim. Þannig vill maður kannski frekar vera með flauel og prjón á veturna en eitthvað léttara og litríkara áklæði á sumrin. Það getur því verið gaman að breyta um áklæði á haustin og koma heimilinu í meiri vetrarbúning.“ Alfa minnist í þessu samhengi líka á síð gluggatjöld. Þau geri að hennar sögn heilmikið fyrir hljóðvistina, en góð hljóðvist er undirstaða þess að fólki líði vel heima fyrir, ekki síst ef börn eru á heimilinu. „Screen-gardínur eru frábærar til að vernda húsgögn og viðargólf gegn upplitun frá sólinni en beinir vængir án kappa eru líka góðir með þeim. Síðir vængir gefa kósý stemmingu og bæta hljóðvistina til muna. Maður verður þreyttur á því að vera í húsum þar sem allt bergmálar og börnin mega ekki hlaupa um eða tala. Heimilið þarf að vera huggulegur samastaður fyrir alla fjölskylduna því með rútínu haustsins fer fólk að verja meiri tíma innandyra.“

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon

Meiri loftgæði með plöntum

„Náttúrulegur efniviður er í tísku núna, til dæmis steinar fyrir bókastoðir og skreytingar með greinum, hornum og plöntum. Plöntur á heimilinu finnst mér vera algjört lykilatriði því þær eru ekki bara fallegar heldur auka líka loftgæðin,“ segir Alfa, sem sjálf er með einar 25 plöntur á sínu heimili. „Ég bjó í Kaliforníu og þar voru þykkblöðungar áberandi einfaldlega vegna hitans og þeir þurfa lítið vatn. Ég fékk eiginlega nóg af þeim eftir búsetuna í Kaliforníu og er í dag með alls konar plöntur heima hjá mér. Ég blanda þeim öllum saman enda finnst mér allar grænar plöntur fallegar. Það er samt ágætt ráð fyrir þá sem eru að fá sér plöntur inn á heimilið og vilja að þær lifi af veturinn að velja plöntur sem ekki þurfa að vera í beinu sólarljósi.“

Náttúrulegir litir áberandi

Hvað varðar litavalið á heimilinu í vetur segir Alfa að náttúrulegir litir séu áberandi, bæði mjúkir tónar en einnig sterkir sem notaðir séu til þess að poppa upp. „Dökkgrænn, vínrauður eða dökkblár eru góðir litir til þess að mála einn vegg í, sem og allir þessi dökku bleiku tónar.“ Hún segir annars mikilvægt að fólk geri það sem því finnst fallegt frekar heldur en að fara eftir því hvað sé í tísku. „Þér þarf að líða vel á heimilinu og þú veist best hvort það er með 10 púðum í sófanum eða minna dóti.“ Spurð út í undirbúninginn á sínu eigin heimili fyrir veturinn segist hún smá saman vera að tína kertastjakana upp úr geymslunni eftir sumarið. „Það sem er á verkefnalistanum fyrir veturinn er borðstofuborð og að mála svefnherbergið en þar er ég þá að spá í mjúkan ryðbrúnan lit eða hlýjan vínrauðan“. Það er annars nóg af spennandi verkefnum fram undan hjá Grafít, þar sem þær systur hjálpa öðrum við að gera fínt hjá sér. Til að mynda eru þær að fara að innrétta stórt skrifstofuhúsnæði á Austurlandi.

„Við höfum tekið að okkur alls kyns fjölbreytt verkefni undanfarið og það er þessi fjölbreytileiki sem gerir vinnuna skemmtilega. Við hönnuðum til að mynda veitingastaðinn BrewDog Reykjavík sem var opnaður í fyrra og Havarí guesthouse tónleikastaðinn í Berufirði í samstarfi við Havarí og Baldur Svavarsson arkitekt hjá Úti/Inni. Í fyrra sumar tókum að okkur að innrétta skrifstofur hugbúnaðarfyrirtækisins Userlike í Köln í Þýskalandi. Svo höfum við innréttað bæði hús og íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og á Suð-Austurlandi, sem og að vinna mikið með eigendum hótela og gistihúsa á Suður- og Suð-Austurlandi. Síðan erum við í alls konar ráðgjöf og smærri verkefnum í bland. Ég hlakka því bara til vetrarins.“

Fimm góð heimilisráð fyrir haustið frá Grafít:

1. Rétt lýsing skiptir máli. Það er aldrei nóg af lömpum, dimmerum og kertum.

2. Náttúrulegur efniviður í húsgögnum gerir heimilið hlýlegt. Púðar, teppi og gardínur líka og bæta auk þess hljóðvistina.

3. Litir vetrarins eru mjúkir náttúrulitir sem poppaðir eru upp með sterkum tónum.

4. Góður ilmur á spreybrúsa eða góð ilmkerti gefa heimilinu ákveðinn ferskleika þegar ilms sumargróðursins nýtur ekki lengur við.

5. Plöntur auka loftgæðin, sem ekki veitir af þegar fólk fer að verja meiri tíma innandyra á haustin.

 

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
Alfa er mjög góð í því að raða saman dóti …
Alfa er mjög góð í því að raða saman dóti á fallegan hátt. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál