„Auðvitað borða ég talsvert af pítsum og hamborgurum“

Sindri Snær Jensson eigandi YUZU.
Sindri Snær Jensson eigandi YUZU.

Sindri Snær Jensson opnaði nýlega hamborgarastaðinn YUZU. Hann lifir annasömu lífi og leggur áherslu á í annríki dagsins að eiga áhugamál sem innihalda ekki farsíma. Það sem drífur hann áfram í öldugangi lífsins er það að gleðja fólk, hvort sem það er þegar fólk labbar alsælt út úr Húrra með nýja peysu eða með magann fullan af bragðgóðum mat.

„Hugmyndin að YUZU er rúmlega fimm ára gömul eða allt frá því að ég og Jón Davíð viðskiptafélagi minn smökkuðum sambærilega útfærslu af hamborgara á ferðalögum okkar á vegum Húrra Reykjavík. Þetta er auðvitað smá skrýtið af því að við erum í pitsunum fyrir með Flatey Pizza og svo beint í hamborgarana. En YUZU er miklu meira en hamborgarastaður, við erum með brjálaða smárétti sem hrista vel upp í bragðlaukunum og eru frábærir til að deila. Við njótum þess í botn að starfa með meistarakokki líkt og Hauki Má Haukssyni sem er meðeigandi okkar en Haukur hafði áður starfað á Fiskmarkaðnum, Grillmarkaðnum & Zuma í London. Þannig að hugmyndin er að taka einfalda vöru líkt og hamborgara, gera hana ferskari og undir asískum áhrifum, ekkert beikon, engin BBQ-sósa, ekki þessi ameríska útgáfa sem allir þekkja. Brauðin eru til að mynda gufubökuð sem gerir það að verkum að þau eru eins og létt ský undir tönn og maður fær allt bragðið úr borgaranum beint í pallettuna. Þar að auki hugsum við mikið um upplifun og við vildum gefa fólki færi á meiri út-að-borða upplifun með mat sem flestallir elska og á verði sem þykir sanngjarnt. Þannig á maður að geta leyft sér að fara oftar á YUZU, upplifunin er mikil, maturinn framúrskarandi og veskið tekur kannski eins mikið högg og að fara á fine-dining stað,“ segir Sindri Snær.

Staðurinn hefur fengið mikið lof fyrir fallega hönnun. Hafsteinn Júlíusson, hönnunarstjóri HAF STUDIO, segir að innblásturinn hafi komið frá Japan.

„Við hönnun staðarins sótti HAF STUDIO innblástur í japanska hönnun og hugmyndafræði. Við vildum að staðurinn væri hæfilega góð blanda af grófum óhefluðum strúktur og mjúkum fíngerðum efnum sem saman mynda hlýlega og áreynslulausa stemningu,“ segir Hafsteinn.

Innréttingar, efnisval og andrúmsloft er heillandi á YUZU. Sindri Snær segir að þeir Jón hafi vitað upp á hár hvað þeir vildu.

„Við Jón höfum alltaf haft sterkar skoðanir á innréttingum, efnisvali, uppsetningu og öllu sem viðkemur hönnun. Fyrst og fremst elskum við að búa til konsept og hingað til hefur það tekist þokkalega til með Húrra Reykjavík, Flatey Pizza og nú sjáum við hvernig YUZU reiðir af. En alveg frá degi eitt af YUZU-verkefninu vildum við fá HAF STUDIO til liðs við okkur, Karítas og Hafsteinn eru einskærir snillingar og það kom heldur betur í ljós í sumar þegar við vorum í hönnunarferlinu og framkvæmdum. Hlutabréfin þeirra eiga bara eftir að fara upp og þau geta farið eins langt og þau vilja í hönnunarbransanum. Ég er ótrúlega stoltur af útkomunni og staðurinn hefur fengið mjög góð viðbrögð varðandi útlit, uppsetningu, efnisval og svo framvegis,“ segir hann.

Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Setur heilsuna í forgrunn

Mataræði og heilsa er mikið í umræðunni. Þegar Sindri Snær er spurður að því hvernig hann hugsi um sitt mataræði og sína heilsu kemur í ljós að honum er annt um hvorttveggja.

„Alla tíð hef ég spilað fótbolta og nú síðast með KR þar sem ég lauk mínum ferli með Íslandsmeistaratitli, ég hef því lítið þurft að hugsa þegar kemur að æfingum og hef getað borðað nokkuð frjálslega. Eftir að ég hætti er ég byrjaður í þjálfun hjá ungum metnaðarfullum einkaþjálfara sem heitir Guðmundur Emil og þjálfar í World Class á Nesinu. Við Gummi höfum verið að fara yfir mataræðið og hreinsa aðeins til þar. Ég borða nánast aldrei fyrir hádegi og hef lengi verið nokkurn veginn á 16/8. En auðvitað borða ég talsvert af pítsum og hamborgurum, ætla ekki að ljúga neinu um það. Það er samt ótrúlegt að eftir að ég hætti í fótboltanum fór ég að upplifa vanlíðan andlega og ég kveikti ekki alveg strax hvað málið snérist um, en þá var það hreyfingin sem vantaði og eftir að ég byrjaði að hreyfa mig reglulega aftur er hausinn og andleg líðan miklu betri.“

Sindri Snær segist þurfa að passa mjög vel upp á sig svo vinnan yfirtaki ekki líf hans.

„Ég þarf að passa mig svakalega því fyrirtækjarekstur er 24/7 vinna og það getur verið erfitt að hreinsa hugann og hlúa að sjálfum sér. Það besta sem ég veit um er að gera eitthvað þar sem síminn er ekki með í för, sund, golf, spa, göngutúr eða góð æfing. Það er merkilegt hvað símarnir hafa gert mikla innrás í líf okkar á skömmum tíma og stór hluti fólks er orðinn algjörlega háður og þar á meðal ég. Þessi tími sítengingar við allt og alla getur ekki verið heilbrigður til lengri tíma sem sést á alls konar kulnun, streitu, kvíða og depurð í samfélaginu.“

Hvernig er hefðbundinn dagur í lífi þínu?

„Hver einasti dagur er frábrugðinn deginum á undan. Dagsdaglega starfa ég mest fyrir Húrra Reykjavík og er mikið að flakka á milli búðanna og skrifstofunnar. Ég held utan um öll innkaup og birgjarnir eru yfir 30 talsins svo það fer talsverður tími í samskipti og pantanir. Flatey Pizza er einnig í mikilli sókn og stendur til að opna nýjan stað á næstunni utan Reykjavíkur. Svo er að mörgu að huga á YUZU enda staðurinn ungur og mikið að koma upp sem þarf að breyta, bæta og bregðast við. Ég vakna yfirleitt á milli 8 og 9 og svo bara á fulla ferð, við Jón tölum oft um að við séum staddir í púsluspili, suma daga náum við að gera tíu púsl, aðra bara tvö og svo framvegis. Það er ágætis leið til að líta á starfið enda hefur það engan endapunkt eða lokaniðurstöðu, við getum alltaf gert betur, við getum alltaf bætt okkur, möguleikarnir eru endalausir og allt í boði.“

Hvað gerir þig hamingjusaman?

„Ég upplifi mesta hamingju þegar ég finn að ég er að hafa jákvæð áhrif á annað fólk. Það er ástæðan fyrir því að tískubransinn og verslun heillaði mig frá upphafi, mannlegi þátturinn, að geta hjálpað öðrum að líða betur. Þetta hefur svo fylgt mér í gegnum fótboltaferilinn og í öllum mínum störfum. Mér hefur svo liðið best þegar ég finn að ég er að gera nákvæmlega það sem ég á að vera að gera. Ég get nefnt ferðalög erlendis þar sem við erum að hitta spennandi vörumerki og hönnuði í tískubransanum eða þegar ég hef verið að ferðast með KR erlendis og ég get haft jákvæð áhrif á liðsfélagana og hópinn.“

Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál