„Við hjónin eigum það sameiginlegt að vera afskaplega framkvæmdaglöð“

Alma Sigurðardóttir lifir og hrærist í heimi hönnunar og lista.
Alma Sigurðardóttir lifir og hrærist í heimi hönnunar og lista.

„Ég hef alltaf haft áhuga á umhverfinu og sérstaklega byggingarlist. Eftir útskrift úr Tækniskólanum flutti ég til London og sat ýmis námskeið í háskólum þar, meðal annars um byggingarsögu bogarinnar. Í kjölfarið flutti ég til Glasgow þar sem ég bjó í 3 ár og lærði arkitektúr við Glasgow School of Art. Eftir námið var mér ljóst að áhugi minn á arkitektúr snéri meira að byggingarsögu og eldri byggingum. Ég fór í LHÍ og kláraði þar MA í listkennslu, kenndi í nokkur ár í Hjallastefnunni og opnaði vefinn www.byggingarlist.is þar sem ég deili bygginarlistatengdum verkefnum sem ég þróaði samhliða kennslunni. Eftir fæðingarorlof bauðst mér starf hjá húsadeild Borgarsögusafns en þar opnaðist heimur varðveislu bygginga fyrir mér. Ferðinni var því aftur heitið til Skotlands árið 2018 en ég útskrifaðist með MSc gráðu í Architectural Design for the Conservation of Built Heritage eða hönnun og varðveislu bygginga frá University of Strathclyde í nóvember á síðasta ári,“ segir Alma Sigurðardóttir verkefnastjóri húsverndar hjá Borgarsögusafni í samtali við Smartland. 

Hér má sjá fyrir og eftir myndir af verkefni sem …
Hér má sjá fyrir og eftir myndir af verkefni sem Alma tók að sér.

Þegar Alma er spurð hvaðan áhugi hennar á hönnun komi segir hún að móðir hennar eigi drjúgan þátt í því. 

„Mamma var alltaf með fallegar bækur um list og arkitektúr uppi við heima. Henni fannst gaman að fara á söfn og tók mig oft með. Ég hugsa að það hafi opnað glugga inn í heim hönnunar og lista,“ segir Alma. 

Varstu farin að drekka í þig nýjustu strauma og stefnur sem barn?

„Já, svona að einhverju leiti. Það var auðvitað ekkert Pintererst í gangi á þeim tíma þannig að ég var nú mest að skoða Hús og hýbíli tímarit ásamt listabókum.“

Hvað finnst þér mest heillandi við heim hönnunar?

„Ætli ég fylgist ekki mest með því sem er í gangi í heimi varðveislu og byggingarlistar, enda liggur áhuginn þar. Mér finnst alltaf heillandi að skoða verkefni þar sem borin er virðing fyrir sögunni og henni leyft að njóta sín í samspili við það nýja. Það er auðvitað fjölmörg dæmi í nútíma arkitektúr sem eru að fást við þetta sem gaman er að fylgjast með, spá og spekúlera út frá ólíkum kenningum og hugmyndafræði um varðveislu bygginga.“

Nú hafði þið tekið fjölmargar íbúðir í gegn á smekklegan hátt. Segðu mér betur frá því verkefni?

„Við hjónin eigum það sameiginlegt að vera afskaplega framkvæmdaglöð. Við heillumst oftast að eignum sem líta að mati annara óaðlaðandi út. Lykillinn að flestu sem við gerum er fólgin í því að horfa í gegnum það sem þykir síður smekklegt og sjá möguleikana. Við höfum staðið í allskonar framkvæmdum með mis mikið fjármagn á milli handana. Mesta áskoruninn og í raun gleðin má segja að sé þegar manni tekst að gera sem mest úr sem minnstu. Það þarf ekkert alltaf allt að kosta hönd og fót til að vera fallegt. Þetta er bara spurning um útsjónasemi og hugmyndaflug. Gæðin felast oft í upprunaleikanum og því finnst mér alltaf mikilvægt að hafa það að leiðarljósi í því sem ég og við gerum. Núna síðast tókum við í gegn eign í Stangarholti 8 sem í grunninn er flott eign en þurfti á þessu klassíska „make-overi“ að halda. Þar voru falleg upprunaleg og vönduð element sem mér fannst skipta máli að halda í s.s. hurðar og hurðahúnar, línolíum dúkur og svo framvegis,“ segir Alma. 

Hér má sjá fyrir og eftir á verkefni sem Alma …
Hér má sjá fyrir og eftir á verkefni sem Alma tók að sér.

Hvernig er stíllinn þinn?

„Ætli það sé ekki svona sambland af klassík og safari. Ég hlæ oft að því hvað ég heillast að safari-stíl þrátt fyrir að hafa aldrei farið í slíka ferð. Ég hef verið að kaupa allskonar skinn, hatta og dótarí sem maðurinn minn skilur ekki alveg tilganginn með.“

Eruð þið hjónin alltaf sammála um hvernig þetta eigi að vera?

„Nei. Þegar í harðbakka slær hef ég verið að vinna með „þú ert ekki menntaður í þessu“ svarið sem virkar oft en ekki alltaf. Hann má nú samt eiga það að hann er orðinn nokkuð sjóaður í því að taka eiginir í gegn og mjög flíknur í því að búa til pening úr litlu. Ég hef lært fullt af honum og hann vonandi eitthvað af mér,“ segir hún. 

Hvaða efniviður finnst þér mest spennandi?

„Eldri hús. Þar liggur áhuginn. Drauma verkefnið væri að fá að taka í gegn gamalt hús og gera það upp eftir kúnstarinnar reglum.“

Í hverju ertu að vinna þessa dagana?

„Ég starfa í húsadeild Borgarsögusafns. Þar vinnum við að ólíkum verkefnum s.s. húsa- og byggðakönnunum, umsögum og ráðgjöf. Einu sinni í viku vinn ég í húsverndarstofu sem er samstarfsverkefni Borgarsögusafns, Iðunnar fræðsluseturs og Minjastofnunar þar sem fólki býðst að koma og fá ókeypis ráðgjöf í tengslum við framkvæmdir á eldri húsum. Þess utan erum við hjónin að leigja út íbúðir í lang- og skammtíma leigu og inn á milli að gera íbúðir upp.“ 

Hvað drífur þig áfram þegar kemur að heimilishönnun?

„Að skapa notalegt og hlýlegt umhverfi þar sem fólki líður vel. Fólk er auðvitað að vinna með mismunandi aðstæður en heima hjá okkur er heimilishaldið með 3 ára orkubolta oft nokkuð hresst. Markmiðið var því að skapa umhverfi þar sem væri svigrúm fyrir að það sullaðist ís í sófann án þess að það væri stórmál og auðveldlega hægt að þrífa mublur, veggi, gólf og þess háttar.“

Hvað dreymir þig um að eignast inn á heimilið?

„Mig hefur lengi langað í svaninn eftir Arne Jacobsen. Klassísk falleg og elegant hönnun sem stendur alltaf fyrir sínu.“

Hver er þinn uppáhaldshönnuður og hvers vegna? 

„Ætli það séu ekki þessir gömlu góðu meistarar sem hafa sett svip á byggingarsöguna bæði erlendis og hér heima á Ísland. Ítölsku villurnar hans Palladio, Bramante, Le Corbusier, Mies vand der Rohe, Frank Lloyd Wright og síðan Guðjón Samúelsson og Einar Sveinsson.“ 

mbl.is