Gerði samning um að vera ekki með plaköt á veggjunum

Hildur Gunnlaugsdóttir arkitekt býr ásamt eiginmanni sínum, Hreiðari Leví Gunnarssyni, …
Hildur Gunnlaugsdóttir arkitekt býr ásamt eiginmanni sínum, Hreiðari Leví Gunnarssyni, við Hvassaleiti í Reykjavík. mbl.is/Arnþór Birkisson

Hildur Gunnlaugsdóttir arkitekt er gestur Heimilislífs að þessu sinni en þættirnir eru sýndir á Smartlandi á mbl.is. Þetta er reyndar í annað sinn sem hún kemur í þáttinn en stuttu síðar seldu hún og eiginmaður hennar fyrri íbúðina og festu kaup á raðhúsi í Hvassaleiti. Þegar hún byrjaði að búa með manninum sínum gerðu þau samning um að það væru engin plaköt á veggjunum.

Heimili Hildar og Hreiðars Levís Guðmundssonar er afar smekklega innréttað. Þegar inn í húsið er komið tekur heillandi eldhús á móti fólki en innréttingin er úr IKEA og er steinn á borðplötunni. Í eldhúsinu mætast gráir og grænir tónar sem spila vel á móti svörum. Spurð um litinn í eldhúsinu kemur í ljós að hann er frá Sérefni.

„Ég hef lengi verið hrifin af grágrænum og grábláum tónum. Ég varð því strax hrifin af græna litnum á eldhúsinnréttingunni en liturinn gefur svolítið tóninn inn á heimilið. Húsgögn vil ég gjarna hafa fremur litlaus og klassísk, svört, hvít, grá eða úr viði en mér finnst græni tóninn binda það allt vel saman. Plönturnar verða þá líka hluti af litapallettu heimilisins,“ segir Hildur.

Eldhúsið samanstendur af skápavegg sem hefur að geyma ísskáp, bakarofn, vask, helluborð, viftu og blöndunartæki. Fyrir framan skápavegginn er stór eyja sem setur svip sinn á rýmið. Í eldhúskróknum er lítið barnaeldhús sem er í stíl við eldhúsinnréttinguna.

„Við keyptum þetta eldhús á bland.is fyrir 3.000, ég pússaði það upp og málaði í sama lit og eldhúsið okkar. Ég lét litagreina bút úr innréttingunni okkar svo liturinn yrði alveg örugglega eins. Mér fannst eitthvað svo krúttlegt að sú tveggja ára fengi mini-útgáfu af eldhúsinu okkar. Ég sprautulakkaði síðan gamla stöng fyrir eldhúsáhöld sem fannst inni í geymslu og festi yfir eldhúsið,“ segir Hildur.

Við eldhúsið er stórt borðstofuborð sem þau létu búa til en fyrir ofan borðið eru ljós frá dönsku fyrirtæki.

„Ljósin yfir borðstofuna eru frá dönsku fyrirtæki sem heitir Muubs og heita Fishtrap og eru búnir til úr indónesískum fiskigildrum. Lappirnar á borðstofuborðinu eru frá Ferm Living en borðplatan er úr Fenix-efni sem við pöntuðum sérstaklega. Borðið getur með ágætu móti tekið 12 manns ef við bætum stólum við sem er frábært fyrir stærri boð,“ segir Hildur og segir að það sé náttúrlega enginn að halda boð akkúrat núna en þetta borð muni koma að góðum notum þegar kórónuveiran verður yfirstaðin.

Á hæðinni þar sem eldhús og stofa mætast er mjög fallegt parketlagt gólf með fiskibeinamynstri.

„Gólfið er niðurlímt fiskibeina-eikarparket frá Agli Árnasyni sem er lakkað með lakki sem kemur í veg fyrir að gólfið gulni of mikið með tímanum.“

Getur þú lýst þínum stíl?

„Stíllinn minn er fremur einfaldur. Ég hef gaman af fallegum vönduðum húsgögnum sem vonandi standast tímans tönn. Húsgögn og munir með sögu eru mér sérstaklega kær. Mér þykir afar vænt um húsgögn sem ég hef erft frá ömmu og afa og húsgögn sem mamma hefur gefið mér síðustu 20 árin en hún hefur alið upp í okkur systur minni áhuga á húsgagnahönnun. Ég nýt þess síðan að finna notuð húsgögn sem ég get gert upp og látið passa inn í heimilið. Við vöndum valið á nýjum húsgögnum, fylgihlutum og list sem kemur inn á heimilið þannig að það hefur oftast einhvern aðdraganda. Ég vil miklu frekar bíða og kaupa eitthvað sem ég veit að ég vil eiga næstu áratugina en að hlaupa af stað og fylla allt af munum sem gliðna í sundur eða eru of háðir tískustraumum.

Ég leyfi litagleðinni að njóta sín inni hjá börnunum og reyni að búa til umgjörð sem hentar þeirra áhugamálum og persónuleika.

Ég er svo lánsöm að við maðurinn minn erum samstíga en þegar við byrjuðum að búa þá bað hann mig um tvennt, í fyrsta lagi að vera ekki með textaplatta eða plaköt á veggjum og að vera ekki með svo mikið af skrautmunum að hann finni ekki vatnsglasið sitt. Ég ætlaði mér hvorugt þannig að það hefur verið mjög farsælt samstarf að koma upp sameiginlegu heimili. En framar öllu vil ég eiga heimili sem heldur vel utan um fjölskylduna, með rólegu og afslöppuðu yfirbragði.“

Í eldhúsinu mætast grængrá innrétting og gráir tónar á veggjum.
Í eldhúsinu mætast grængrá innrétting og gráir tónar á veggjum. mbl.is/Arnþór Birkisson
Á gólfunum er parket með fiskibeinamunstri.
Á gólfunum er parket með fiskibeinamunstri. mbl.is/Arnþór Birkisson
Hildur keypti litla eldhúsið á bland.is og gerði það upp.
Hildur keypti litla eldhúsið á bland.is og gerði það upp. mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is/Arnþór Birkisson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »