Fyrsta tilfinning var að flytja út á land

Tinna Jökulsdóttir er ánægð með raðhúsið sem hún tók í …
Tinna Jökulsdóttir er ánægð með raðhúsið sem hún tók í gegn með eiginmanni sínum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tinna Jökulsdóttir sjúkraþjálfari og eiginmaður hennar Vilhjálmur Ingi Halldórsson komust að því í júlí 2018 að ekki væri bara von á fjórða barninu heldur líka því fimmta. Þau fundu að lokum 177 fermetra raðhús í Garðabæ sem þau sáu fyrir sér að gæti nýst þeim en til þess þurftu þau að brjóta niður veggi, opna rými og loka enn öðru rými til að búa til aukasvefnherbergi. 

„Fjölskyldan okkar var allt í einu að stækka úr fimm í sjö og íbúðin sem hefði átt að duga svolítið lengur var allt í einu sprungin utan af okkur. Fyrsta tilfinningin okkar var að við þyrftum að flytja út á land. Við myndum líklega ekki finna hús í Garðabæ á viðráðanlegu verði sem myndi rúma okkur öll. En svo urðum við heppin og fundum þetta frábæra hús sem bauð upp á mikla möguleika fyrir okkur,“ segir Tinna um hús sem fjölskyldan flutti inn í í janúar 2019, einum mánuði áður en tvíburarnir áttu að koma í heiminn.

Alrýmið er skemmtilegra og bjartara eftir að því var breytt.
Alrýmið er skemmtilegra og bjartara eftir að því var breytt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjónin fengu afhent 2. desember klukkan sex um kvöld og parketið var farið af öllu húsinu fjórum klukkutímum seinna. Von var á tvíburunum í febrúar og hjónin sáu ekki fram á að standa í framkvæmdum með tvíbura og þrjú önnur ung börn. Á sex vikum tókst þeim að klára allar framkvæmdir og þakkar Tinna eiginmanni sínum, tengdapabba og móðurbróður fyrir hjálpsemina en hún gat lítið gert annað en að færa þeim bakkelsi.

Húsið var byggt árið 1983 og var aðeins pláss fyrir þrjá í eldhúskróknum í upprunalega eldhúsinu sem hentaði stækkandi fjölskyldunni engan veginn.  

„Það var lokað af með nokkrum veggjum sem við ákváðum að brjóta niður og hafa opið eldhús með stórri eyju í miðjunni, með möguleika á barstólum við. Að opna alrýmið svona hentaði okkur mjög vel, bæði fannst okkur það smart auk þess sem það er gott að vera með yfirsýn yfir öll þessi litlu börn sem við eigum,“ segir Tinna og segir alrýmið nú vera skemmtilegra og bjartara. Tinna nýtir eyjuna í alrýminu vel og segir að eyjan sé algjör miðdepill í rýminu. Hún hlakkar til að fá sér barstóla við eyjuna þannig að hægt verði að nýta hana sem borð líka.

Stofa, borðstofa og eldhús mynda eitt rými.
Stofa, borðstofa og eldhús mynda eitt rými. Eggert Jóhannesson

 Tinna og Vilhjálmur lögðust í fleiri framkvæmdir.

„Þvottahúsið var mjög lítið og búr eða geymsla inn af því sem við ákváðum strax að breyta í eitt stórt þvottarými með stórum skápum þar sem krakkarnir eru með öll sín föt og því nýtast herbergin hjá krökkunum betur því þar eru engir skápar. Fyrst voru fjögur svefnherbergi í húsinu og eitt opið rými sem var notað sem sjónvarpsherbergi. Við lokuðum það af til að búa til aukaherbergi svo allir krakkarnir fá sitt eigið herbergi, nema tvíburarnir sem deila herbergi. Anddyrið var frekar lítið og með ónýtum skápum svo við stækkuðum það og gerðum ráð fyrir því að gera aukaklósett þar í framtíðinni. Svo það er tilbúið tengi í nýja veggnum og búið að grafa fyrir lögnum,“ segir Tinna en búið er að fá leyfi fyrir því að stækka húsið um 25 fermetra og er áætlunin að stækka forstofuna á næstu tíu árum. Eftir að þau tóku allt inni í gegn tóku þau garðinn í gegn fyrir aftan hús og gerðu hann notendavænni fyrir barnmarga fjölskyldu.

Það er pláss fyrir alla í stóra nýja eldhúsinu.
Það er pláss fyrir alla í stóra nýja eldhúsinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tinna segir að litlu hlutirnir hafi komið á óvart í ferlinu. Til að byrja með ætluðu þau bara að rífa nokkra veggi og breyta skipulaginu aðeins. Það tók hins vegar sinn tíma að breyta rafmagni og tenglastaðsetningu.

„Þegar ferlið hófst komu oft upp einhver atrið sem við höfðum ekki hugsað okkur að gera strax, en þá var okkur yfirleitt ráðlagt að klára það af núna áður en við flyttum inn. Það tafði oft ferlið en maður sér ekki eftir því í dag. Svo var það kostnaðurinn, við vissum að kostnaðaráætlunin sem við lögðum upp með í upphafi myndi sennilega hækka, sem hún og gerði. Það kom kannski ekki á óvart og er víst mjög algengt þegar lagt er af stað í svona miklar breytingar.“

Tinna er reynslunni ríkari eftir framkvæmdirnar og ráðleggur fólki sem er á leið í framkvæmdir að gera alltaf ráð fyrir að verkið taki lengri tíma en áætlað er í fyrstu og að það muni kosta meira. Einnig bendir hún fólki á að hugsa út í nýtingu á rýminu, að fólk sjái fyrir sér lokaútkomuna og hvernig hún virkar fyrir heimilisfólkið. 

Fyrir breytingar

Gamla eldhúsið rúmaði ekki sjö manna fjölskyldu.
Gamla eldhúsið rúmaði ekki sjö manna fjölskyldu. Ljósmynd/Aðsend
Eldhúsinnréttingin var komin til ára sinna.
Eldhúsinnréttingin var komin til ára sinna. Ljósmynd/Aðsend
Tinna og Vilhjálmur breyttu þvottaherberginu og búrinu þannig það hentaði …
Tinna og Vilhjálmur breyttu þvottaherberginu og búrinu þannig það hentaði betur stórri barnafjölskyldu. Ljósmynd/Aðsend
Hér má sjá veggi sem fengu að fjúka.
Hér má sjá veggi sem fengu að fjúka. Ljósmynd/Aðsend
Horft inn í stofuna fyrir breytingar.
Horft inn í stofuna fyrir breytingar. Ljósmynd/Aðsend
Þau voru fljót að henda út gamla gólfefninu en auk …
Þau voru fljót að henda út gamla gólfefninu en auk þess rifu þau meðal annars niður veggi og breyttu skipulagi. Ljósmynd/Aðsend
Mikið gekk á í framkvæmdunum.
Mikið gekk á í framkvæmdunum. Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál