Vita fátt skemmtilegra en að gera upp íbúðir

Eva Rakel Jónsdóttir.
Eva Rakel Jónsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eva Rakel Jónsdóttir ferðaráðgjafi hjá Vita og unnusti hennar Agnar Friðbertsson hafa hreiðrað um sig á einstakri hæð í Hlíðunum sem þau hafa verið að gera upp að undanförnu. 

Eva Rakel hefur komið sér einstaklega vel fyrir á fallegri hæð í Hlíðunum ásamt unnusta sínum Agnari Friðbertssyni og börnum þeirra tveimur.

Þau hafa flutt þrisvar sinnum síðustu þrjú árin en segjast nú vera búin að koma sér þannig fyrir að þau langi ekki til að færa sig um set næstu árin.

„Við Agnar elskum að gera upp íbúðir og að finna okkur verkefni að gera saman heima. Ég er í fæðingarorlofi, þannig að flestir dagar fara í að hitta aðrar vinkonur mínar sem eru líka í orlofi. Einnig er ég dugleg að fara í langa göngutúra niður í miðbæ.

Ég og maðurinn minn erum einnig rosalega góð í að finna okkur verkefni heima. Næst á dagskrá er að taka þvottahúsið í gegn. Það er svo gaman að gera fallegt í kringum sig. Maður hættir því aldrei!“

Borðstofan í uppáhaldi

Heimili er fyrir Rakel staður þar sem stress og áhyggjur líða úr manni. Uppáhaldsstaðurinn hennar heima er borðstofan.

„Borðstofan okkar er nokkuð stór og reyni ég alltaf að hafa fersk blóm á borðstofuborðinu. Það finnst mér gera svo mikið. Morgunmatur í borðstofunni um helgar með allri fjölskyldunni er alltaf jafn notalegt! Einnig finnst mér „betri stofan“ mín ansi hugguleg. Þar er mjög notalegt að sitja með kaffibolla eða þegar ég þarf að vinna í tölvunni fyrir framan arininn.“

Eva Rakel og fjölskylda fluttu inn í íbúðina í febrúar á þessu ári.

„Þá var ég komin sjö mánuði á leið með son okkar þannig að það var í nógu að snúast. Við erum hægt og rólega búin að koma okkur ágætlega fyrir þótt ekki sé allt ennþá tilbúið.

Ég er einnig búin að læra að það er ekki gott að vaða of hratt í framkvæmdir. Þegar maður hefur komið sér vel fyrir er gott að sjá hverju maður vill breyta og hvernig.“

Hvað getur þú sagt mér um litavalið á heimilinu?

„Ég er með alrýmið málað grátt og síðan með aðeins dekkri gráan lit í borðstofunni til að skapa meiri dýpt. Það sem ég passaði mig á þegar ég var að velja lit var að velja gráan með hlýjum undirtóni.

Áður fyrr vildi ég helst hafa allt hvítt. Hvít húsgögn og allt málað hvítt. Núna kann ég að meta að hafa meiri náttúruefni og liti heima. Við erum til dæmis með hnotuhúsgögn og húsgögn úr brúnu leðri og náttúrulega liti og efni. Það er einnig á dagskrá að fá náttúrustein í eldhúsið.

Litirnir sem við völdum heita Linnea Sand á alrýminu og Angora Blanket í borðstofunni og eru báðir frá Sérefnum.

Við erum síðan með dekkri lit í svefnherberginu.“

Ertu að safna fyrir húsgagni?

„Já, ég er að safna mér fyrir Mammoth-stólnum frá Norr11 í koníaksbrúnu leðri. Ég hef ekki séð fallegri stól og er búin að hugsa um hann stanslaust í nokkur ár!“

Langskemmtilegast að innrétta barnaherbergi

Hvernig eru góð barnaherbergi að þínu mati?

„Barnaherbergi geta verið alls konar og eru þetta yfirleitt þau rými heimilisins þar sem við gefum okkur lausan tauminn hvað mest þegar kemur að hönnun og útliti.

Mér finnst langskemmtilegast að innrétta barnaherbergi! Ég hikaði ekki við að veggfóðra herbergi dóttur minnar þegar ég sá dásamlega fallegt og ævintýralegt veggfóður í Sérefnum. Ég gerði einnig upp klassískt IKEA-barnaeldhús, en ég fæ mikið af hugmyndum með barnaherbergin á Pinterest. Góð barnaherbergi eru að mínu mati eins og ævintýraheimur þar sem börn geta leikið sér með fallegu og jafnframt skemmtilegu dóti. Það er svo mikið úrval af fallegum tréhúsgögnum og leikföngum núna að það er ekkert mál að skreyta barnaherbergi. Svo lengi sem litirnir í herberginu tala saman verður útkoman oftast falleg.“

Góður matur gerir allt betra

Þegar kemur að því að gera sér glaðan dag á tímum kórónuveirunnar segist Eva Rakel vera heppin með hæfileika unnusta síns í eldhúsinu.

„Ég er svo heppin að maðurinn minn elskar að elda og framreiðir dýrindis mat fyrir okkur nánast öll kvöld. Við erum dugleg að bjóða okkar nánustu í mat til okkar.

Við þurfum ekkert meira en góðan mat og kósí kvöldstund með fjölskyldu eða vinum til þess að gera okkur glaðan dag.“

Hvað fannst þér mest heillandi við íbúðina þegar þú sást hana fyrst?

„Við höfðum verið að leita okkur að hæð í Hlíðunum í smá tíma þegar við rákumst á þá sem við eigum núna. Gluggarnir voru það sem heilluðu okkur fyrst og einnig það að hún var með sérinngangi. Húsið var samt í slæmu ásigkomulagi að utan og við þurftum að ráðast í miklar framkvæmdir sem var ljúka. Það er allt annað að sjá húsið og við erum í skýjunum með útkomuna.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »