Vörulisti IKEA kveður eftir 70 ára sögu

Hér má sjá eldhús úr vörulista IKEA árið 2020. Nú …
Hér má sjá eldhús úr vörulista IKEA árið 2020. Nú er vörulistinn hættur að koma út. Ljósmynd/IKEA

Það kætast margir þegar vörulisti IKEA kemur inn um lúguna. Nú verður breyting á og eftir 70 ára sögu er vörulistinn hættur að koma út. Hvort sem fólk er í leit að innblæstri, upplýsingum eða hreinlega dægradvöl þá eiga margir eftir að sakna bæklingsins. 

Stofnandi IKEA, Ingvar Kamprad, gerði sjálfur fyrsta IKEA-vörulistann árið 1951. Hann var 68 síður og honum var dreift í 285.000 eintökum í Suður-Svíþjóð. Fjöldi prentaðra eintaka var mestur árið 2016 þegar 200 milljón eintökum var dreift á 32 tungumálum á rúmlega 50 mörkuðum.

„Tímarnir breytast. IKEA, líkt og önnur fyrirtæki, verður sífellt tæknivæddara og aðgengilegra, á sama tíma og fleiri leiðir eru í boði til að tengjast fólki. Hegðun viðskiptavina og samskiptaleiðir hafa breyst og vörulistinn er minna notaður en áður. Því hefur verið tekin sú erfiða, en skynsamlega, ákvörðun að binda enda á glæsilegan feril vörulistans á heimsvísu og horfa til framtíðar,“ segir í fréttatilkynningu frá IKEA. 

„Vörulistinn hefur ekki bara almennt notagildi heldur einnig sterkt tilfinningagildi hjá viðskiptavinum okkar. Í 70 ár hefur hann verið ein af okkar merkilegustu afurðum en það er þó afar eðlileg þróun að taka þetta skref núna þar sem fjölmiðlanotkun fólks og kauphegðun hefur breyst. Við munum beita nýjum aðferðum við að ná til viðskiptavina okkar og efla tengslin,“ segir Konrad Grüss, forstjóri Inter IKEA Systems B.V., sérleyfiseiganda IKEA á heimsvísu.

Eftir tilraunir IKEA á stórum mörkuðum var niðurstaðan sú að fólk skipulegði húsbúnaðaróskir sínar í auknum mæli með aðstoð tækninnar.

mbl.is