Breyttu gömlu gripahúsi í Dalabyggð í gistihús

Edurbygging af gamalli hlöðu á Skarðströnd í Dalabyggð, Nýp guesthouse.
Edurbygging af gamalli hlöðu á Skarðströnd í Dalabyggð, Nýp guesthouse. Ljósmynd/Giovanni De Roia

Sigrún Sum­arliðadótt­ir hannaði ásamt meðeigendum sínum á alþjóðlegu arkitektastofunni Studio Bua endurbyggingu á gömlu gripahúsi á Skarðsströnd í Dalabyggð, Nýp Geusthouse. The American Institu­te of Architects (AIA) veitti Studio Bua bresk hönnunarverðlaun árið 2020 fyrir verkefnið í flokki efnilegra stofa en margir virtir arkitektar eru í hópi verðlaunahafa síðustu 20 ár.

„Nýp er marg­brotið býli með mörg­um lög­um sem við höf­um nú sett okk­ar spor á. Upp­runa­lega bygg­ing­in skipt­ist í tvennt með íbúðar­hluta öðrum meg­in og hlöðu með súr­hey­st­urni hinum meg­in, gripa­húsið er á vinstri hlið og nú er opið á milli bygg­ing­anna. Um er að ræða klasa af bygg­ing­um sem bæt­ist við og breyt­ist eft­ir þörf­um íbúa. Verk­efnið er okk­ar fram­lag til býl­is­ins sem mun ef­laust halda áfram að taka breyt­ing­um og þró­ast í framtíðinni,“ segir Sigrún um býlið og verkefni stofunnar. 

Sigrún Sumarliðadóttir arkitekt.
Sigrún Sumarliðadóttir arkitekt. Ljósmynd/Aðsend

Starfa í Ósló og Lundúnum

Sigrún býr í Ósló og rekur stofuna Studio Bua með eiginmanni sínum, Ítalanum Giambatt­i­sta Zaccariotto. Sigrún og Giambatt­i­sta kynntust í Arkitektaháskólanum í Feneyjum þar sem hún var í meistaranámi. Hjónin kynntust svo meðeiganda sínum Mark í Hollandi þar sem Sigrún kláraði meistaranámið og maðurinn hennar doktorsnám. Þau þrjú reka nú stofuna Studio Bua saman; Sigrún og Giambatt­i­sta búa í Ósló en Mark starfar í Lundúnum. 

„Við Giambatt­i­sta flutt­um til Óslóar árið 2011. Við feng­um vinnu hér rétt eft­ir að við út­skrifuðumst en á þeim tíma var ekki mikið að gera fyr­ir arki­tekta á Íslandi eða á Ítal­íu. Giambatt­i­sta hef­ur unnið við kennslu við arki­tekta­skól­ann í Ósló, AHO, síðan þá og ég vann á stof­um hérna í Ósló. Giambatt­i­sta er núna fa­stráðinn pró­fess­or við há­skól­ann og þess vegna höf­um við ílengst hér,“ segir Sigrún sem segir gott að vera með stofur í tveimur löndum. 

Steypa fær að njóta sín í herbergjunum.
Steypa fær að njóta sín í herbergjunum. Ljósmynd/Giovanni De Roia

„Öll verkefnin á stofunni eru samvinna. Við erum í stöðugu sambandi á milli Lundúna og Óslóar og fórum fyrir Covid alltaf annan hvern mánuð á milli stofanna. Núna notum við Google hangouts eða Zoom. Við höfum unnið lengi saman þannig og þess vegna gengur það ágætlega. Yfirleitt er eitt af okkur með hlutverk hönnunarstjóra og með aðalumsjón með verkefninu, en hinir fara yfir gögn, koma með gagnrýni og aðstoða með teikningavinnu eins og þarf og svo framvegis. Við Nýpurverkefnið var ég með aðalumsjón,“ segir Sigrún.

Mikið endurnýtt

„Á Nýp vild­um við vinna með það sem fyr­ir var. Þetta er regla sem við not­um í flest­um okk­ar verk­efn­um. Verk­efnið var að bæta við þrem­ur gist­i­rým­um þannig að bær­inn gæti nýst bet­ur sem gisti­heim­ili en einnig sem sýningarrými. Við unn­um með gripa­húsið (var fjár­hús og fjós) sem er viðbót við aðal­bygg­ing­una og gerðum þar þessi þrjú „en-suite“-her­bergi en bætt­um við rými fyr­ir fram­an þau sem nýt­ist sem sýn­ing­ar­sal­ur fyr­ir mynd­list og hönn­un.“

Arkitektarnir hönnuðu þrjú herbergi og sýningarsal.
Arkitektarnir hönnuðu þrjú herbergi og sýningarsal. Ljósmynd/Giovanni De Roia
Arkitektarnir gerðu fallegt sýningarrými.
Arkitektarnir gerðu fallegt sýningarrými. Ljósmynd/Giovanni De Roia

Sigrún telur að það hafi heillað dómnefndina við Nýpurverkefnið að þau endurnýttu mikið og notuðust við staðarhefðir í byggingum á nýstárlegan hátt. Þau rannsökuðu fyrst strúktúrinn sem fyrir var á svæðinu og ákváðu að halda í steypta veggi sem ekki voru of skemmdir og byggðu svo í kringum þá.

„Við vild­um kom­ast hjá því að viðbót­in myndi skyggja á aðal­bygg­ing­una en stuðla að því held­ur að þær gætu styrkt hvor aðra, hvor í sínu hlut­verki. Við notuðum bygg­ing­ar­hefðir heimamanna, til dæm­is með hlöðnum stein- og torf­vegg þar sem hægt var. Við sömd­um við fólk á svæðinu um að vinna verkið. Einnig unn­um við með kera­mikklista­manni sem bjó til flís­ar úr Fagra­dalsleir. Þær voru síðan steypt­ar í gólfið í sýn­ing­ar­saln­um og sett­ar í kring­um ar­in í hlöðunni. Að inn­an sést tölu­vert af gömlu steyptu veggj­un­um sem ljá rýmun­um karakt­er og að framan­verðu er einnig upp­runa­leg sjón­steypa sem hent­ar bet­ur við hlið íbúðar­húss­ins. Mikið af því efni sem við notuðum í innra byrði, til dæmis hurðir, hand­rið og tré­sperr­ur/​viður, er end­ur­nýtt úr göml­um hús­um í miðbæ Reykja­vík­ur, efni sem átti að henda vegna þess að hús­in voru rif­in eða end­ur­gerð. Við notuðum líka trjá­boli úr rekaviði frá Strönd­um.

Það sem var okk­ur efst í huga var að gera breyt­ing­ar sem féllu vel að því sem fyr­ir var þó að við séum ekki hrædd við að koma við strúkt­úr­inn eða breyta. Okk­ar hlut­verk var að draga fram gæðin í því sem er þarna fyr­ir og sníða það að þörf­um viðskipta­vina okk­ar,“ segir Sigrún. 

Ljósmynd/Giovanni De Roia
Býlið er sett saman úr nokkrum byggingum.
Býlið er sett saman úr nokkrum byggingum. Ljósmynd/Giovanni De Roia

Verkefni arkitekta er að vinna með söguna

Arkitektarnir fengu nokkuð frjálsar hendur við hönnunina en stærsta áskorunin var að fara ekki yfir kostnaðaráætlun. Þar reyndi á skapandi hugsun hjá arkitektunum en líka hjá eigendum. 

„Að kostnaðaráætl­un und­an­skil­inni voru ýmis krefj­andi atriði við verk­efnið. Býlið er í um það bil þriggja tíma akstursfjar­lægð frá Reykja­vík og fram­kvæmd­ir hóf­ust um haustið. Á þessu svæði geta verið mik­il veður sem geta tafið fram­kvæmd­ir. Til dæmis þurft­um við að plana eft­ir veðri hvenær væri hægt að saga steypu, því þá má ekki vera frost. Bygg­ing­ar­tími var frá októ­ber og fram í apríl með hlé­um. Einnig erum við vön að vera mikið til staðar á bygg­ing­ar­tíma, og þarna var það ekki alltaf auðvelt. Það gat verið ófært og tíma­frekt að koma sér til og frá bygg­ing­arstað. Dótt­ir mín var einnig um níu mánaða þegar bygg­ing hófst þannig að það var mikið sem þurfti að hugsa um á þess­um tíma.“

Gamlar byggingarhefðir voru í hávegum hafðar.
Gamlar byggingarhefðir voru í hávegum hafðar. Ljósmynd/Giovanni De Roia
Ljósmynd/Giovanni De Roia

Hvað er það sem heill­ar við að gefa göml­um hús­um nýj­an til­gang?

„Að okk­ar mati er það eitt af mik­il­væg­ustu verk­efn­um arki­tekta í dag. Ef það eru ekki göm­ul hús sem maður er að vinna með þá er það um­hverfi sem á sína sögu og það er alltaf langskemmti­leg­ast að vinna við eitthvað ögr­andi. Það skipt­ir okk­ur eig­in­lega ekki máli hvort um er að ræða gamla bygg­ingu, bygg­ing­ar­hluta eða borg­ar­hverfi. Alls staðar er um­hverfi sem við þurf­um að taka til­lit til og breyta til hins betra.“

Ljósmynd/Giovanni De Roia
Hér má sjá býlið sem Studio Bua hefur nú sett …
Hér má sjá býlið sem Studio Bua hefur nú sett mark sitt á. Ljósmynd/Giovanni De Roia
mbl.is