Skipti um gír á tímamótum í lífinu

Elín Sigrún Jónsdóttir lögfræðingur.
Elín Sigrún Jónsdóttir lögfræðingur. mbl.is/Arnþór Birkisson

Elín Sigrún Jónsdóttir lögfræðingur stóð á tímamótum í fyrra og ákvað að velja heilsuna í stað þess að vinna í óheilsusamlegu húsnæði. Þá stofnaði hún fyrirtækið BÚUM VEL sem hjálpar fólki vegna búsetuskipta. Hún segir að fólk sé oft óöruggt þegar það er að höndla með aleigu sína eins og fasteignakaup eru. 

BÚUM VEL er ný þjónusta á íslenskum fasteignamarkaði, ekki fasteignasala, heldur er það sérhæfð lögmanns- og fjármálaþjónusta, með sérstakri áherslu á fólk sem er komið yfir miðjan aldur. Elín segir að fyrirtækið hafi orðið til í fyrra þegar hún stóð á tímamótum.

„Ég stóð á tímamótum á síðasta ári, ég valdi heilsuna í stað þess að vinna í óheilsusamlegu húsnæði. Tímamótin nýtti ég til að velta vöngum yfir því við hvað mig langaði helst að starfa. Ég spurði mig opinna spurninga á borð við: Hvað kann ég best? Hver er reynsla mín og ástríða? Svarið kom til mín. Það var einkum reynsla af þjónustu við tvenn hjón á síðasta ári sem mér þótti gefandi. Þar fann ég vel hve vel öll starfsreynsla mín, menntun og hæfileikar nutu sín.

Önnur hjónin voru að selja einbýlishús þar sem þau höfðu búið í 30 ár og voru að kaupa sér íbúð í nýbyggingu. Eldri hjónin voru að selja sérhæð og kaupa sig inn í íbúð á hjúkrunarheimili. Ég fann í báðum þessum tilvikum að þörf var fyrir þjónustu af þessu tagi. Þau eru nú á draumastað miðað við aðstæður eins og þær eru í dag. Þau treystu mér og vildu að ég aðstoðaði þau og þau hafa tjáð mér hve mikilvæg þjónusta mín var þeim. Þarna gerði ég mér grein fyrir því að með reynslu mína og þekkingu að leiðarljósi gæti ég komið til móts við þarfir fólks við búsetuskipti.

Það má segja að brennandi áhugi minn á húsnæðismálum og velferð fólks sé kveikjan. Ég íhugaði á menntaskólaárunum að fara í innanhússhönnun en lögfræðin varð ofan á. Það hefur jafnframt alltaf verið áhugamál mitt að fólki líði vel í húsnæði sínu, hafi fallegt í kringum sig og heiti fyrirtækisins tekur mið af því. Í því felst áskorun um að við búum eins vel og aðstæður okkar leyfa okkur hverju sinni,“ segir Elín.

mbl.is/Arnþór Birkisson

Hún starfaði hjá Eignamiðlun eftir útskrift úr háskólanum og fór síðan að vinna við lögmennsku. Hún var fyrsti forstöðumaður Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna sem nú er Umboðsmaður skuldara.

„Þá starfaði ég fyrir dómstólana í ein tíu ár og loks í útfararþjónustu, þar sem ég m.a. rak lögfræðiþjónustu. Reynslan frá Eignamiðlun hefur alltaf verið mér mikilvæg og ég hef alla tíð fylgst vel með fasteignamarkaðinum og viðskiptavinir, vinir og fjölskylda hafa jafnan leitað til mín með aðstoð við að selja húsnæði, leita að nýju hentugu húsnæði, gerð kauptilboða, yfirlestur kaupsamninga og annarra löggerninga á sviði erfðaréttar,“ segir Elín.

Er algengt að fólk sé alveg týnt þegar það stendur í fasteignakaupum og viti ekki í hvorn fótinn það á að stíga?

„Mér finnst óöryggið einkenna fólk í þessum sporum og það er eðlilegt, við erum að höndla með lífsstarfið í flestum tilvikum og því mikið í húfi. Mínir viðskiptavinir þiggja stuðning við þetta verkefni, þróunin hefur orðið sú að ég er ekki bara að þjóna elsta aldurshópnum á markaðinum, heldur einnig yngsta aldurshópnum, sem ég hef mjög gaman af að þjóna, og jafnframt er ég að þjóna Íslendingum sem búa erlendis við að finna heppilegt húsnæði hér heima.

Það má segja að ég sé oft talsmaður eða umboðsmaður viðskiptavina minna gagnvart mögulegum kaupendum, seljendum, úttektaraðilum og fasteignasölum. Það þýðir að ég er við hlið þeirra alla leið í söluferlinu. Ég sé oftast um samskiptin og legg mig fram um að fólkið skrifi undir sölusamning og kaupsamning í öryggi og gleði,“ segir Elín.

Nú sérhæfir þú þig í gerð samninga eins og fjárskipta, kaupmála og erfðaskráa svo eitthvað sé nefnt. Finnst þér fólk vera meðvitaðra nú en áður að gæta hagsmuna sinna?

„Já, það er a.m.k. fólkið sem leitar til mín. Ég hef mikið verið að þjóna hjónum sem eiga það sameiginlegt að hafa gert erfðaskrá og jafnvel kaupmála fyrir hjúskap og er nú á tímamótum, börnin flutt að heiman, komið að því að finna húsnæði sem hentar betur og þá fer fram samtal um hvernig þau vilja hafa hlutina til framtíðar. Mjög algengt er að hjón sem eiga ekki sameiginlega öll börnin vilja tryggja rétt eftirlifandi til setu í óskiptu búi. Þá eru mörg hjón sem vilja tryggja að arfur barnanna verði þeirra séreign í hjúskap þeirra. En ég hef áhyggjur af því að fólk í óvígðri sambúð þekki ekki réttarstöðu sína í öllum tilvikum. Það vita ekki allir að maki í óvígðri sambúð nýtur hvorki erfðaréttar né réttar til setu í óskiptu búi. Ég hvet sambúðarfólk til að skoða möguleika sína, ef vilji er til að gera breytingar þar á.

Þá veiti ég jafnframt aðstoð við að ganga frá uppgjöri dánarbúa, þar nýtist vel reynsla mín af þjónustu við syrgjendur og af rekstri lögfræðideildar útfararstofu,“ segir hún.

Hvað drífur þig áfram í starfinu?

„Ég hef svo sannarlega ástríðu fyrir verkefnum mínum. Ég nýt þess að eiga samskipti við fólk. Þá finnst mér þjónustu- og fræðsluþátturinn í starfinu líka svo gefandi. Fólkið sem hefur leitað til mín er einstakur hópur fólks sem er ekki sama um fjármál sín og búsetu. Þetta er fólk sem gerir kröfur um gæði og fagmennsku.“

Hvernig verkefni finnst þér mest spennandi?

„Ég nýt þessa nýja starfs ríkulega og er svo sannarlega í skemmtilegasta starfi sem ég hef nokkurn tíma verið í. Verkefnin eru öll svo spennandi, enda er fyrirtækið sérsaumað í kringum reynslu mína, menntun og ástríðu. Markmið BÚUM VEL er m.a. að gera ferlið við búsetuskipti að ánægjulegri upplifun sem viðskiptavinir geta treyst frá upphafi til enda. Mér finnst dýrmætt að sjá viðskiptavini mína búa vel. Það er markmið mitt að ég veiti fólki öryggi til að taka skrefið. Ég hef svo gaman af að finna rétta staðinn og stílinn fyrir fólkið sem ég þjóna. Nú eru þau farin að bjóða mér í heimsókn til að þakka og sýna mér hve vel þau búa. Það gleður mig innilega. Þau segja svo oft: „Ég vildi að ég hefði gert þetta fyrir tíu árum“.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál