Flutt í sveitina og selur húsið í Malibu

Pamela Anderson er flutt í sveitina í Kanada.
Pamela Anderson er flutt í sveitina í Kanada. AFP

Fyrirsætan Pamela Anderson hefur sett hús sitt í Malibu í Bandaríkjunum á sölu. Anderson er flutt í sveitina á Vancouver-eyju í Kanada með eiginmanni sínum Dan Hayhurst.

Anderson og Hayhurst giftu sig í leyni á aðfangadag og tilkynnti Anderson ekki ráðahaginn fyrr en um miðjan janúar. 

Ásett verð fyrir eign Anderson er 14,9 milljónir bandaríkjadala eða um 1,9 milljarðar króna. Húsið hannaði Philip Vertoch og í því eru fjögur svefnherbergi og fjögur og hálft baðherbergi. Húsið er 510 fermetrar að stærð og hefur aðgengi að ströndinni. 

Anderson og Hayhurst búa á búgarði sem amma hennar og afi áttu og bjuggu allt sitt líf. „Ég er að byggja upp líf mitt hér aftur, þar sem þetta allt byrjaði. Þetta hefur verið klikkuð vegferð og ég er komin allan hringinn núna. Ég fór frá smábænum mínum rétt eftir tvítugt til að fara að vinna hjá Playboy, ferðaðist um allan heiminn, bara til að koma heim á einn fallegasta stað í heiminum. Ég komst heil á húfi heim, það er kraftaverk. Ég er heppin stelpa,“ sagði Anderson í viðtali við People. 

Anderson keypti búgarðinn fyrir 30 árum en hún og nýi eiginmaðurinn vinna nú að því að gera hann upp. 

Myndir af heimili Anderson í Malibu má skoða á vef People.

Pamela Anderson og Dan Hayhurst
Pamela Anderson og Dan Hayhurst mbl.is/Galatta
mbl.is