Íslenskur milljarðamæringur fjárfestir við heimili sitt

Haraldur Ingi Þorleifsson seldi fyrirtæki sitt til Twitter.
Haraldur Ingi Þorleifsson seldi fyrirtæki sitt til Twitter. Samsett mynd

Félagið Unnarstígur ehf., sem er í eigu Haraldar Inga Þorleifssonar, hefur fest kaup á jarðhæðinni við Tryggvagötu 11 í miðbæ Reykjavíkur. Um er að ræða atvinnuhúsnæði en Haraldur greindi frá kaupunum á Twitter og sagðist ætla að opna þar kaffihús og lítið kvikmyndahús. Áður var rekinn mjög vinsæll veitingastaður í húsinu og þegar best lét var varla hægt að fá borð á staðnum nema panta með fyrirvara. 

Jarðhæðin telur 387 fermetra og er fasteignamat hæðarinnar 159.000.000 krónur. Haraldur segir í færslunni að húsið hafi lengi verið eitt af hans uppáhaldshúsum í Reykjavík og ef allt gangi eftir muni hann ná að opna kaffihúsið í haust. 

Haraldur flutti nýverið til landsins eftir að hafa búið erlendis lengi. Hann stofnaði fyrirtækið Ueno árið 2014 en í lok árs 2020 seldi hann fyrirtækið til Twitter. Ekki hefur verið gefið upp fyrir hversu háa fjárhæð Haraldur seldi Ueno en talið er að um milljarða króna sölu sé að ræða. Haraldur starfar nú fyrir Twitter og er með starfsstöð í Reykjavík að því er fram kemur á twittersíðu hans.

Kaupin á Tryggvagötu 11 eru ekki einu húsnæðiskaup Haraldar á árinu en í janúar keypti Unnarstígur ehf. penthouse-íbúð við Tryggvagötu 18a.

Veitingastaður er á jarðhæðinni við Tryggvagötu 11.
Veitingastaður er á jarðhæðinni við Tryggvagötu 11. Ljósmynd/EG Fasteignamiðlun
Þar er einnig lítill bíósalur.
Þar er einnig lítill bíósalur. Ljósmynd/EG Fasteignamiðlun
mbl.is