Hjálpa listamönnum að láta draumana rætast

Steingrímur M. Steingrímsson og Dagur Snær Elísson eru æskuvinir frá …
Steingrímur M. Steingrímsson og Dagur Snær Elísson eru æskuvinir frá Selfossi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Æskuvinirnir Steingrímur M. Steingrímsson og Dagur Snær Elísson stofnuðu nýverið vefinn Mín hönnun. Vefurinn er vettvangur fyrir listamenn til að koma hönnun sinni á framfæri og selja.

„Við höfum orðið varir við listamenn á instagram og annars staðar vera að gera alveg hreint frábæra hluti en vorum sammála um að það getur verið nokkuð erfitt að byggja upp markhóp á einum miðli með takmarkaðan fylgjendahóp. Mín hönnun er því allsherjar vettvangur fyrir fólk sem er að hanna eða skapa list að selja sínar vörur og fyrir listunnendur að nálgast hönnun og list á einum og sama staðnum. Ásamt því að vera söluvettvangur fyrir hönnuðina og listamenn. Þarna er fjöldi listamanna og hönnuða kominn saman á einum vettvangi og þannig skapast umferð inn á síðuna sem skilar sér í því að mun auðveldara er að ná til stærri hóps,“ segir strákarnir í viðtali við Smartland.

Ýmsar síður eru til á netinu fyrir listamenn til að miðla list sinni og selja en Steingrímur og Dagur sáu að það vantaði vettvang þar sem öll flóran væri samankomin á einn stað. Það eru því allir velkomnir á Mína hönnun, hvort sem þeir selja skartgripi, listaverk eða tónlist. 

Listamarkaður Mín hönnun
Listamarkaður Mín hönnun skjáskot/Mín hönnun

Netverslanir eru orðnar töluvert betri í heimsfaraldrinum en þær voru fyrir hann. Fólk verslar í meira mæli á netinu, bæði þjónustu og vörur. „Einnig hefur verið erfiðara að sækja listsýningar og þess háttar og töldum við því þetta vera frábært tækifæri til að koma þessum vettvangi á stafrænt form,“ segir Dagur. 

Þótt vefurinn hafi bara farið í loftið í janúar síðastliðnum hefur þeim Degi og Steingrími gengið vel að fá listamenn til liðs við sig. Nú þegar eru tæplega 15 á skrá hjá þeim og taka þeir öllum opnum örmum. 

„Framhaldið núna er að halda áfram að bjóða listamenn og hönnuði velkomna á skrá hjá okkur og stækka vöruúrvalið og vettvanginn. Skemmtilegt væri síðan í framtíðinni að opna vöruhús og mögulega verslun þar sem við getum afgreitt vörurnar fyrir þá sem eru á skrá hjá okkur frá a til ö svo listamaðurinn geti einbeitt sér að því sem honum þykir skemmtilegast að gera. Einnig höfum við skoðað það að setja upp erlenda síðu með vöruúrvalinu okkar og auglýsa íslenska list erlendis,“ segir Steingrímur.

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál