Hönnuður Diönu prinsessu með línu í IKEA

Breski fata-og textílhönnuðurinn Zandra Rhodes á heiðurinn af nýjustu línu IKEA sem lendir í Kauptúni á morgun. Rhodes á að baki langan feril sem farsæll hönnuður en hún hannaði meðal annars fatnað á Díönu prinsessu, Donnu Summer og Freddy Mercury svo einhverjir séu nefndir. Stíll hennar og hugmyndir um klæðnað og efni eru einstök. Hún hefur alltaf lagt áherslu á að taka lífið ekki of alvarlega eins og sést á verkum hennar. Hún segir að verk sín séu alltaf heiðarleg og í takt við hennar sýn á tilveruna. Hún sækir innblástur í ferðalög sín um heiminn en hún hefur lifað ævintýralegu lífi. 

Það ætlaði allt um koll að keyra í Almhult í Svíþjóð fyrir um tveimur árum þegar lína Rhodes var kynnt fyrir blaðamönnum. Hún stal senunni með sitt bleika hár, bláa augnskugga og sín skrautlegu föt. Óhætt er að segja að línan sé töluvert frábrugðin því sem IKEA hefur upp á að bjóða að staðaldri. 

Litrík efni, glansandi áferð, brass og skemmtilegheit einkenna línuna. Munstrin í efnunum eru lifandi og skemmtileg. 

Ef þig langar til þess að bæta gleði inn í líf þitt, meiri litum og örlítið meira fjöri þá ætti þessi lína að vera eitthvað fyrir þig. 

mbl.is