Tinna í Hrími á tímamótum

Tinna Brá Baldvinsdóttir eigandi Hrím.
Tinna Brá Baldvinsdóttir eigandi Hrím. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tinna Brá Baldvinsdóttir, eigandi Hríms, stendur í ströngu þessa dagana en hún er að undirbúa opnun nýrrar verslunar sinnar í Leifsstöð. Hún segir að þetta hafi eiginlega gerst óvart. 

„„Bróðir minn sendi mér skilaboð með auglýsingu, þar sem óskað var eftir umsóknum um að opna verslun í Leifsstöð og spurði hvort ég ætlaði ekki að sækja um. Ég er búin að vera svo róleg í Covid. Ég lokaði versluninni á Laugavegi og það var ekki beint á dagskrá að stækka. En svo er bara svo gaman að allt er að lifna við aftur. Ég ferðast mikið og finnst mikilvægt að hafa spennandi veitingastaði og verslanir í fríhöfnum, svo ég er virkilega spennt að opna litríka Hrím í Leifsstöð í júní,“ segir Tinna. Hún er jafnframt að undirbúa stækkun verslunarinnar í Kringlunni. 

Hafði veiran einhver áhrif á rekstur Hríms? 

„Covid hafði engin áhrif á okkur nema bara jákvæð. Verslunin jókst og netverslunin blómstraði en því miður urðum við að loka á Laugavegi. Það var virkilega erfið ákvörðun að loka þar. Hjarta Hríms er í miðbænum og stefni ég á að opna þar aftur þegar ég finn rétta húsnæðið. Vinsælustu merkin okkar þurfa meira pláss, svo það verður gaman að stækka og bæta við verslunina í Kringlunni. Þessa dagana er svo vinsælt hjá okkur að kaupa góða tösku, fallega vasa og skart.“

Tinna er nýkomin heim frá París þar sem hún drakk í sig það helsta í hönnunarheiminum. 

„Það sem kom mér mest á óvart var að neon-litirnir eru mættir aftur. Það eru bara tíu ár síðan þeir voru síðast í tísku. Bæði í klæðnaði og hlutum, svo við erum komin með geggjað flott kertamerki í Hrím sem framleiðir flott neon-kerti. Aðaltískan núna er að kaupa flott kerti og lífga þannig upp á gamla kertastjaka. Svo eru snúin kerti og marmarakerti vinsæl líka,“ segir hún. 

mbl.is