Einn litríkasti bakgarður Akureyrar

mbl.is/Snæfríður Ingadóttir

Katrín Árnadóttir og fjölskylda eiga líklega einn litríkasta bakgarð Akureyrar og þótt víðar væri leitað. Líflegt vegglistaverk með tilvísun í Berlín lífgar upp á bakgarðinn en verkið er sannkölluð veisla fyrir augað. 

„Í verkinu eru alls konar litlar sögur af fólki og dýrum sem við þreytumst seint á að skoða. Listaverkið er í senn litríkt og töff en jafnframt barnalegt og með „dirty twisti“. Svo er líka mikil Berlínartenging í verkinu en í því er að finna bæði Trabant og sjónvarpsturninn fræga í Berlín, sem er hæsta bygging Þýskalands,“ segir Katrín Árnadóttir um listaverkið sem listamaðurinn Egill Jónasson málaði í bakgarðinn hjá þeim síðasta sumar. Verkið er málað á bílskúrinn en tvær hliðar hans snúa út í bakgarðinn. Þar er afgirtur skjólgóður pallur með útisturtu, heitum og köldum potti og góðu plássi bæði fyrir grill, matarborð og útisófa.

mbl.is/Snæfríður Ingadóttir
mbl.is/Snæfríður Ingadóttir

Alltaf graff á útidyrahurðinni

„Ég hafði séð málverk eftir Egil á listasýningu síðasta sumar og fannst stílinn hans skemmtilegur. Hann er hins vegar ekki graffari og hafði ekki gert vegglistaverk áður svo þetta var ekki síður spennandi verkefni fyrir hann en okkur. Listamaðurinn fékk alveg frjálsar hendur með þetta verkefni. Það eina sem við óskuðum eftir var að það væri einhver Berlínartenging í verkinu en að öðru leyti réð hann þessu alveg,“ segir Katrín en auk hennar samanstendur fjölskyldan af heimilsföðurnum Antoni Rúnarssyni og dætrunum Ídu og Elínu. Fjölskyldan hefur sterkar taugar til Berlínar því þau bjuggu þar í 10 ár en fluttu til baka til Akureyrar árið 2016.

„Berlín er uppfull af portum og graffítiverkum. Við bjuggum í austurhluta borgarinnar og þar er allt svolítið gróft og skítugt. Það var til dæmis alltaf verið að graffa á útidyrahurðina hjá okkur. Ég saknaði þessarar stemmningar þegar við fluttum aftur til Íslands. Hér er allt miklu meira sterílt og pottþétt. Þessi hugmynd kviknaði fljótt eftir að við keyptum húsið, því þetta svæði á milli bílskúrsins og hússins minnti á port í Berlín og ég fann að bílskúrinn varð að vera eitthvað meira en hvítur, það varð að vera meira fjör í honum. Okkur fannst því kjörið að lífga upp á hann með þessum hætti og taka þannig hluta af Berlín með okkur heim.“ Katrín segist ekki hafa verið vitund hrædd við að hleypa listamanninum lausum á bílskúrinn og bætir við að ef útkoman hefði ekki orðið þeim að skapi þá hefði verkið samt líklega fengið að standa, enda lífið alls konar og alls ekki alltaf fullkomið.

mbl.is/Snæfríður Ingadóttir
mbl.is/Snæfríður Ingadóttir

Allsherjaryfirhalning á bakgarðinum

Spurð um viðbrögð fólks við listaverkinu segir Katrín að þau hafi eingöngu verið jákvæð. Flestum finnst verkið töff þótt fólk kjósi ekki sjálft að hafa bakgarðinn hjá sér skreyttan með svona afgerandi hætti.

„Okkur finnst mjög gaman að horfa á vegginn þegar við sitjum í pottinum, það er alltaf hægt að sjá nýjar sögur í verkinu. Þá er yngsta dóttirin sérlega hrifin af kettinum og heilsar honum þegar hún gengur fram hjá,“ segir Katrín og bendir á kött á veggnum með rautt auga og rófuna upp í loftið. Krókódíll, fiskar, fíll og aðrar furðuverur eru einnig á veggnum en allt rennur þetta saman í eina heild sem skapar skemmtilegt mótvægi við klassískt gagnvarið pallaefnið og grá látlaus útihúsgögn. Áður en Egill málaði verkið á bílskúrinn síðasta sumar fékk bakgarðurinn algjöra yfirhalningu. Faðir Katrínar, Árni V. Friðriksson, og félagi hans Gunnar Austfjörð tóku það verkefni að sér að byggja þar pall sem er engin smásmíði, alls 64 fm. Leystu þeir verkið það vel af hendi að húsráðendur komu fyrir áletruðum platta á skjólvegginn þeim til heiðurs þar sem þeim er þakkað fyrir vel unnin verk.

„Pabbi er kominn á eftirlaun og veit fátt skemmtilegra en að brasa og þeir félagar kláruðu verkið um mitt sumar svo við vorum bara hér í pottinum meira og minna restina af sumrinu í bongóblíðu. Pabbi er fyrrverandi framkvæmdastjóri verkfræðistofunnar Raftákns og það er því vel hugsað út í alla lýsingu og rafmagn hér á pallinum. Þessi góða aðstaða stækkar húsið gríðarlega og gerir það að verkum að það er ekkert mál að halda hér mannmargar veislur. Fyrir jólin settum við t.d. upp tjald á pallinum og ljósaseríur og slógum upp þýsku jólapartíi með glögg og pylsum. Það var mjög gaman.“

Egill Jónasson málaði verkið í garðinum hjá Katrínu og fjölskyldu.
Egill Jónasson málaði verkið í garðinum hjá Katrínu og fjölskyldu. mbl.is/Snæfríður Ingadóttir
mbl.is/Snæfríður Ingadóttir

Útsýni og frelsi verðmætt

Katrín viðurkennir að það sé sannarlega mikill munur á Berlín og Akureyri en það verður ekki bæði sleppt og haldið. Þar nefnir hún helst útsýnið og frelsið sem börnin hafa á Íslandi, tveir hlutir sem Íslendingar ná oft ekki að meta til fulls nema eftir búsetu erlendis. Heimilið er við Löngumýri og hún segist kunna afar vel við sig á Brekkunni.

„Þetta er æðislegt hverfi, mjög gróið og með skemmtilegum stígum. Það er mikil hverfastemmning hérna. Svo er líka stórkostlegt útsýni yfir bæinn af klöppunum hér fyrir framan. Þá erum við göngufæri við miðbæinn, bókasafnið, matvörubúð og sundlaugina. Við vildum hafa þetta allt á fæti, það eru líka áhrif frá Berlín.“

mbl.is/Snæfríður Ingadóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál