„Ef þú vilt fallegan garð verður þú að hafa fyrir honum“

Vilmundur Hansen.
Vilmundur Hansen.

Vilmundur Hansen blaðamaður á Bændablaðinu er bæði garðyrkjufræðingur og grasafræðingur að mennt. Hann er einnig ráðgjafi og stofnandi facebooksíðunnar Ræktaðu garðinn þinn – Garðyrkjuráðgjöf, þar sem 45 þúsund landsmanna fylgjast spennt með öllu því sem tengist garðinum. Hann stofnaði hóp á Facebook í aðdraganda bankahrunsins sem telur nú 45 þúsund manns sem skiptast á skoðunum um bestu leiðirnar til að gera garðinn frábæran. 

Að tala um garða við Vilmund er áhugavert og skemmtilegt. Hann er bæði með puttann á púlsinum hvað viðkemur því nýjasta í görðum okkar og svo segir hann eitthvað svo skemmtilega frá.

„Garðar landsmanna taka breytingum með tískusveiflum tíðarandans. Nú vilja flestir vera með viðhaldsfría garða en það er einfaldlega ekki hægt. Það fylgir því ákveðin vinna að eiga garð. Nú er einnig vinsælt að vera með nytjaplöntur í garðinum og svolítið blómstrandi tré. Kirsuberjatré eru vinsælustu trén í dag en þegar ég tala um nytjaplöntur þá á ég við matjurtir á borð við jarðarber, vínber, krydd, kál og salat svo eitthvað sé nefnt.“

Ótrúlegt hvað fólk er viljugt

Hver eru tildrög þess að þú stofnaðir Ræktaðu garðinn á Facebook?

„Það eru 13 ár frá stofnun hópsins en hann var stofnaður í aðdraganda hrunsins. Það sem gerðist var að ég var að vinna sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu sem fór síðan á hausinn í þeirri mynd sem það var þá. Ég hafði unnið sem blaðamaður víðar og fór að dunda mér við að safna saman greinum mínum sem ég hafði skrifað í mörg ár. Þá datt mér í hug að stofna þennan hóp á Facebook og að setja greinarnar inn þar og á sama tíma bjóða upp á ráðgjöf tengda garðinum,“ segir Vilmundur og heldur áfram að útskýra hvernig hugmyndin vatt upp á sig.

„Ég man hvað ég var hissa þegar komnir voru 100 meðlimir í hópinn, 1.000 meðlimir og svo koll af kolli.“

Aðspurður uverjir séu þarna inni á Facebook segir hann það vera bæði áhugafólk um garðrækt en einnig fagfólk

„Fagfólkið kemur að því að svara ótrúlegum fjölda spurninga frá almenningi. Mér finnst eiginlega ótrúlegt hvað fólk er viljugt að svara hvert öðru og hvað fólk er ófeimið við að spyrja.“

„Þá verð ég frekar harður“

Var ekki smávegis áskorun að sleppa tökunum og leyfa fleiri sérfræðingum að koma að því að svara almenningi þarna inni? „Nei, mér þótti það ekkert skrítið. Ég hef aldrei litið á síðuna þannig og bara fundist fínt ef fleiri eru að svara þarna inni en bara ég. Ég verð í raun alltaf glaður þegar fleiri koma skoðunum sínum þarna inn.

Það er frekar önnur saga að segja frá því þegar fólk ætlar að nýta hópinn til að auglýsa vörur og þjónustu. Þá verð ég frekar harður og hendi þeim út. Ástæðan fyrir því er sú að þetta er ekki auglýsingavefur heldur fræðsluvefur. Ég hef þá fengið spurninguna af hverju ég sé þá að auglýsa mína eigin ráðgjöf, en það er önnur saga. Ég segi við þann hóp að bíta bara í sig og spái nú ekki meira í það.“

Mikilvægt að leita fyrst og spyrja svo

Hver er skrítnasta spurning sem þú hefur fengið inni í hópnum?

„Ég man það nú ekki alveg en stundum eru sömu spurningarnar að koma upp aftur og aftur og það getur verið leiðigjarnt að endurtaka svörin. Þá reyni ég að beina því til fólks að hópurinn er einn stór upplýsingabanki og hægt er að fara í stækkunarglerið í horninu, slá inn leitarorð og finna hvort umræða hafi átt sér stað um málefnið áður.“

Þar sem Vilmundur er grasafræðingur er forvitnilegt að vita hvernig hægt er að ná grasinu í kringum húsið frábæru.

„Það er talsvert erfitt og töluverð vinna. Bara það að rækta smá blett fyrir framan garðinn sinn er meira en rétt að segja það. Svo er gras ekki bara gras. Það eru til fjölmargar tegundir af grasi og ef þú vilt hafa fallegan blett við húsið, þá þarftu að hugsa verulega vel um hann, slá hann reglulega, setja kalk og áburð á grasið og hugsa almennt mjög vel um það. Þannig að ef þú vilt hafa fallegan garð þá verðurðu að hafa fyrir honum,“ svarar Vilmundur um leið og alvaran skín úr andliti hans.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál