Sjáðu 3.700 fm skrifstofu Kim Kardashian

Samsett mynd

Minimalík og hlutlausir tónar eru allsráðandi þegar kemur að hönnunarvali athafnakonunnar Kim Kardashian, en á dögunum birti hún myndskeið á Youtube-rás sinni þar sem hún leiddi áhorfendur í gegnum stórglæsilegt 3.700 fm skrifstofurými sitt.

Rýmið var hannað af þeim Tommy Clements og Waldo Fernandez í samvinnu við Michèle Lamy sem sá um húsgögn rýmisins. Kim er bæði með húðvörulínu sína, SKNN by Kim og undirfatalínuna Skims á skrifstofunni. 

Náttúrulegir steinar, steypa og ljós viður eru áberandi í hönnun rýmisins sem er á tveimur hæðum. Á neðri hæðinni má sjá stórt alrými með opnu eldhúsi og fallegum húsgögnum, en það er óhætt að segja að glæsilegt borð og stólar eftir hönnuðinn Donald Judd setji mikinn svip á rýmið. 

Kim er þekkt fyrir að fara sínar eigin leiðir, en í myndbandinu segist Kim hafa hvíttað hina vinsælu Jeanneret stóla sem prýða fundarherbergi hennar til að fá fallega ljósa viðaráferð. „Það er guðlast að ég hafi gert það ef þú veist eitthvað um húsgögn,“ útskýrir Kim, en hún er þó afar ánægð með útkomuna. 

mbl.is