Björn selur gula sófann úr „How I Met Your Mother“

Björn Helgi Baldvinsson bjó í Los Angeles í Bandaríkjunum í 26 ár en er nú fluttur til Íslands. Þótt hann sé fluttur heim er hann með annan fótinn ytra þar sem hann starfar í kvikmyndabransanum. Það var einmitt vegna vinnunnar sem hann gat keypt gula sófann úr þáttunum How I Met Your Mother.

Nú hefur Björn ekki lengur pláss fyrir sófann og því er hann kominn á sölu á bland. Björn segir í samtali við Smartland að guli sófinn hans sé sami og var í þáttunum vinsælu.

„Þetta er sá sami sófi. Ég vann ekki á því „showi“ en fékk hann samt ásamt sérsmíðuðu borðstofuborði sem notað var í þáttunum. Ég elska þennan sófa en ég er að flytja í minni íbúð og hef ekki pláss fyrir hann lengur,“ segir Björn aðspurður að því hvers vegna hann sé að selja sófann. Björn segir að sófinn sé sérlega þægilegur. 

Það er hefð fyrir því í Hollywood að þegar búin eru til ný sett þá fer dótið úr gamla settinu á uppboð. Þessi sófi er því bæði heimsfrægur og víðförull því hann ferðaðist alla leið til Íslands og endaði í Garðabænum. 

Nú er bara spurning hvar næsti viðkomustaður gula sófans verður en áhugasamir geta keypt hann HÉR. 

mbl.is