Hvernig stjörnumerkin skreyta fyrir jólin

Það er misjafnt eftir stjörnumerkjum hvernig fólk skreytir heimili sín.
Það er misjafnt eftir stjörnumerkjum hvernig fólk skreytir heimili sín. Unsplash.com/Kevin Turcios

Breskur miðill og stjörnufræðingur, Inbaal Honigman, hefur rannsakað það hvernig stjörnumerkin skreyta fyrir jólin. Tvíburar vilja til dæmis skraut sem glansar og vekur gleði en meyjur kjósa einfaldleikann og vilja að það sé auðvelt að þrífa í kringum jólatréð.

Hrútur

Þeir sem eru í merki hrútsins kunna að meta það að allt gangi hratt og vel fyrir sig. Þeir vilja hafa lítið umstang hvað jólatréð varðar. Það á helst að koma upp úr kassa með áföstu skrauti. Rauði liturinn heillar mjög hrútana þegar jólaskraut er annars vegar. 

Naut

Nautin eru íhaldssöm og tilfinninganæm. Þau elska að draga fram allt gamla jólaskrautið frá barnæsku sinni þannig að heimilið verður alltaf svolítið gamaldags í kringum jólin. Hinir hefðbundnu jólalitir, rauður og grænn, ráða ríkjum.

Tvíburar

Tvíburar elska góð partí þannig að hvert herbergi heimilisins á að vera glitrandi á jólunum. Mikið af jólaseríum í öllum litum og gerðum prýða heimilið. Þá eru tvíburar duglegir að bjóða heim til sín og vilja hafa stórt hlaðborð af jólamat af öllu tagi. Litirnir þeirra eru blár og rauður.

Krabbi

Krabbar elska að vera í kringum fjölskyldu sína á jólunum. Jólaskrautið þeirra er því nokkuð praktískt, óbrjótanlegt og auðvelt í þrifum. Jólatréð þarf að vera stórt svo það rúmi allar gjafirnar handa fjölskyldunni. Því huggulegra því betra. Fólk á að safnast saman og njóta hátíðanna. Þeir elska að spila með vinum og fjölskyldu og hafa uppi myndir af fjölskyldunni frá jólum liðinna ára.

Ljón

Ljónið elskar að koma vel fyrir og er umhugað um álit nágrannanna. Þeir sem eru í ljónsmerkinu fara alla leið í skreytingum og þá sérstaklega utandyra og í gluggum. Litir þeirra eru grænn og gull. Þetta á allt að vera með smá lúxusívafi og ekki verra ef það sést utan frá.

Meyja

Meyjan er hagnýt og snyrtileg. Hún elskar að hafa hreint heimili og mun jólaskraut meyjunnar þá vera mjög naumhyggjulegt og auðvelt í þrifum. Það þarf til dæmis að vera auðvelt að moppa undir jólatrénu. Það á að vera hátíðlegt en ekki draslaralegt. Skreytingarnar eru einna helst kerti og snyrtilegt tré sem hefur ákveðið litaþema, til dæmis grænt og gull.

Vog

Vogin er smart og fáguð. Hún fylgir alltaf straumum og stefnum og er aldrei hallærisleg. Til þess að ná að vera alltaf í tísku þarf að fylgjast vel með og það krefst mikillar vinnu. Aðaljólaskrautið er þá alltaf eitthvað hlutlaust og tímalaust og svo bæta þeir við það öðru skrauti sem er í tísku þá stundina. Hvítur og gull eru litir sem vogin dregst að. Yfirbragðið verður bæði klassískt og glæsilegt án þess að vera yfirþyrmandi.

Sporðdreki

Sporðdrekar elska að skreyta svolítið öðruvísi en flestir. Sumir hallast að svörtu jólatré, aðrir velja óvenjulegt jólaskraut. Þeir vilja skera sig úr fjöldanum. Svartur og rauður eru litir sem heilla þá í jólaskrauti.

Bogmaður

Bogmenn eru frjálsir í anda og elska að skemmta sér sama hvaða árstími er. Þeir fylgja engum reglum og vilja alla litina í búðinni. Þar sem þeir elska að ferðast er jólaskrautið oftar en ekki eitthvað sem þeir hafa keypt í útlöndum. Jólatréð er því samsafn af ólíku skrauti frá öllum heimshornum. 

Steingeit

Steingeiturnar vilja glæsileika í öllu sem þær gera. Sjarminn ræður ríkjum hjá steingeitinni á jólunum og þær vilja að heimilið sé þá billjón sinnum huggulegra en á öðrum tímum árs. Steingeitur eiga það til að velja vandað og jafnvel dýrt skraut sem þær eru afskaplega stoltar af. Gull og silfur er litaþema steingeitarinnar. Lífið á ekki að vera neitt nema lúxus á jólunum.

Vatnsberi

Vatnsberar eru afar skapandi og jólaskrautið þeirra endurspeglar það. Oftar en ekki velja vatnsberar einstakt, handgert jólaskraut. Innblástur er sóttur í náttúruna. Heimilið er huggulegt en margt í gangi. Vatnsberar kjósa helst alvörujólatré.

Fiskar

Fiskar vilja upplifa mikla gleði á jólunum. Þeir skreyta með það í huga og sjá til þess að öllum líði vel á heimilinu og séu kátir. Þeir eiga það til að velja litríkar ljósaseríur og hafa stórt tré.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál