Missti foreldra sína tvítug og flutti í eigin íbúð

Hólmfríður Pétursdóttir.
Hólmfríður Pétursdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hólmfríður Pétursdóttir, kennari, er spennt fyrir jólabasar KFUM og KFUK á Íslandi. Basarinn var haldinn á netinu í fyrra vegna kórónuveirunnar, en það náðist að hafa hann með hefðbundnu sniði á þessu ári. Það er áhugavert að leita í smiðju Hólmfríðar um sögu félagsins og þá sér í lagi basarsins á þess vegum sem hefur verið haldinn nær óslitið frá árinu 1909. 

Hugvit og vinnusemi duglegra kvenna er rauði þráðurinn í sögu basarsins, svo ekki sé minnst á trúmál og fyrirbænir sem virðast vera gott veganesti í vinnu þá og nú.

„Ágóði af basarnum fór í fyrstu í svokallaðan Sjúkrasjóð, sem styrkti heimili sem ekki gátuð aflað sér tekna vegna veikinda. Nú er ágóði basarsins notaður í starf KFUM og KFUK á Íslandi. Stjórn basarsins velur eitt verkefni árlega sem nýtur þessa fjárframlags,“ segir Hólmfríður.

Guðríður Þórðardóttir, amma Hólmfríðar, og vinkonur hennar, voru innan við tvítugt þegar KFUK var stofnað á sínum tíma. Um fimm árum seinna var svo basarinn góði settur á laggirnar.

„Það var í október árið 1908 sem Valgerður Lárusdóttir, sem dvalist hafði í Kaupmannahöfn, var fengin í forystu samtakanna. Ári seinna efndi hún til basarsins að danskri fyrirmynd. Í þá daga voru haldnir það sem kalla má saumafundi og voru þeir haldnir á þriðjudögum. Þessir fundir voru oft mjög fjölmennir og voru allt að 52 konur sem komu saman og bróderuðu og saumuðu fyrir basarinn. Saumafundirnir voru vanalega haldnir á kaffistofunni á meðan séra Friðrik var með biblíulestra í lesstofunni á sama tíma. Oft var lesið upp úr bókmenntum og drukkið kaffi á þessum fundum.“

Í upphafi var mikið bróderað

Þegar Hólmfríður var lítil stelpa þótti henni fátt eins skemmtilegt og að fá að fara með ömmu sinni á saumafund.

„Gudda amma var alla sína tíð mjög virk í félagsstarfi samtakanna. Amma og vinkonur hennar unnu á basarnum á meðan þeim entist aldur og heilsa til. Þær bróderuðu, hekluðu, prjónuðu og orkeruðu og saumuðu líka á vél. Vélarnar voru margar handsnúnar og í kassa og því hægt að taka þær með sér þegar mikið lá við. Af mynd frá árinu 1910 má sjá að pabbi minn hafi vanist því líka að fara með á saumafundi.

Ég var lítil stúlka þegar þessar upphafskonur basarsins voru komnar á sjötugsaldurinn. Á þeim tíma hittust þær alltaf einu sinni í mánuði flesta mánuði ársins á saumafundi, en auk þess gerðu þær ýmislegt saman sér til skemmtunar,“ segir hún og bætir við að handverkið á basarinn hafi breyst mikið í gegnum árin.

„Í upphafi var mikið bróderað. Amma og vinkonur hennar saumuðu út í sængurföt og dúka. Það voru gerðir kommóðudúkar, dúkar á borðstofuborð, eldhúsdúkar og dúkar á bakka og eldhúsborð. Þær saumuðu skrauthandklæði sem hengt var á hillu og merkt viskustykki og handklæði hengd undir.

Þetta var á þeim tíma sem danskir kalla „klunketid“. Svo kom að því að saumuð voru föt í kreppunni og prjónaðir sokkar og vettlingar og eflaust peysur líka.

Svo þegar sett voru á innflutningshöft var notað það sem til féll. svo sem pokar utan af hveiti og sykri svo eitthvað sé nefnt. Ég á nokkra applikeraða dúka, þar sem efnisbútar sem sniðust utan af þegar saumaðar voru svuntur eða morgunkjólar, voru notaðir í alls konar blóm sem saumuð voru á léreft og svo saumað í, svo úr urðu dúkar sem mér finnst enn mjög fallegir.

Amma og vinkonur hennar saumuðu út í gardínur og veggteppi fyrir Vindáshlíð sem var mikið kappsmál fyrir þær að kæmist á laggirnar.“

Þróunin á basarnum hefur orðið sú að nú má finna meira af kökum og jólaskrauti.

„Ég tel þá þróun vera mark um aukna velmegun og breytta lifnaðarhætti landsmanna. Bróderíið fæst nú innflutt frá láglaunalöndum og helst þarf það nú að vera straufrítt.“

Fædd á stríðsárunum þegar Íslendingar höfðu danskan kóng

Hólmfríður man tímana tvenna og segir jólin nú mjög ólík því sem hún vandist sem barn.

„Ég er fædd á stríðsárunum og þegar Íslendingar höfðu enn þá danskan kóng. Bernskujólin mín einkenndust því af þessu tvennu. Þá var vöruskortur og innflutningshöft. Ég man eftir því að föndrið fyrir jólin var að búa til kertastjaka úr þverskornum kartöflum sem við skárum holu í og klæddum síðan með álpappír. Við bjuggum líka til „marsípan“ úr stöppuðum kartöflum og flórsykri, settum möndludropa eða vanilludropa í og lituðum með matarlit. Jólakrautið voru músastigar úr kreppappír og fléttuð hjörtu úr glanspappír. Jólatréð var gamalt gervijólatré á tréfæti. Ég man ekki eftir lifandi kertum á trénu. Þegar Reykjalundur byrjaði framleiðslu úr plasti, legókubba og jólaljósaseríur, keyptum við marglitar bjöllur, mig minnir að það hafi verið myndir á þeim.

Jólaskrautið var gamalt og brothætt, fuglar með fagurt stél og marglitar kúlur. Síðan var tætt bómull á greinarnar eins og snjór. Seinna kom englahárið, sem var strekkt yfir allt saman. Við keyptum alltaf grenigreinar sem voru settar ofan á myndaramma og í stóran vasa á gólfinu. Jólagjafirnar voru venjulega eitthvað nytsamlegt en barnið fékk auðvitað líka harða pakka, liti, leir, og einstaka lítið leikfang.“

Jólamaturinn í æsku Hómfríðar var sá sami frá ári til árs.

„Mamma bakaði smákökur fyrir jólin. Á aðfangadagskvöld var allt að dönskum sið, aspassúpa, svínakótelettur með meðlæti og síðan rjómablandaður grjónagrautur með möndlu og tilheyrandi möndlugjöf.

Á jóladag var svo kalt hangikjöt með soðnum kartöflum í hvítri sósu og grænum baunum og ís á eftir. Fyrir daga ísskápanna var ekki alltaf víst að það væri hægt að búa til ís því það var gert úti í snjónum. Ég man eftir miklum tilfæringum með ísform fyrir utan gluggann á eldhúsinu í kjallaranum þar sem við bjuggum.

Jólin voru tími samveru, kyrrðar og nándar. Við fórum í heimsókn til frændfólks og sama frændfólk kom til okkar á gamlárskvöld. Á þrettándanum var stundum spilað púkk.

Með breyttum tímum breyttust svo jólin. Hefðirnar breyttust lítið en vöruúrvalið varð meira og efnahagurin vænkaðist. Það er áhugavert að minnast þessara tíma í aðdraganda jólanna,“ segir hún.

Hólmfríður var við tvítugt þegar hún missti foreldra sína og flutti í eigin íbúð.

„Eftir það var mér boðið að halda jól hjá frændfólki mínu. Jólin voru með svipuðu yfirbragði og heima. Ég lærði að matreiða rjúpur. Áður en ég fór svo heim til mín á aðfangadagskvöld fór ég í miðnæturmessu í Dómkirkjunni. Þar gat ég bæði syrgt og fundið huggun, frið og gleði.

Síðar þegar ég var gift, honum Erlendi Búasyni, og átti litlar dætur, mótaðist jólaundirbúningur að einhverju leyti af þessari lífsreynslu. Ég þreif ekki meira fyrir jól en venjulega og bakaði heldur ekki mikið. Aftur á móti fórum við mæðgur í stuttar heimsóknir til frændfólks og vina með rauða túlípana, óskuðum gleðilegra jóla og fengum eitthvað gott í munninn og héldum svo áfram. Við vorum allar með rauðar skotthúfur og skemmtum okkur vel. Það er alltaf gott að geta glatt aðra.“

Eftir að Erlendur dó fyrir fimm árum hefur Hólmfríður verið með dætrum sínum, tengdasonum og barnabörnum um hátíðirnar.

„Allt hefur sinn tíma. Mér finnst notalegt að vera hjá þeim og með tímanum er ég að læra að það er ekki síður sælt að þiggja en að gefa.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál