Skvísur landsins fögnuðu á Hótel Holti

Gróa Ásgeirsdóttir, dr. Margrét Vilborg Bjarnadóttir og Elísabet Sveinsdóttir.
Gróa Ásgeirsdóttir, dr. Margrét Vilborg Bjarnadóttir og Elísabet Sveinsdóttir.

Félag háskólakvenna valdi Háskólakonu ársins 2019 á dögunum á Hótel Holti. Fyrir valinu varð dr. Margrét Vilborg Bjarnadóttir, aðstoðarprófessor í aðgerðagreiningu og tölfræði við Robert H. Smith viðskiptaháskólann í Maryland í Bandaríkjunum og stofn­andi sprota­fyr­ir­tæk­is­ins PayAna­lyt­ics.

Margrét Vilborg lauk BS gráðu í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands 2001 og hlaut þá hæstu einkunn sem skráð hafði verið. Hún lauk doktorsgráðu frá MIT í Cambridge 2008. Rannsóknarritgerð hennar ber heitið Data-Driven Approach to Health Care – Applications Using Claims Data.

Margrét Vilborg hefur verið meðhöfundur í fjölmörgum rannsóknargreinum sem birtar hafa verið í viðurkenndum ritrýndum tímaritum. Hún hefur flutt erindi víða um heim á ráðstefnum og fundum svo tugum skiptir. Hún hefur hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir kennslu, meðal annars var hún valin besti kennarinn í MBA valgreinum árið 2018 og hlaut virt kennsluverðlaun Robert H. Smith viðskiptaháskólans árið 2018-19. Þá hefur hún verið leiðbeinandi og ráðgjafi fjölmargra háskólastúdenta.

En Margrét Vilborg hefur ekki eingöngu fengist við kennslu og fræðiskrif því hún er jafnframt stofnandi sprotafyrirtækisins PayAnalytics þar sem þróuð hefur verið hugbúnaðarlausn sem gerir stofnunum og fyrirtækjum kleift að framkvæma launagreiningar, skoða áhrif launaákvarðana og ráðast á launabil kynjanna með aðgerðaráætlun og kostnaðargreiningu. Hugbúnaðurinn gerir einnig mögulegt að halda launabilinu lokuðu með launatillögum fyrir nýráðningar og þá sem færast til í starfi. Í þessu felst heilmikil nýsköpun hjá Margréti Vilborgu en að baki lausninni er stuðst við flókin tölfræði- og stærðfræðilíkön, en lausnin sjálf setur fram gögnin á aðgengilegan og auðskiljanlegan máta. Ekki er nóg með að hugbúnaðurinn greini launamun kynjanna heldur kemur hann einnig með lausnir til úrbóta, auk þess að reikna kostnaðinn við aðgerðir til að eyða launabilinu þannig að allar launaákvarðanir geti orðið markvissari.

mbl.is