Var foreldri þitt að misnota áfengi?

Hafdís Þorsteinsdóttir ráðgjafi hjá Lausninni.
Hafdís Þorsteinsdóttir ráðgjafi hjá Lausninni.

„Þótt fjölskyldur séu mismunandi eru nokkrir algengir eiginleikar sameiginlegir hjá þeim fjölskyldum þar sem um misnotkun áfengis hefur verið að ræða. Má það meðal annars rekja til þeirrar staðreyndar að þeir sem búa við þær aðstæður búa oft við óreiðu þar sem einstaklingar eru ekki sjálfum sér samkvæmir, hlutverkin óljós og reglur handahófskenndar. Það geta líka verið átök á milli fjölskyldumeðlima í formi andlegs og/eða líkamlegs ofbeldis. Jafnvel þótt notandi áfengisins hafi ekki verið formlega greindur, geta einstaklingar oft séð hvort ofneysla var til staðar eða ekki og hve mikil áhrif það hafði á fjölskylduna. Mikilvægt er að horfa á hvort þættir eins og óstöðugleiki, sundrung og upplausn séu innan fjölskyldunnar ekki bara horfa á sjúkdómsgreininguna sjálfa. Einnig þarf að sjá og skilja hvort og hvernig einstaklingar hafa orðið fyrir áhrifum af þessum þáttum í sínu uppeldi. Ástandið verður helsta leyndarmál fjölskyldunnar bæði innan hennar og utan. Þegar foreldri eða annar fjölskyldumeðlimur misnotar áfengi eða önnur efni hefur það oft djúpstæð áhrif á alla fjölskylduna, sérstaklega börnin,“ segir Hafdís Þorsteinsdóttir, ráðgjafi hjá Lausninni. Hún er með BA-gráðu í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands og stundar meistaranám í fjölskyldumeðferðarfræðum hjá Endurmenntun HÍ. Hafdís hefur starfað sem ráðgjafi í mörg ár og býr yfir mikilli reynslu í viðtölum og hópastarfi. Á árunum 2007-2009 starfaði Hafdís sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi hjá SÁÁ.

Hún segir að börn læri ýmislegt við það að alast upp á heimili þar sem áfengi er misnotað:

Vegna viðvarandi sársauka sem er oft afleiðing þess að búa með foreldri sem er alkóhólisti/fíkill, verður barn að „loka á tilfinningar sínar“ til þess að lifa af. Eftir allt saman, til hvers að hafa eitthvað sem veldur oftast sársauka? Í fjölskyldum þar sem alkahólismi/fíkn ræður ríkjum eru tilfinningar oft sýndar á móðgandi eða sársaukafullan hátt og undir áhrifum áfengis. Þær uppákomur hafa engar jákvæðar niðurstöður og yfirleitt öllu neitað daginn eftir. Börnin hafa fá tækifæri til að sjá tilfinningar sínar á viðeigandi hátt eða nota þær til uppbyggjandi breytinga. Svo barnið hugsar: „hvers vegna finna eitthvað þegar tilfinningarnar munu bara fara úr böndunum og koma ekki til með að breyta neinu. Ég vil ekki finna meira til en ég geri nú þegar.

Ekki tjá þig

Börn alkóhólista lærðu að tala ekki um stóran hluta af sínum eigin raunveruleika, sem var drykkja foreldris. Þetta stafar af því að fjölskyldan vill neita að það sé eitthvert vandamál hjá henni og að vandamálið sé vegna drykkju. Það sem er svo augljóst má ekki tala um upphátt, oft ósögð von um að ef enginn nefnir neitt þá mun það ekki gerast aftur. Það er aldrei góður tími til að tala um hlutina, ómögulegt þegar einstaklingarnir eru undir áhrifum og þegar foreldri er edrú þá vilja allir gleyma eða ekki valda því að einstaklingurinn byrji aftur að drekka. Þarna læra börn strax í bernsku og fara að tileinka sér að tala aldrei um neitt sem er óþægilegt.

Ekki treysta

Í fjölskyldum þar sem alkóhólismi er til staðar, eru loforð oft svikin, hætt við mannamót og skap hinna fullorðnu oft óútreiknanlegt. Þess vegna læra börnin að treysta ekki á aðra og þegar kemur fram á fullorðinsár geta þau átt erfitt með að trúa því að öðrum muni þykja vænt um þau í raun og veru og eiga erfitt með að treysta því að aðrir standi við skuldbindingar sínar gagnvart þeim.

Meðvirkni þróast

Þegar fjölskyldumeðlimir takast á við ástandið á heimilinu með því að breyta hegðun sinni til samræmis við alkóhólistann/fíkilinn í fjölskyldunni sýna þeir meðvirka hegðun sem felst meðal annars í því að þeir verða nokkuð góðir í að hugsa um aðra, sjá fyrir þörfum annarra og finnast þeir vera ábyrgir fyrir alkóhólistanum. Þeir telja sér í trú um að þeir séu aðeins að reyna að hjálpa viðkomandi til að verða edrú. Það er ekkert óeðlilegt að fjölskyldumeðlimir séu að leggja áherslu á að reyna að stjórna neyslu alkóhólistans/fíkilsins til að lágmarka skaðlegu áhrifin á fjölskylduna. En þessar björgunaraðgerðir geta hindrað bata einstaklinganna sem eru í neyslu, þar sem verið er að hindra, að þeir takist sjálfir á við afleiðingarnar af ofneyslu sinni.

Einstaklingar sem beina athyglinni meira að tilfinningum og hegðun annarra, en sinni eigin hegðun, tapa tilfinningu fyrir sjálfum sér. Með tímanum vita þeir minna og minna hvað þeir sjálfir vilja t.d. hver eru þeirra áhugamál. Þeir hafa verið svo mikið inni í tilfinningalífi annarra að þeir þekkja ekki sínar eigin tilfinningar. Þessum einstaklingum getur liðið mjög illa, sjálfsvirðingin lítil og tilfinningarnar allar í flækju. Mikilvægt er fyrir þá að finna eigið sjálf og takast á við meðvirknina. Ein af leiðunum er að að læra að þekkja sjálfan sig og sinna sínum þörfum og löngunum til þess að geti tekið stjórn á eigin lífi, ekki lífi annarra.

Fortíðin er fortíð; Ég vil bara halda áfram

Að reyna að gleyma fortíðinni án þess að skilja hvaða áhrif hún hefur haft virkar yfirleitt ekki en getur framlengt neikvæð áhrif hennar. Sú hegðun sem einstaklingur lærði sem barn og með því að fylgja reglum fjölskyldunnar, er líkleg til að fylgja honum inn í sambönd sem hann fer í á fullorðinsárum, jafnvel þótt hann hafi aldrei ætlað sér það. Hann getur orðið undrandi yfir því að finna sambærilegar tilfinningar og hann fann heima hjá sér í æsku, kvíða, óánægju, sinnuleysi og tilfinningadeyfð. Enn fremur, þótt hann hafi ákveðið sem barn að drekka aldrei áfengi, vegna þess að foreldri misnotað áfengi, getur hann samt byrjað að misnota áfengi eða önnur efni. Auk þess gæti hann endurtekið mynstur sem hann lærði í æsku, verið með erfiðar uppákomur og farið í samband með alkóhólista/fíkli eða meðvirkum einstaklingi.

„Veganesti úr foreldrahúsum er oft dýrmætt en það getur líka verið manni fjötur um fót.   Því daprari sem reynsla fólks er því ríkari ástæða er til að staldra við og hugsa eða leita sér hjálpar til að brjóta upp mynstur sem eiga ekki erindi til næstu kynslóðar“ (Sæunn Kjartansdóttir, 2009).

Heimildir:

The University of Illinois http://counselingcenter.illinois.edu/brochures/growing-drinking-or-other-substance n airs at Illinois

Sæunn Kjartansdóttir. (2009). Árin sem enginn man: Áhrif frumbernskunnar á börn og fullorðna. Reykjavík: Mál og menning.

Bey, D. (2007). Loving an adult child of an alcoholic.

mbl.is
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Valgeir Magnússon
Valgeir Magnússon
Ásdís Ósk Valsdóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál