Að skilja eða ekki eftir framhjáhald

mbl.is/ThinkstockPhotos

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni, svarar spurningum lesenda. Hér spyr íslensk kona ráða en hún komst nýlega að því að maðurinn hennar hefur haldið fram hjá henni. Hún henti honum út en er núna í bobba því hún saknar hans svo mikið. 

Kæri Valdimar!

Heldur þú að hægt sé að fyrirgefa framhjáhald? Þannig er mál með vexti að ég var að komast að því að eiginmaður minn til 10 ára hafi haldið nokkrum sinnum fram hjá mér. Ég játa alveg að ég hef oft grunað hann um slíka hegðun en þegar ég hef gengið á hann hefur hann aldrei viðurkennt neitt. Að fá þetta svo staðfest eftir öll þessi ár er hræðilegt en hann játaði þetta fyrir mér fyrir nokkrum dögum.

Ég er alveg í rusli. Ég get ekki borðað og ekki sofið. Hann segir að þessi stelpa skipti engu máli og hann hafi bara þurft smá hlýju hjá stelpunni. Hann sagði að hann hafi fengið hlýju hjá henni sem ég var hætt að veita honum. Líf okkar var svo sem enginn dans á rósum. Hann drekkur mikið og þegar drykkjan er búin að vara lengi segir hann mér að hann vilji ekki lifa lengur.

Eftir að hann játaði framhjáhaldið sagði ég honum að drulla sér út – sem hann gerði. En guð hvað ég sakna hans mikið. Og mér finnst ég vera alger auli að hugsa svona. Heldur þú að við getum farið saman í ráðgjöf og lagað sambandið? Mun ég geta fyrirgefið honum?

Kveðja, X

Góðan daginn X og takk fyrir spurninguna.

Framhjáhald er augljóslega eitt af erfiðari viðfangsefnum parasambands og fjölmargar ólíkar tilfinningar sem bærast með fólki í slíkum aðstæðum. Það er mikið áfall að fá vitneskju um að traust hafi verið brotið á jafnalvarlegan hátt og algengt að sterk höfnunartilfinning komi fram. Fyrstu viðbrögð geta verið ofsafengin og birtast gjarnan í reiði eða heift en svo geta komið aðrar tilfinningar sem eru líka mjög erfiðar viðfangs, svo sem einmanaleiki, sorg og söknuður. Þetta er djúpur sársauki og honum fylgir gjarnan upplifunin um að það geti enginn annar fyllt tómið nema einstaklingurinn sem sorginni veldur. Það eru fullkomlega eðlilegar tilfinningar í þessum aðstæðum og engin ástæða til að draga þig niður fyrir að hafa þær. Það mætti meira að segja færa rök fyrir því að það væri í raun óeðlilegt að upplifa ekki slíkar tilfinningar þegar langvarandi sambandi lýkur á þennan hátt.

Rannsóknir sýna að flestir, sem halda fram hjá maka sínum, gera það einu sinni en ekki oftar. Þú nefnir að hann hafi haldið nokkuð oft fram hjá þér, en það getur haft áhrif á hversu vel þú getur treyst honum hér eftir. Það er gjarnan talað um að það að treysta sé ferli en að fyrirgefa sé ákvörðun. Maður veit ekki hvort maður geti treyst einhverjum sem maður þekkir nema með því að horfast í augu við staðreyndir: Hefur verið hægt að treysta viðkomandi hingað til? Til þess að vita hvort einhver sé traustsins verður þarf að gefa viðkomandi tíma og einfaldlega sjá hvort svo sé. Allir geta gert mistök og enginn er fullkominn en ítrekuð brot af þessu tagi eru farin að falla undir aðra hluti en einföld mistök. Nú hafið þið átt ykkar tíma og ljóst að hann setur það ekki fyrir sig að rjúfa traustið aftur og aftur. Sú staðreynd og lýsing þín á sambandi hans við drykkju bendir til þess að gott væri fyrir hann að leita sér faglegrar aðstoðar og styrkja sig.

Að fyrirgefa er ákvörðun sem skiptir ekki síst máli fyrir þig sjálfa því það er vont að burðast með ófyrirgefningu. Þú getur tekið ákvörðun fyrir þig um að fyrirgefa viðkomandi aðila þó að þú sért ekki að réttlæta eða samþykkja það sem gerst hefur. Það að fyrirgefa er eitt en að fara aftur í samband við viðkomandi er annað.

Ef á einhverjum tímapunkti þú ákveður að skoða þann möguleika að vera aftur með honum er ýmislegt sem skiptir máli. Fyrst og fremst þarf einlægan vilji beggja aðila til að takast á við þá vinnu sem það felur í sér að byggja upp samband eftir svona áföll. Ég mæli með því að þú vinnir með sjálfa þig, leitir þér áframhaldandi aðstoðar til að vinna úr áfallinu, styrkir þig og gerir það sem þér þykir skemmtilegt og gott. Að sama skapi mæli ég með því að þú bíðir með að taka ákvarðanir um framhaldið þangað til þér líður vel, ert sjálfri þér næg og getur betur metið hlutina án þess að söknuðurinn sé að hafa mikil áhrif á ákvörðunina.

Með bestu kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari póst HÉR. 

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál