Sárt að standa ekki með sínum nánustu

Linda Baldvinsdóttir.
Linda Baldvinsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

„Að standa með sér getur falið í sér svo óendanlega margt og mikið og fæst okkar átta sig á því hversu oft við förum út af þeirri braut. 

Margir foreldrar hafa þurft að standa með börnum sínum gegn hinu og þessu og við þekkjum líklega mörg vanmáttarkenndina og sorgina sem fylgir því að hafa ekki gert okkar allra besta til að verja og standa með þeim á stundum sem geta haft mótandi áhrif á framtíð þeirra,“ segir Linda Baldvinsdóttir, markþjálfi hjá Manngildi, í sínum nýjasta pistli: 

Ég veit a.m.k að ég hef brugðist á þessu sviði og sárast finnst mér að hugsa til þess að hafa ekki staðið þéttar við bak dóttur minnar á hennar fyrstu skólaárum þar sem hún var lögð í einelti, ekki bara af skólafélögum sínum heldur kennara sínum einnig. Ég stóð að vísu upp að lokum þegar ég gerði mér grein fyrir því hversu ill meðferð þetta var en líklega of seint þar sem búið var að brjóta sjálfsmynd dótturinnar og henni fannst hún kannski harla lítils virði. 

Á þessum tímum var það ekki þannig að börn væru lögð í einelti og enginn talaði um það, börnin þurftu bara að þjást og mæta í skólann – í besta falli voru þau send til skólasálfræðingsins sem leitaði allt hvað hann gat að finna brotalöm hjá heimilinu eða barninu sjálfu en alls ekki skólanum né brotamönnunum þess.  

En hin hrædda meðvirka ég stóð þó að lokum upp fyrir dóttur minni þegar við vorum báðar búnar á líkama og sál og var það gert með aðstoð sálfræðings frá Greininga[r]miðstöðinni sem sendi í kjölfarið skýrslu til skólans sem svo „týndi“ skýrslunni og kannaðist ekki við eitt né neitt.

Sem betur fer er stúlkan mín stór og litríkur persónuleiki sem alltaf kemur niður á fæturna og kallar ekki allt ömmu sína, hefur líklega lært sína lexíu af hörðum heimi og hún á fallegt og innihaldsríkt líf í dag sem ég er ákaflega stolt og þakklát fyrir og hún mun vonandi lifa hamingjusöm til æviloka eins og í ævintýrunum.

En núna ætla ég hinsvegar að tala um mig og þig!

Erum við að standa nógu vel með okkur sjálfum? Erum við að setja mörk fyrir líf okkar? Segjum við stopp við þá sem vilja vaða og valta yfir okkur? Leyfum við dónaskap og ljóta framkomu við okkur? Segjum við skoðun okkar? Leyfum við fólki að segja niðrandi setningar um okkur sjálf og förum í hnút vegna þeirra?

Þessar spurningar og fleiri er[u] okkur nauðsynlegar til aðgæslu dags daglega því að ef við ætlum að geta staðið þétt við bak annarra þurfum við einnig að geta staðið við okkar eigið bak.

Erum við í samskiptum við þá sem minnka okkur, geta ekki samglaðst okkur, lyfta okkur ekki upp og byggja okkur ekki upp heldur frekar rífa niður það sem við erum og gerum?

Ef við getum svarað þessum spurningum jákvætt þá er tími til kominn að staldra við og athuga hvort að við eigum ekki betra og fallegra skilið af okkur sjálfum.

Samkvæmt skilgreiningu Evans (1992) þá eru eftirtalin atriði það sem þú átt rétt á í samskiptum sama af hvaða tagi þau eru. (Þó að þarna sé verið að tala um samskipti á milli maka þá gilda sömu lögmál hvar sem er).

  •  Að eiga rétt á velvilja.
  •  Að fá tilfinningalegan stuðning.
  •  Að hlustað sé á þig og brugðist við óskum þínum með kurteisi.
  •  Að fá að hafa eigin skoðanir. 
  •  Að tilfinningar þínar og upplifanir séu samþykktar og virtar.
  •  Að vera beðin/n afsökunar á móðgandi eða særandi ummælum.
  •  Að fá hrein og bein svör við spurningum sem varða samskipti ykkar.
  •  Að vera laus við ásakanir og umvöndun.
  •  Að vera laus við útásetningar og dóma.
  •  Að talað sé um störf þín og áhugamál af virðingu.
  •  Að fá hvatningu.
  •  Að vera laus við hótanir af öllu tagi, tilfinningalegar og líkamlegar.
  •  Að vera laus við reiðiköst og bræði.
  •  Að sleppa við orð sem gera lítið úr þér.
  •  Að vera beðin/n en ekki skipað fyrir.

Og ef við erum að standa með okkur sjálfum þá stoppum við það sem ekki fellur undir þessa skilgreiningu, setjum semsagt mörk inn í okkar daglega líf bæði í vinnu og einkalífi.

Svo stöndum  með okkur, setjum mörk og leyfum engum að meiða okkur á nokkurn hátt og pössum að sama skapi að meiða ekki aðra heldur.

Og ef ykkur vantar aðstoð við að setja mörk þá er ekkert annað en að hafa samband við mig og fá aðstoð mína til þess. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál