58 ára og þorir ekki að skipta um vinnu

mbl.is/ThinkstockPhotos

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni 

Sæll Valdimar,

Er ég haldin einhvers konar meðvirkni ef mér finnst erfitt að taka ákvarðanir t.d. varðandi vinnu? Finn að ég er orðin pínu útbrennd og leið í starfinu mínu, sem ég hef sinnt í 11 ár og langar til að breyta um. En vandamálið er að ég er alltaf að humma það af mér, veit nefnilega ekki alveg hvað annað tæki við, en vil vinna áfram á sama vinnustað. Er orðin 58 ára. Hef líka velt því fyrir mér að tala við einhvern ráðgjafa varðandi mig sjálfa, hef örugglega gott af því.

Kærar, J

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg

Góðan daginn og takk fyrir þessa hugleiðingu.

Það er fullkomlega eðlilegt að eiga erfitt með að taka ákvarðanir, sérstaklega þær sem snúa að stóru atriðunum í lífinu eins og atvinnu, fjármálum, búsetu og samböndum. Það má segja að undirliggjandi ótti eigi þar stóra sök. Þessi ótti er að misjöfnum toga en það er algengast að hann stafi af þremur eftirfarandi hugleiðingum: A – óttinn við að sleppa einhverju sem við höfum nú þegar, B – óttinn við að við náum ekki tilætluðum markmiðum ef við gerum breytingar (til dæmis að við verðum ekkert ánægðari í nýju starfi) og C – óttinn við erfiðleikana og álagið sem gæti fylgt breytingum (þurfa að læra nýja hluti, umgangast nýtt fólk o.s.frv.).

Til þess að finna kraftinn bak við ákvarðanir sem við tökum þurfum við að leita svara við spurningum um það hvað raunverulega skiptir okkur máli. Af hverju langar þig að skipta um vinnu? Hvaða kosti sérð þú við að skipta um vinnu? Hverjir væri mögulegir gallar? Hverju hefur þú virkilega gaman af? Væri ný vinna að veita þér meira af því sem þú hefur gaman af? Með því að hugleiða svörin við þessum spurningum og beinlínis skrifa þau niður á blað, þá gætir þú fundið kraftinn sem þú leitar að við að taka ákvörðun.

Þú nefnir orðið „meðvirkni“ og hugleiðir hvort þú ættir að hitta einhvern fyrir sjálfa þig. Meðvirkni birtist meðal annars í því að eiga erfitt með að taka ákvarðanir, treysta illa eigin ákvörðunum og hugmyndum og að óttast breytingar. Það er að mínu mati gott fyrir alla að fá aðstoð við að fá skýrari mynd á það hver við erum og hvað við viljum í lífinu.

Gangi þér allt í haginn.

Með bestu kveðju, Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

mbl.is