Ertu enn þá að leita að hinum eina rétta?

Margar konur eiga nokkur sambönd að baki en eru vissar um að draumaprinsinn eigi enn þá eftir að birtast. Aðrar hafa bara gleymt sér í vinnu og skemmtun og finnst tími til kominn að skoða í kringum sig og festa ráð sitt. Þessi grein er got veganesti í þennan leiðangur.

Leitin að draumaprinsinum getur verið eins og ferðalag í gegnum frumskóg. Eigum við að velja ljónið eða gíraffann? Er lítil panda að henta okkur betur og af hverju er apinn svona ferlega spennandi? Gæti hann ekki bara haldið áfram að vera svona fyndinn, en fest ráð sitt og verið aðeins meira á sama stað?

Þegar við lítum inn á við og skoðum okkur í upphafi þess tíma að við erum tilbúnar að finna hinn eina rétta þá erum við á ágætis stað til að halda í leiðangurinn. Eitt er víst að ef þú ert enn þá á markaðnum, án þess að vilja vera það, er án efa verðugt verkefni að skoða af hverju. Ekki missa andann, haltu áfram að lesa.

Sæki ég í menn sem eru ófáanlegir?

Að sækja í menn sem hafa enga löngun til að fara í samband. Hafa hvorki getu til að tengjast konum eða áhuga á að kynna sig inni í sambandinu er sambærilegt því að sigla í kringum landið á bát sem lekur. 

Það getur verið voðalega spennandi í fyrstu en eitt er víst að róðurinn verður erfiður og vinnan brjálæðislega mikil.

Í upphafi þess ferðalags sem þú ætlar í skoðaðu þá bátana sem þú hefur valið þér hingað til. Ef þeir eru illa siglandi, þarftu virkilega að skoða af hverju þú velur þér slík farartæki. Oftast veljum við maka sem er gerður til að hafna okkur, þegar við erum á þeim stað að við treystum okkur ekki sjálfar í alvöru samband.

Þá er gott að leita til ráðgjafa og horfa í spegil. Í staðinn fyrir að eyða tímanum í að tala um hvað báturinn var erfiður til siglingar, prófaðu að spegla þig og spyrja: Af hverju vel ég ónýta báta? Algengt er að konur þurfi að vinna í samböndum sínum við feður sína á þessum stað. Og mundu að eftir nokkrar svona siglingar höfum við tilhneigingu til að velja okkur alltaf götóttari báta. Nema að við setjum stopp á sjóferðir um stund og skoðum málið. Þá komumst við fljótt að því að við bátahöfnina eru vanalega alls konar farartæki. Af hverju ekki að velja sér bara lúxushraðbátinn eða skemmtiferðaskipið? Það getur verið góð byrjun á einhverju nýju og spennandi!

Sæki ég í menn sem ég vil breyta?

Ein besta afþreying stúlku sem ætti kannski að skipta um starfsvettvang eða húsnæði, er að finna sér gallagrip til að vinna í. Mann sem þyrfti að fara í Al-anon, eða vinna úr gömlum áföllum en hefur enga sérstaka löngun í það.

Það getur verið frábær dægrastytting að velta sér allan daginn upp úr því hvað makinn væri frábær, ef bara hann stigi það skref að gera þetta eða hitt.

Þetta er dæmið um apann hér að ofan. Þessir menn eru nefnilega vanalega alveg hræðilega skemmtilegir og krúttlegir, en þeir sveifla sér vanalega á milli staða og eru aldrei lengi í sama trénu.

Gleymdu því að temja apann. Það tekur vanalega alla ævina og þegar þú hefur náð einhverjum tökum á honum þá er hann stokkinn í annað tré. Svo vanalega er það einhver önnur sem græðir á mannasiðunum sem þú ert að koma inn hjá honum.

Prófaðu að setja þér sem reglu að fara einungis út með þeim mönnum sem eru á sama stað og þú. Ef þú þarft að fara í Al-anon sjálf eða vinna úr áföllum, gerðu það áður en þú festir ráð þitt. Þannig finnur þú þér maka sem getur leikið við þig á jafnréttisgrundvelli og leikurinn verður frjálsari og eðlilegri fyrir báða aðila.

Mundu að apinn, er ótrúlega góður í fyrstu að þykjast vera öll hin dýrin í frumskóginum, þangað til að hann hefur náð þér í netið. Svo taktu þér góðan tíma að fara á stefnumót og sjá fyrir hvaða dýr þú ert að hitta.

Langar mig raunverulega í samband?

Eitt af því sem skiptir hvað mestu máli áður en maður fer í samband er að verða ástfanginn af sjálfum sér áður en maður verður ástfanginn af einhverjum öðrum.

Farðu í góða vinnu með þetta atriði. Vertu fjárhagslega sjálfstæð áður en þú ferð í samband og gerðu alltaf kröfur um að þið takið bæði ábyrgð á hlutum sem skipta máli í lífinu.

Margar konur halda að þær vilji fara í samband, á meðan það er alls ekki raunin. Þegar við erum hamingjusamar einar, þá fyrst erum við tilbúnar að deila hamingjunni með öðrum.

Gangi þér vel!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál